Naúrú

(Endurbeint frá Nárú)

Naúrú (naúrúska: Naoero; enska: Nauru), formlega Lýðveldið Naúrú (naúrúska: Repubrikin Naoero; enska: Republic of Nauru), áður þekkt sem Sælueyja (enska: Pleasant Island), er eyríki og örríki í Míkrónesíu í miðju Kyrrahafi. Næsta eyja við Naúrú er Banaba sem er hluti af Kíribatí, um 300 km til austurs. Eyjan er norðvestan við Túvalú og 1300 km norðaustan við Salómonseyjar, austnorðaustan við Papúu Nýju-Gíneu, suðaustan við Míkrónesíu og sunnan við Marshall-eyjar. Landið er aðeins 21 ferkílómetri að stærð og þriðja minnsta ríki heims, á eftir Vatíkaninu og Mónakó. Naúrú er líka þriðja fámennasta sjálfstæða ríki heims, á eftir Vatíkaninu og Túvalú, með aðeins rúmlega 10.000 íbúa.

Lýðveldið Naúrú
Repubrikin Naoero
Republic of Nauru
Fáni Naúrú Skjaldarmerki Naúrú
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
God's Will First (Enska)
Guðs vilji fyrst
Þjóðsöngur:
Nauru Bwiema
Staðsetning Naúrú
Höfuðborg Jaren (löggjafinn)
Opinbert tungumál naúrúska og enska
Stjórnarfar Þingræði með forseta

Forseti David Adeang
Sjálfstæði
 • frá ástralskri umboðsstjórn 31. janúar 1968 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
193. sæti
21 km²
0,57
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
227. sæti
10.834
480/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 • Samtals 132 millj. dala (192. sæti)
 • Á mann 9.995 dalir (94. sæti)
Gjaldmiðill ástralskur dalur
Tímabelti UTC+12
Þjóðarlén .nr
Landsnúmer +674

Menn komu þangað fyrst frá Míkrónesíu um 1000 f.o.t. Þýska keisaradæmið lagði Naúrú undir sig seint á 19. öld. Eftir fyrri heimsstyrjöld féll Naúrú undir umboðsstjórn Þjóðabandalagsins, undir stjórn Nýja-Sjálands, Ástralíu og Bretlands. Japanar lögðu Naúrú undir sig í síðari heimsstyrjöld en herir bandamanna fóru fram hjá eyjunni í Kyrrahafsstríðinu. Eftir stríðið varð Naúrú verndarríki Sameinuðu þjóðanna, en fékk sjálfstæði árið 1968.

Efnahagslíf landsins byggðist áður á fosfatnámum. Auðvelt var að vinna fosfórít úr yfirborði eyjarinnar. Fosfatið rann til þurrðar á 10. áratug 20. aldar, eftir um hundrað ára námavinnslu sem hafði mikil neikvæð áhrif á umhverfið. Eyjan hefur síðan þá verið nefnd sem dæmi um auðlindabölvunina. Sjóður sem átti að taka við tekjum af námunum til að nýtast eftir að þær rynnu sitt skeið hefur minnkað að verðgildi. Þess í stað var reynt að skapa nýjan grundvöll með því að gera eyjuna að skattaparadís og miðstöð fyrir peningaþvætti. Ástralía hefur nokkrum sinnum veitt Naúrú fjárhagsaðstoð. Í staðinn hefur Naúrú séð um að taka við hælisleitendum Ástralíu í mjög umdeildum fangabúðum fyrir innflytjendur, Nauru Regional Processing Centre. Vegna þess hve landið er háð Ástralíu á mörgum sviðum er stundum talað um það sem skjólstæðingsríki. Naúrú á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Breska samveldinu og Samtökum ríkja í Afríku, Karíbahafi og Eyjaálfu.

