Konungasögur
Konungasögur eru ævisögur norrænna konunga, skrifaðar á 12. og 13. öld, flestar á Íslandi, en nokkrar í Noregi. Flestar fjalla þær um Noregskonunga, nokkrar um Danakonunga.
Í eftirfarandi skrá er konungasögum raðað í tímaröð eftir því sem unnt er, en einhverjum áratugum getur skeikað.
- Bók á latínu eftir Sæmund fróða, um 1120, glötuð.
- Konungaævi í eldri gerðinni af Íslendingabók Ara fróða, um 1125, glötuð.
- Hryggjarstykki eftir Eirík Oddsson, um 1150, glatað.
- Historia Norvegiæ, um 1170.
- Sagan um hina fornu konunga Noregs eftir Þjóðrek munk, um 1180.
- Skjöldunga saga, um 1180, að mestu glötuð.
- Elsta saga Ólafs helga, um 1190, að mestu glötuð.
- Ágrip af Noregskonungasögum, um 1190.
- Ólafs saga Tryggvasonar eftir Odd Snorrason, rituð á latínu um 1190, varðveitt í íslenskri gerð.
- Ólafs saga Tryggvasonar eftir Gunnlaug Leifsson, rituð á latínu um 1195, glötuð.
- Sverris saga, eftir Karl Jónsson, um 1205.
- Helgisaga Ólafs Haraldssonar, um 1210.
- Morkinskinna, um 1220, eldri en Fagurskinna.
- Fagurskinna, um 1220.
- Ólafs saga helga eftir Styrmi fróða eða Lífssaga Ólafs helga, eftir Styrmi Kárason, um 1220, að mestu glötuð.
- Böglunga sögur, um 1225.
- Ólafs saga helga hin sérstaka, eftir Snorra Sturluson, um 1225.
- Heimskringla eftir Snorra Sturluson, um 1230.
- Knýtlinga saga, líklega eftir Ólaf Þórðarson hvítaskáld, um 1250.
- Hákonar saga Hákonarsonar, eftir Sturlu Þórðarson, um 1265.
- Magnúss saga lagabætis, eftir Sturlu Þórðarson, um 1280, aðeins lítið brot varðveitt.
- Hulda-Hrokkinskinna, um 1280.
- Ólafs saga Tryggvasonar hin mesta, um 1300.
Eftirtaldar sögur eru stundum taldar með konungasögum:
- Jómsvíkinga saga.
- Orkneyinga saga.
- Færeyinga saga.
- Brjáns saga, glötuð, en notuð að hluta í Njáls sögu.
- Eiríks saga Hákonarsonar eða Hlaðajarla saga, glötuð, en notuð í konungasögum.
- Hákonar saga Ívarssonar.