Norður-Maríanaeyjar
Norður-Maríanaeyjar (chamorro: Sankattan Siha Na Islas Mariånas) eru eyjaklasi í Vestur-Kyrrahafi. Eyjarnar eru, ásamt Gvam, hluti Maríanaeyjaklasans sem aftur er hluti Míkrónesíu. Landið er samveldisríki í sérstöku stjórnmálasambandi við Bandaríkin og, ásamt Púertó Ríkó, önnur tveggja eylendna með samveldisstöðu. Norður-Maríanaeyjar eru fimmtán en aðeins á þremur þeirra, Saípan, Tinian og Rota, er varanleg byggð. Bærinn Capitol Hill á Saípan er höfuðborg eyjanna. 90% íbúa eyjanna búa á Saípan.
Commonwealth of the Northern Mariana Islands | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Þjóðsöngur: Gi Talo Gi Halom Tasi | |
Höfuðborg | Saípan |
Opinbert tungumál | enska, chamorro, karólínska |
Stjórnarfar | Lýðveldi
|
Forseti | Joe Biden |
Landstjóri | Ralph Torres |
Landsfulltrúi | Arnold Palacios |
Bandarískt samveldisríki | |
• Stjórnarskrá | 9. janúar 1978 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
464 km² ~0 |
Mannfjöldi • Samtals (2010) • Þéttleiki byggðar |
53.883 113/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2016 |
• Samtals | 1,24 millj. dala |
• Á mann | 24.500 dalir |
Gjaldmiðill | Bandaríkjadalur |
Tímabelti | UTC+10 |
Þjóðarlén | .mp |
Landsnúmer | +1 670 |
Fyrstu íbúar eyjanna komu þangað fyrir 4000-2000 árum frá Suðaustur-Asíu. Þeir töluðu ástrónesískt mál, chamorro. Fyrsti evrópski leiðangurinn sem kom til eyjanna var leiðangur Magellans sem tók land á Gvam 1521 og lagði eyjarnar undir Spán. Þegar Spánverjar hófu búsetu á eyjum létust yfir 90% frumbyggjanna vegna sjúkdóma. Nýir íbúar voru fluttir til eyjanna frá Karlseyjum og Filippseyjum á 19. öld. Eftir stríð Spánar og Bandaríkjanna 1898 lét Spánn Bandaríkjunum Gvam eftir og seldi hinar eyjarnar, auk Karlseyja, til Þýskalands. Japan lagði eyjarnar undir sig í upphafi fyrri heimsstyrjaldar og í upphafi síðari heimsstyrjaldar gerðu Japanir innrás á Gvam frá Norður-Maríanaeyjum. Eftir stríðið fengu Bandaríkjamenn yfirráð yfir eyjunum.
Efnahagslíf Norður-Maríanaeyja byggist á ferðaþjónustu, fataframleiðslu og fjárframlögum frá Bandaríkjunum. Þar sem landið hefur samveldisstöðu gilda ekki sömu lög þar og í Bandaríkjunum, til dæmis lög um rétt verkafólks. Þetta hefur gert það að verkum að fataiðnaðurinn á Norður-Maríanaeyjum hefur vaxið þar sem hægt er að flytja fatnað til Bandaríkjanna sem „bandaríska framleiðslu“ þótt fötin séu framleidd af farandverkafólki frá Kína og Filippseyjum sem njóta ekki sömu réttinda og kjara og verkafólk í Bandaríkjunum. Eftir 2005 hefur þessum iðnaði hnignað þar sem nú er heimilt að flytja inn fatnað til Bandaríkjanna beint frá Asíu vegna GATT-samninganna.
Landfræði
breytaNorður-Maríanaeyjar eru hluti Maríanaeyja, ásamt eyjunni Gvam í suðri. Syðri eyjarnar eru úr kalksteini með flötum stöllum og kóralrifjum undan ströndinni. Nyrðri eyjarnar eru eldfjallaeyjar, með virk eldfjöll á mörgum eyjanna, þar á meðal Anatahan, Pagan, og Agrihan. Eldfjallið Agrihan er hæsti tindur eyjanna, 965 metrar á hæð. Fjallið var fyrst klifið af leiðangri undir stjórn John D. Mitchler og Reid Larson, 1. júní 2018.[1]
Anatahan er lítil eldfjallaeyja 130 km norðan við Saípan. Hún er um 10 km löng og 3 km breið. Eldgos hófst í austurgíg Anatahan 10. maí 2003. Síðan þá hafa skipst á tímabil eldvirkni og hvíldartímabil. Þann 6. apríl 2005 er talið að 1.416.000 rúmmetrar af ösku og hrauni hafi gosið úr fjallinu. Stórt öskuský sveif yfir Saípan og Tinian.[2]
- Nyrsti oddi – Farallon de Pajaros
- Austasti oddi – Farallon de Medinilla
- Syðsti oddi – Puntan Malikok, Rota
- Vestasti oddi – Farallon de Pajaros
Efnahagslíf
breytaNorður-Maríanaeyjar hafa notið góðs af stöðu sinni innan Bandaríkjanna með innflutningi ódýrs vinnuafls frá Asíu. Sögulega séð hefur efnahagslíf eyjanna byggst á ferðamönnum frá Japan og fataframleiðslu. Eftir að takmörkunum á innflutningi fatnaðar frá Asíu var aflétt af Alþjóðaviðskiptastofnuninni 2005 hefur fataiðnaðinum á Norður-Maríanaeyjum hnignað og öllum fataverksmiðjunum var lokað 2009. Sama ár hætti flugfélagið Japan Airlines flugi til eyjanna sem olli samdrætti í ferðaþjónustu.