Heiti breyta

Uppruni orðsins „Naúrú“ er ekki þekktur. Naúrúar kölluðu eyjuna Naoero eins og þeir gera enn. Þýski þjóðfræðingurinn Paul Hambruch, sem heimsótti eyjuna í maí 1909 og september til nóvember 1910, setti fram þá skýringu að Naoero væri samdráttur orðasambandsins „ã-nuau-a-a-ororo“ (sem í dag væri „A nuaw ea arourõ“), sem þýðir eitthvað í áttina að „ég er að fara á ströndina“.[1] Í orðabókinni Deutsches Kolonial-Lexikon (1920) var útskýring Hambruchs með orðinu Anáoero eða Ānā́ọĕṙọ tekin góð og gild.[2] Kaþólski trúboðinn Alois Kayser sem starfaði á Naúrú í meira en 30 ár og rannsakaði naúrúsku, hafnaði skýringu Hambruchs vegna þess að í naúrúsku er orðið „strönd“ andlag sagnar um hreyfingu. Setningin „að fara á ströndina“ væri því „rodu aröüro“ með sögninni rodu sem merkir að fara niður[3] af því Naúrúar líta á ströndina sem landfræðilega lægsta punktinn á eyjunni. Orðið rodu vantar því í skýringu Hambruchs á orðinu sem gerir skýringu hans á orðinu Naoero ófullnægjandi.[4]

Eftir að Evrópumenn uppgötvuðu eyjuna gáfu þeir henni ýmis önnur nöfn. Fyrir 1888 var hún nefnd Pleasant Island („Sælueyja“) eða Shank's Island á ensku. Þjóðverjar kölluðu hana Nawodo eða Onawero. Orðið Nauru var síðar búið til úr Naoero svo Evrópubúar og Bandaríkjamenn ættu auðveldara með að bera nafn eyjarinnar rétt fram.

Landfræði breyta

 
Kort af Naúrú.

Naúrú er 21 ferkílómetra[5] egglaga eyja í suðvesturhluta Kyrrahafsins, 55,95 km sunnan við miðbaug.[6] Eyjan er umkringd tindóttu kóralrifi sem sést á fjöru.[7] Rifið kemur í veg fyrir gerð stærri hafnar, þótt minni bátar geti siglt um mjó sund sem eru á rifinu.[8] Frjósöm strandlengja sem er 150 til 300 metrar á breidd liggur upp af ströndinni.[7]

Á miðri eyjunni er háslétta sem er umkringd klettum úr kóral. Hæsti punkturinn, Command Ridge, er í 71 metra hæð yfir sjávarmáli.[9]

Einu ræktarlöndin á eyjunni eru á mjórri strandlengjunni þar sem kókospálmar vaxa. Í kringum Buada-lón eru ræktaðir bananar, ananas, grænmeti, pandanlauf og harðviður, eins og tré af tegundinni Calophyllum inophyllum.[7]

Naúrú var ein af þremur helstu fosfóríteyjum Kyrrahafsins, ásamt Banaba á Kíribatí og Makateu í Frönsku Pólýnesíu. Fosfatbirgðir Naúrú eru nú nær alveg upp urnar og námagröfturinn á miðhálendi eyjarinnar hefur skilið eftir ófrjótt landslag með kalksteinsstrýtum sem ná allt að 15 metra hæð. Námavinnslan eyðilagði um 80% af landi Naúrú og gerði það óbyggilegt.[10] Hún hafði líka neikvæð áhrif á landhelgi Naúrú þar sem talið er að 40% sjávarlífvera hafi drepist vegna afrennslis á seti og fosfati.[7][11]

Veðurfar breyta

Veðurfar á Naúrú er heitt og rakt allt árið vegna nálægðar við miðbaug og sjó. Hitastigið á Naúrú er á milli 26-35°C á daginn og 22-34°C á nóttunni.

Stjórnmál breyta

Stjórnsýsluumdæmi breyta

 
Kort sem sýnir umdæmin á Naúrú.

Naúrú er skipt í 14 stjórnsýsluumdæmi sem deilast á átta kjördæmi og skiptast í þorp.[7][5] Denigomodu er fjölmennasta umdæmið með 1.804 íbúa, þar af 1.497 sem búa í byggð á vegum ríkisrekna námafyrirtækisins RONPhos sem nefnist einfaldlega Location („Staður“). Taflan hér fyrir neðan sýnir umdæmin með mannfjölda miðað við manntal frá 2011.[12]

Nr. Umdæmi Eldra
nafn
Stærð
(ha)
Íbúar
(2011)
Fjöldi
þorpa
Þéttleiki
(íbúar/ha)
1 Aiwo Aiue 110 1.220 8 11,1
2 Anabar Anebwor 150 452 15 3,0
3 Anetan Añetañ 100 587 12 5,9
4 Anibare Anybody 310 226 17 0,7
5 Baitsi Beidi, Baiti 120 513 15 4,3
6 Boe Boi 50 851 4 17,0
7 Buada Arenibok 260 739 14 2,8
8 Denigomodu Denikomotu 118 1.804 17 15,3
9 Ewa Eoa 120 446 12 3,7
10 Ijuw Ijub 110 178 13 1,6
11 Meneng Meneñ 310 1.380 18 4,5
12 Nibok Ennibeck 160 484 11 3,0
13 Uaboe Ueboi 80 318 6 3,0
14 Yaren Moqua 150 747 7 4.0
Naúrú Naoero 2.120 10.084 169 4,8

Íbúar breyta

 
Kirkja á Naúrú.

