Jóhannes Páll 2.

Páfi kaþólsku kirkjunnar frá 1978 til 2005
(Endurbeint frá Jóhannes Páll II)

Jóhannes Páll 2. (opinber útgáfa á latínu Ioannes Paulus PP. II) (18. maí 19202. apríl 2005) var páfi kaþólsku kirkjunnar frá 16. október 1978 til dauðadags.

Jóhannes Páll 2.
Jóhannes Páll árið 1984.
Skjaldarmerki Jóhanns Páls 2.
Páfi
Í embætti
16. október 1978 – 2. apríl 2005
ForveriJóhannes Páll 1.
EftirmaðurBenedikt 16.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. maí 1920
Wadowice, Póllandi
Látinn2. apríl 2005 (84 ára) Palatium Apostolicum, Vatíkaninu
ÞjóðerniPólskur (með vatíkanskan ríkisborgararétt)
TrúarbrögðKaþólskur
Undirskrift

Jóhannes Páll fæddist undir nafninu Karol Józef Wojtyła í Póllandi. Sem ungur mannfræðinemandi tók hann þátt í andspyrnu gegn nasismanum á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Hann hóf guðfræðinám árið 1942. Hann varð prestur árið 1946 eftir nám í Róm og Frakklandi og hóf preststörf í Póllandi, sem þá var komið undir járnhæl kommúnismans, árið 1948. Hann varð yngsti biskup Póllands árið 1958. Wojtyła var á þessum tíma mjög gagnrýninn á efnishyggju og barðist fyrir byggingu nýrrar kirkju í Nowa Huta í Kraká.

Á síðara Vatíkanþinginu á sjöunda áratugnum vakti Wojtyła athygli kardínálans Giovanni Battista Montini, sem síðar varð Páll 6. páfi, með tungumálahæfni sinni og guðfræðiþekkingu. Wojtyła varð erkibiskup og síðan kardínáli árið 1968. Hann varði starfsmenn kirkjunnar gegn ofríki pólsku kommúnistastjórnarinnar og talaði fyrir mannréttindum í Póllandi. Þegar Jóhannes Páll 1. páfi lést eftir aðeins einn mánuð í embætti árið 1978 var Wojtyła kjörinn til að setjast á páfastól eftir meðmæli kardínálans König. Hann tók sér nafnið Jóhannes Páll 2. til að heiðra forvera sinn. Jóhannes Páll 2. var fyrsti páfinn frá árinu 1522 sem ekki var ítalskur.

Sem páfi gagnrýndi Jóhannes Páll 2. kommúnisma í orði og verki, sérstaklega í Póllandi, og ýtti undir fall austurblokkarinnar með stuðningi sínum við mannréttindi. Hann bætti samskipti kaþólsku kirkjunnar við gyðinga, rétttrúnaðarkirkjuna, ensku biskupakirkjuna og múslima. Hann átti frumkvæði að trúarþingi mismunandi trúarbragða í Assísi árið 1986, en þar komu saman um 194 trúarleiðtogar.

Páfatíð Jóhannesar Páls (26 ár, 5 mánuðir og 18 dagar) var sú næstlengsta í sögu kaþólsku kirkjunnar. Hann heimsótti 129 lönd á páfatíð sinni og rúmlega fimmhundruð milljónir manns komu til að sjá hann í miklum fjöldasamkomum á þessum tíma. Oft er litið á Jóhannes Pál 2. sem einn áhrifamesta trúar- og stjórnmálaleiðtoga 20. aldarinnar. Jóhannes Páll páfi II. lést í Róm á 85. aldursári eftir erfið veikindi, meðal annars hjarta- og nýrnabilun. Frans páfi lýsti Jóhannes Pál 2. dýrling kaþólsku kirkjunnar þann 24. apríl árið 2014.

Tenglar

breyta


Fyrirrennari:
Jóhannes Páll 1.
Páfi
(16. október 19782. apríl 2005)
Eftirmaður:
Benedikt 16.


   Þetta æviágrip sem tengist trúarbrögðum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.