Norður-Maríanaeyjar nýttu sér að vera hluti af Bandaríkjunum án þess að þar gilti sama vinnulöggjöf. Lágmarkslaun verkafólks voru lægri og réttindi minni en í Bandaríkjunum sjálfum, en fataverksmiðjurnar gátu samt merkt framleiðslu sína „Made in USA“. Með nýrri löggjöf um lágmarkslaun sem ríkisstjórn George W. Bush samþykkti 2007 hækkuðu lágmarkslaun á Norður-Maríanaeyjum í þrepum þar til þau urðu þau sömu og í Bandaríkjunum 2018.
Þar sem eyjarnar eru undanþegnar bandarískri vinnulöggjöf hafa fyrirtæki þar legið undir grun um misnotkun á verkafólki, barnaþrælkun, barnavændi og þvingaðar fóstureyðingar.[3][4]
Fyrir 2009 flutti mikið af farandverkafólki frá Kína til eyjanna (allt að 15.000 á ári þegar mest var) til að vinna í fataiðnaðinum. Eftir að takmörkunum á innflutningi fatnaðar frá Kína var aflétt 2005 hnignaði þessum iðnaði hratt og hann var talinn horfinn árið 2009.
Eyjarnar framleiða lítils háttar af landbúnaðarvörum eins og tapíóka, nautakjöti, kókos, brauðávöxt, tómata og melónur, en landbúnaður var aðeins um 1,7% af vergri landsframleiðslu árið 2016.[5]
Aðfluttir íbúar mega ekki eiga land á eyjunum, en geta leigt það.[6]
Menning
breytaÍþróttir
breytaBandarískir hermenn kynntu íbúa eyjanna fyrir vinsælum bandarískum hópíþróttum í Síðari heimsstyrjöld. Hafnarbolti er aðalíþrótt eyjanna. Lið frá eyjunum hafa keppt í Little League World Series og unnið til gullverðlauna á Míkrónesíuleikunum og Suður-Kyrrahafsleikunum.
Körfuknattleikur og blandaðar bardagaíþróttir njóta töluverðra vinsælda. Eyjaálfumeistaramótið í körfuknattleik 2009 var haldið á eyjunum. Blandaðar bardagaíþróttir eru stundaðar undir vörumerkinu Trench Wars og bardagamenn frá eyjunum hafa tekið þátt undir merkjum Pacific Xtreme Combat og Ultimate Fighting Championship.
Aðrar íþróttir sem stundaðar eru á eyjunum eru Ultimate Frisbee, blak, tennis, knattspyrna, siglingar á fjölbytnum, mjúkbolti, ruðningur, golf, hnefaleikar, sparkbox, tae kwon do, frjálsar íþróttir, sund, þríþraut og amerískur fótbolti.
Tilvísanir
breyta- ↑ Frick-Wright, Peter (15. janúar 2019). „The Obsessive Quest of High Pointers“. Outside. Sótt 30. janúar 2019.
- ↑ Observatory, HVO, Hawaiian Volcano. „Anatahan Volcano's Ash Clouds Reach New Heights“. hvo.wr.usgs.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. febrúar 2017. Sótt 3. febrúar 2017.
- ↑ Rebecca Clarren (9. maí, 2006). „Sex, Greed And Forced Abortions“. TomPaine.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. desember, 2007. Sótt 20. febrúar, 2008.
- ↑ Rebecca Clarren (2006). „Paradise Lost: Greed, Sex Slavery, Forced Abortions and Right-Wing Moralists“. Ms. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. júlí, 2006. Sótt 11. nóvember, 2006.
- ↑ „Australia - Oceania :: Northern Mariana Islands — The World Factbook - Central Intelligence Agency“. cia.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2017. Sótt 12. janúar 2020.
- ↑ „Overseas Territories Review: Northern Marianas Retains constitutional land ownership provisions“. Overseasreview.blogspot.com. 10. júní 2012. Sótt 29. ágúst 2015.