Isaac Newton

Sir Isaac Newton (f. 4. janúar 1643, d. 31. mars 1727) [en skv. Júlíska tímatalinu sem þá var í notkun: f. 25. desember 1642, d. 20. mars 1727] var enskur stærðfræðingur, eðlisfræðingur, stjarnfræðingur, náttúruspekingur og gullgerðarmaður. Hann bar höfuð og herðar yfir flesta samtímamenn sína og gjörbylti stærðfræði og eðlisfræði 17. aldar. Framlög hans til þessara fræða voru meðal annars örsmæðareikningur, aflfræðin, þyngdarlögmálið, lögmálið um hreyfingu reikistjarna á braut, tvíliðuröðin (binomial series), aðferð Newtons í tölulegri greiningu auk mikilla fræða um lausnir jafna og fleira. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar.

Isaac Newton, málverk eftir Godfrey Kneller (1689)
Newton getur líka átt við SI-mælieininguna njúton.

Newton sagðist þola illa gagnrýni og þess vegna birti hann ekki niðurstöður rannsókna sinna fyrr en seint og um síðir og sumar aldrei. Sem dæmi um þetta er sagt að Edmund Halley, sem halastjarna Halleys er kennd við, hafi árið 1684 stungið upp á því við Newton að hann kannaði hvernig það aðdráttarlögmál væri, sem leiddi af sér niðurstöður Keplers um hreyfingar reikistjarnanna. Þá svaraði Newton því til, að þetta væri hann búinn að leiða út fyrir mörgum árum, það væri lögmálið um andhverfu fjarlægðarinnar í öðru veldi. Halley var undrandi á að Newton skyldi ekki hafa gefið þetta út, og skoraði á hann að birta niðurstöður rannsókna sinna. Newton lét loks af því verða árið 1687, er hann gaf út höfuðrit sitt Philosophiae Naturalis Principia Mathematica, oftst nefnt Principia. Hin frægu þrjú lögmál Newtons, sem hann setti fram í Principia, leggja grunninn að klassískri aflfræði, en 2. lögmálið gefur tengsl krafts og hröðunar á þann veg að kraftur sé jafn margfeldi massa og hröðunar, þ.e. F = ma. (Lögmál Newtons stóðu óhögguð í rúm 200 ár, en afstæðiskenningin sýndi að breyta þurfti þeim þegar fengist var við hluti sem fara með hraða, sem er nærri ljóshraða.)

Þessi meinta viðkvæmni Newtons fyrir gagnrýni kom líka í veg fyrir að hann birti niðurstöður sínar í örsmæðareikningi fyrr en eftir að Leibniz hafði gert grein fyrir sínum niðurstöðum. Nú þykir nokkuð víst að Newton gerði uppgötvanir sínar á undan Leibniz, en lokaði þær niðri í skúffu. Leibniz hafði aldrei um þær heyrt er hann gerði sínar uppgötvanir fáum árum síðar og birti niðurstöðurnar strax. Þá loks dreif Newton sig til þess að koma sínum útreikningum á framfæri. Af þessum sökum eru þeir báðir taldir upphafsmenn örsmæðareiknings og er ekki gert upp á milli þeirra hvað það varðar.

SI-mælieining krafts, Newton, var nefnd í höfuðið á honum.

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni