John Locke (29. ágúst 163228. október 1704) var enskur heimspekingur, sem hafði feikileg áhrif með ritum sínum í þekkingarfræði og stjórnspeki. Hann var einn helsti upphafsmaður bresku raunhyggjuhefðarinnar og lagði grunninn að hugmyndafræði frjálslyndisstefnu með kenningum sínum. Kenningar Locke eiga rætur sínar að rekja til náttúruréttarhefðarinnar sem og nafnhyggjunnar[1]. Hann var mikilvægur boðberi upplýsingarinnar.

Vestræn heimspeki
Heimspeki 17. aldar
John Locke
Nafn: John Locke
Fæddur: 29. ágúst 1632Wrington í Somerset á Englandi)
Látinn: 28. október 1704 (72 ára) (í Essex á Englandi)
Skóli/hefð: Raunhyggja, frjálslyndi
Helstu ritverk: Ritgerð um mannlegan skilning, Ritgerð um ríkisvald
Helstu viðfangsefni: stjórnspeki, þekkingarfræði, frumspeki, hugspeki, uppeldisfræði
Markverðar hugmyndir: ríkisvald með samþykki þegnanna, uppreisnarréttur, náttúruleg ástand, „réttur til lífs, frelsis og eigna“
Áhrifavaldar: Platon, Aristóteles, Thomas Aquinas, René Descartes, Thomas Hobbes, Pierre Gassendi
Hafði áhrif á: Gottfried Wilhelm Leibniz, George Berkeley, David Hume, Immanuel Kant, Adam Smith, stofnfeður Bandaríkjanna, John Stuart Mill, John Rawls, Robert Nozick
Undirskrift:

Hugmyndir hans um mannlegt eðli voru ekki síður merkilegar. Hann var þeirrar skoðunar að maðurinn fæddist sem autt blað (l. tabula rasa) og það væri hlutverk menntunar að móta einstaklinginn frá grunni.

Ævi og störf

breyta

Locke fæddist í smábænum Wrington, Somerset í Suður-Englandi, skammt frá Bristol. Faðir hans, sem einnig hét John Locke, var lögfræðingur og hafði barist í Ensku borgarastyrjöldinni gegn konungnum. Bæði hann og kona hans, og móðir Lockes, Agnes Keene, voru púritanar. Fljótlega eftir fæðingu Lockes fluttist fjölskyldan um set til annars smábæjar, Pensford sem var skammt frá.

Árið 1647, er rofaði ögn til í Ensku borgarastyrjöldinni, var Locke sendur til náms í Westminster í London, þar sem þingmaðurinn Alexander Popham kenndi honum. Að því námi loknu stundaði hann heimspekinám í Oxford-háskóla, þrátt fyrir að hann hafi haft meiri áhuga á verkum Descartes en hinum klassísku fræðum sem kennd voru lauk hann B.A.-gráðu 1656 og mastersgráðu 1658. Samhliða náminu fékk hann mikinn áhuga á læknisfræði og vann við hlið þekktra vísindamanna eins og Robert Boyle, Thomas Willis, Robert Hooke og Richard Lower. Að náminu loknu vann hann í nokkur ár við skólann.

Árið 1666 kynntist Locke helsta foringja frjálslyndra manna í Bretlandi, Anthony Ashley-Cooper, lávarði (þekktur sem Shaftesbury jarl eftir 1672), sem átt hafði við vanheilsu að stríða, og gerðist einkalæknir hans. Locke fluttist til Shaftesburys í London ári seinna og lærði læknisfræði hjá Thomas Sydenham, þekktum lækni og hlaut gráðu árið 1674. Árið 1668 var honum veitt innganga í Hina konunglegu vísindaakademíu. Locke vann náið með Shaftesbury sem var gerður að dómsmálaráðherra Bretlands og þar með jarli árið 1672. Locke átti talsverðan þátt í að skrifa stjórnarskrá Karólínu árið 1669 sem á þeim tíma var bresk nýlenda og í umsjá Shaftesburys.[2] Shaftesbury féll úr náð Karls 2. konungs árið 1675 og þar með lauk opinberum ferli Lockes.

Locke hélt til Frakklands í leit að mildari veðurfari því hann var heilsuveill. Á ferðum sínum hóf hann að skrifa niður minnipunkta og fleira sem varð að Ritgerð um mannlegan skilning. Hann sneri aftur til Englands árið 1679 en varð að flýja til Hollands 1683 grunaður um hafa átt þátt í Rúghússamsærinu og þurfti að fara huldu höfði. Hann sneri aftur eftir Dýrlegu byltinguna 1688 sem hluti af fylgdarliði eiginkonu Vilhjálms 2. af Óraníu og gaf út rit sín, sem hann hafði áður samið, og lifði eftir það kyrrlátu lífi til dánardags.