Íbúar Naúrú voru rúmlega 12 þúsund árið 2023. Áður bjuggu mun fleiri á eyjunum, en árið 2006 fluttust 1500 aðfluttir verkamenn frá Kíribatí og Túvalú þaðan eftir uppsagnir í fosfatnámunum.[13]

Opinber tungumál á Naúrú eru naúrúska og enska. Naúrúska er míkrónesískt mál sem um 96% af Naúrúum tala heima við.[13] Enska er hins vegar líka töluð víða og er notuð sem stjórnsýslu- og verslunarmál.[5][7]

Kristni er algengustu trúarbrögðin á Naúrú. Helstu kirkjudeildir eru Sóknarkirkja Naúrú (35,7%), kaþólska kirkjan (33,0%), hvítasunnukirkjan (Assemblies of God - 13,0%) og baptistakirkjan (1,5%).[7] Trúfrelsi er tryggt í stjórnarskrá, en stjórnvöld hafa takmarkað athafnir trúfélaga á borð við Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu og Votta Jehóva, þar sem flestir meðlimir eru erlendir verkamenn sem starfa fyrir ríkisrekna fosfatnámufyrirtækið.[14] Kaþólski söfnuðurinn á Naúrú heyrir undir biskup með aðsetur á Tarawa á Kíribatí.

Tilvísanir breyta

  1. Paul Hambruch: Nauru. Í Hamburger Südsee-Expedition 1908–1910. Hamburg 1914/15, Reihe II B, Bd. 1.
  2. Geymt [Date missing] í ub.bildarchiv-dkg.uni-frankfurt.de [Error: unknown archive URL]
  3. Zitiert nach: Hermann Joseph Hiery (ritstj.): Die deutsche Südsee 1884–1914. Ein Handbuch. 2. útgáfa. Schöningh, Paderborn u. a. 2002, ISBN 3-506-73912-3, S. 22.
  4. Aloysius Kayser: „Die Eingeborenen von Nauru (Südsee).“ Í Anthropos. vol. 12/13, 1917/18, s. 315–316.
  5. 5,0 5,1 5,2 Central Intelligence Agency (2015). „Nauru“. The World Factbook. Sótt 8. júní 2015.
  6. Map Developers. „Google Maps Distance Calculator“. Afrit af uppruna á 22. ágúst 2017. Sótt 7. mars 2020.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 7,4 7,5 7,6 „Background Note: Nauru“. State Department Bureau of East Asian and Pacific Affairs. 13. mars 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. október 2012.
  8. Thaman, RR; Hassall, DC. „Nauru: National Environmental Management Strategy and National Environmental Action Plan“ (PDF). South Pacific Regional Environment Programme. bls. 234. Afrit (PDF) af uppruna á 11. maí 2012. Sótt 18. júní 2012.
  9. Jacobson, Gerry; Hill, Peter J; Ghassemi, Fereidoun (1997). „24: Geology and Hydrogeology of Nauru Island“. Í Vacher, H Leonard; Quinn, Terrence M (ritstjórar). Geology and hydrogeology of carbonate islands. Elsevier. bls. 716. ISBN 978-0-444-81520-0.
  10. Watanabe, Anna (16. september 2018). „From economic haven to refugee 'hell'. Kyodo News. Afrit af uppruna á 17. september 2018. Sótt 17. september 2018.
  11. „Climate Change – Response“ (PDF). First National Communication. United Nations Framework Convention on Climate Change. 1999. Afrit (PDF) af uppruna á 6. ágúst 2009. Sótt 9. september 2009.
  12. „Nauru—The population of the districts of the Republic of Nauru“. City Population. 2011. Afrit af uppruna á 23. september 2015. Sótt 10. júní 2015.
  13. 13,0 13,1 „Country Economic Report: Nauru“ (PDF). Asian Development Bank. bls. 6. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. júní 2011. Sótt 20. júní 2012.
  14. „Nauru“. International Religious Freedom Report 2003. US Department of State. 2003. Sótt 2. maí 2005.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.