Réttarbót
Réttarbót (ft. réttarbætur), eru lög eða lagagreinar, sem konungar gáfu út sem viðauka við gildandi lögbækur.
Hér á Íslandi voru flestar réttarbætur miðaðar við Jónsbók, og eru þær oft teknar upp í Jónsbókarhandrit sem viðaukar aftan við lögbókina. Réttarbætur voru yfirleitt í formi innsiglaðs bréfs (konungsbréfs) til þegnanna. Þau voru lesin upp á Alþingi og hlutu þar með lagagildi.
Oft voru réttarbætur settar að ósk Alþingis, til þess að leysa úr málum eða aðstæðum sem Jónsbók hafði ekki nógu skýr ákvæði um.