Vatíkanið

(Endurbeint frá Páfagarður)

Vatíkanið eða Páfagarður (latína: Status Civitatis Vaticanae, ítalska: Stato della Città del Vaticano), er landlukt land undir stjórn Hins helga stóls (latína: Sancta Sedes), æðsta yfirvalds kaþólsku kirkjunnar, sem er einráður yfir því. Landið er landlukt en eina ríkið sem það á landamæri að er Ítalía, enda er ríkið í raun inni í Rómarborg. Þar hefur páfinn aðsetur sitt og eru þar margar kirkjur og kapellur, þeirra á meðal hin fræga Sixtínska kapella.

Vatíkanið
Status Civitatis Vaticanae
Stato della Città del Vaticano
Fáni Vatíkansins Skjaldarmerki Vatíkansins
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Inno e Marcia Pontificale
Staðsetning Vatíkansins
Höfuðborg Vatíkanið
Opinbert tungumál ítalska
Stjórnarfar Einveldi

Páfi Frans
Forsætisráðherra Pietro Parolin
Nefndarforseti Giuseppe Bertello
Sjálfstæði
 • Lateransamningarnir 11. febrúar 1929 
Flatarmál
 • Samtals
194. sæti
0,49 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
240. sæti
453
924/km²
Gjaldmiðill Evra
Tímabelti UTC +1 (+2)
Þjóðarlén .va
Landsnúmer +379

Svæðið sem Vatikanið er á hefur lengi verið talið heilagt og þar voru fáar eða engar byggingar framan af. Þar er talið að ef til vill hafi verið rómverskur grafreitur, meðal annars vegna þess að fyrsta kirkjan þar á að hafa verið reist yfir grafhýsi heilags Péturs, árið 326. Þegar svæðið varð aðsetur biskupsins í Róm og síðar páfans þar í borg fór byggingum þar smám saman að fjölga, einkum eftir að Páfagarður fór að verða pólitísk stofnun og ekki aðeins trúarleg. Eftir fall Rómverska keisaradæmisins var Róm oftast undir stjórn páfa eða einhvers veldis sem naut stuðnings hans (svo sem hins þýska Heilaga rómverska keisaradæmis). Síðar varð það svo að páfi stýrði sjálfur löndum, sem saman voru kölluð Páfaríki. Þegar mestöll Ítalía sameinaðist í eitt ríki 1861 var Róm ekki með í hinu nýja ríki, það var ekki fyrr en 1870 að Róm, og þar með Vatikanið, var innlimuð í Ítalíu og gerð að höfuðborg. Páfagarður undi sér þó aldrei í ósjálfstæðinu, eftir að hafa lengi verið eitt mesta pólitíska afl Vesturlanda. Í langan tíma voru páfarnir ekki á því að hætta öllum diplómatískum afskiptum, sem þeir þó neyddust til að gera. Páfagarður og Ítalía deildu um þess mál allt til 1929 þegar fasistaríkisstjórnin á Ítalíu samþykkti sjálfstæði Vatikansins með Lateran-samningunum. Það var ekki fyrr en þá að Vatikanið, í þeirri mynd sem við þekkjum það nú, varð til. Á undanförnum árum, einkum í tíð Jóhannesar Páls páfa II. hefur Vatikanið svo farið að skipta sér af pólitískum málum á ný, og nýtir sér það að eiga áheyrnarsæti í flestum helstu alþjóðastofnunum nútímans.

Efnahagur

breyta

Efnahagskerfi Vatíkansins er einstakt í heiminum. Allar tekjur þess koma frá rómversk-kaþólskum kirkjum um allan heim, sölu á minjagripum og frímerkjum eða aðgöngu að söfnum Vatíkansins. Þar er enginn einkageiri og því sem næst allir vinna fyrir sömu stofnunina, Páfagarð. Þrátt fyrir þetta óvenjulega kerfi eru aðstæður íbúa mjög góðar og jafnvel betri en íbúa Rómar sjálfrar.

Lýðfræði

breyta

Íbúasamsetning Vatíkansins er frábrugðin flestum öðrum ríkjum heims vegna þess að allir íbúarnir búa þar vegna starfs síns. Meiripartur íbúanna er klerkar, sökum þess að þar eru höfuðstöðvar stærsta trúfélags heims, allt frá kardinálum til presta og yfir í óbreytta munka og nunnur. Flestir tala latínu starfs síns vegna, en koma frá hinum ýmsu stöðum heims og eiga því önnur móðurmál sem þeir nota dags daglega. Reyndar er stór hluti íbúanna af ítölsku bergi brotinn, en Ítalir hafa alltaf átt sterk ítök í æðstu stofnunum rómversk-kaþólsku kirkjunnar af sögulegum ástæðum. Flestir þeir sem búa í Vatíkaninu og eru ekki af klerkastétt, eru svissnesku verðirnir. Það er her hins sjálfstæða ríkis Vatíkansins, en allir sem í honum eru eru svissneskir. Af þeim sökum tala þeir þýsku sín á milli. Allir íbúar Vatíkansins eru, eðli málsins samkvæmt, rómversk-kaþólskir.

Merkilegir staðir

breyta
 
Séð yfir Péturstorgið, aðalaðkomu Vatíkansins.

Vatikanið var lengi vel ein helsta valdamiðstöð Evrópu og þar eru margar merkilegar stofnanir og byggingar. Þar er Basilíka heilags Péturs, sem er oft talin fallegasta kirkja heims, en óumdeilanlega sú stærsta. Kirkja sem byggð var árið 326 var fyrsta byggingin á því svæði sem í dag er Vatikanið. Sú sem stendur þar í dag var byggð á miðri 16. öld og þá voru veggir og loft skreytt með málverkum sem í dag eru mörg hver talin meðal þeirra allra fegurstu. Sixtínska kapellan var byggð á 15. öld að tilskipun Sixtusar Páfa IV og hefur sama grunnform og Musteri Salomóns. Hún er líka þakin freskum, þeirra frægust Sköpun Adams. Vatikanið rekur listasöfn, því listaverk Páfastóls eru ekki einungis þau sem á veggjunum eru, heldur líka margar styttur, málverk og fleiri stök verk. Þessi söfn eru talin eiga mörg fegurstu listaverka Evrópu sem páfar hafa í gegnum tíðina sankað að sér. Auk þess hýsa þau ýmsa muni tengda sögu kristni, kaþólsku og einkum Páfastólnum sjálfum, svo sem fyrrverandi hásæti páfa. Þar að auki er í Vatikaninu eitt merkasta skjalasafn heims, Hið leynda skjalasafn Vatikansins. Þar eru geymd flest skjöl sem Páfastóll hefur látið frá sér eða sankað að sér. 1922 var ákveðið að opna hluta þessa annars leynda skjalasafns fyrir vísindamönnum til rannsókna. Í páfatíð sinni opnaði Jóhannes Páll páfi II. fleiri hluta safnsins og meðal annars þá hluta þess sem snúa að Heimsstyrjöldinni síðari. Enn er þó mikill hluti þessa skjalasafns algjörlega leyndur óviðkomandi og eru uppi margar samsæriskenningar um hvað þar sé geymt.

Tilvísanir

breyta

Tenglar

breyta