Þekkingarfræði

breyta

Locke var raunhyggjumaður um mannlega þekkingu, sem merkir, að hann taldi, að öll þekking manna sprytti af reynslu þeirra, en væri þeim ekki eðlislæg. Mannshugurinn væri eins og autt blað, tabula rasa, sem reynslan setti síðan mark sitt á. Hann gerði grein fyrir kenningu sinni í Ritgerð um mannlegan skilning (e. An Essay Concerning Human Understanding, 1689) og hefur jafnan verið talinn einn einn helsti málsvari bresku raunhyggjumannanna ásamt George Berkeley og David Hume. Sumir fræðimenn telja að rekja megi upphaf nútímalegs skilnings á sjálfinu til Ritgerðar um mannlegan skilning.

Stjórnspeki

breyta
 
John Locke

Í bókinni Ritgerð um ríkisvald (e. The Second Treatise on Civil Government, 1689) kom Locke orðum að tveimur hugmyndum, sem margir tóku undir á næstu öldum. Hin fyrri var, að einkaeignarréttur gæti myndast af sjálfu sér og án þess að raska náttúrlegum réttindum manna, en hlutverk ríkisins væri að gæta eignarréttarins. Hin síðari var, að ríkið væri reist á þegjandi samkomulagi milli borgaranna, sem nefnt er samfélagssáttmálinn, en þegar valdhafar ryfu þetta samkomulag og virtu lítils eða einskis réttindi borgaranna, væri það réttur þeirra að rísa upp og hrinda þeim af höndum sér. Með síðari hugmyndinni varði Locke Dýrlegu byltinguna í Bretlandi 1688 og rökstuddi þrískiptingu ríkisvaldsins. Hún varð frjálslyndum stjórnmálahreyfingum 18. og 19. aldar mikil hvatning, til dæmis í bandarísku byltingunni 1776 og frönsku stjórnarbyltingunni 1789, og krafan um þingbundar konungsstjórnir, sem hljómaði víða í Norðurálfunni á 19. öld, meðal annars í Danmörku og á Íslandi, var ekki síst runnin undan rifjum Lockes. Í bók sinni, Stjórnleysi, ríki og staðleysur (e. Anarchy, State, and Utopia) blés Robert Nozick nýju lífi í stjórnspekihugmyndir Lockes.

Vinnukenningin um gildi

breyta

Locke taldi að gildi hlutar yrði til þegar vinna væri lögð í hann. Samkvæmt þessari kenningu getur fólk gert hlut að eign sinni með því að leggja í hann vinnu. Gildi hlutar ákvarðast því að verulegu leyti af þeirri vinnu sem lögð hefur verið í hann og því hvernig hann hefur verið nýttur. Engu að síður taldi Locke að framboð og eftirspurn væri það sem ákvarðaði verðgildi hlutar í frjálsum viðskiptum. En Locke taldi að vinnukenningin um gildi sýndi að einkaeignarrétturinn kæmi á undan ríkisvaldinu og að ríkisvaldið hafi því ekki leyfi til að gera það sem það vill við eigur þegnanna.

Helstu verk

breyta

Frekari fróðleikur

breyta
  • Ashcraft, Richard, Locke's Two Treatises of Government (London: Unwin Hyman, 1987).
  • Ashcraft, Richard (ritstj.), John Locke: A Critical Assessment 4. bindi (London: Routledge, 1991).
  • Ayers, Michael, Locke: Epistemology & Ontology (London: Routledge, 1991).
  • Chappell, Vere (ritstj.), The Cambridge Companion to Locke (Cambridge: Cambridge University Press, 1994).
  • Colman, John, John Locke's Moral Philosophy (Edinburgh: Edinburgh University Press, 1983).
  • Cox, Richard H., Locke on War and Peace (Oxford: Oxford University Press, 1960).
  • Dunn, John, Locke (Oxford: Oxford University Press, 1984).
  • Dunn, John, The Political Thought of John Locke: An Historical Account of the Argument of the Two Treatises of Government (Cambridge: Cambridge University Press, 1984).
  • Fraser, Edward, Locke (Oxford: Oneworld, 2007).
  • Grant, Ruth W., John Locke's Liberalism (Chicago: University of Chicago Press, 1987).
  • Lowe, E.J., Locke (London: Routledge, 2005).
  • Mackie, J.L., Problems From Locke (Oxford: Clarendon Press, 1976).
  • Tully, James, An Introduction to Political Philosophy: Locke in contexts (New York: Cambridge University Press, 1993).
  • Woolhouse, R.S., The Empiricists (Oxford: Oxford University Press, 1988).
  • Yolton, John W., Locke: An Introduction (Oxford: Blackwell, 1985).

Tilvísanir

breyta
  1. Gunnar Skirbekkog Nils Gilje. (2008). Heimspekisaga. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
  2. Sjá: The Fundamental Constitutions of Carolina : March 1, 1669 Geymt 14 október 2007 í Wayback Machine

Tenglar

breyta
  • Verk Lockes í netútgáfu
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:John Locke
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Locke's Political Philosophy
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:John Locke: 1632-1704
  • The Internet Encyclopedia of Philosophy:The Political Philosophy of John Locke
  • „Hvað getið þið sagt mér um John Locke?“. Vísindavefurinn.
  • „Umburðarlyndi og útilokun“ Geymt 4 júní 2009 í Wayback Machine, greın um Bréf varðandi umbuðarlyndi