Mars (reikistjarna)

Reikistjarna í sólkerfinu

Mars er fjórða reikistjarnan frá sólu talið og sú ysta af innri reikistjörnunum. Mars er nefndur eftir rómverska stríðsguðinum, sökum hins rauða litar sem prýðir yfirborðið, en stafar af járnríku bergi og ryki sem hefur oxast („ryðgað“). Vegna hins rauða litar er hún einnig oft kölluð „Rauða plánetan“. Yfirborð Mars einkennist af miklum gljúfrum og stórum eldfjöllum.

Mars ♂
Litmynd af Mars, brúnrauður hnöttur með dökkum og ljósum skellum
Tölvugerð mynd af Mars sem sett er saman úr myndefni frá Mars Global Surveyor frá árunum 1999 til 2004. Á myndinni sést hvít ísþekjan á norðurheimskautinu en önnur ljós svæði á myndinni stafa af hrímmóðu í kringum hæstu fjöll Mars, þar á meðal Olympus Mons. Dekkri svæðin hægra megin á myndinni eru svæði með þynnra eða engu jarðvegslagi.
Einkenni sporbaugs[2]
Viðmiðunartími J2000
Sólnánd206.669.000 km
1,381497 AU
Sólfirrð249.209.300 km
1,665861 AU
Hálfur langás227.939.100 km
1,523679 AU
Miðskekkja0,093 315
Umferðartími686,971 s

1,8808 ár

668,5991 sólir
Sólbundinn umferðartími779,96 s
2,135 ár
Meðal sporbrautarhraði24,077 km/s
Meðalbrautarhorn19,3564°
Brautarhalli1,850° miðað við sólbaug
5,65° miðað við miðbaug sólar
1,67° miðað við fastasléttu[1]
Rishnútslengd49,562°
Stöðuhorn nándar286,537°
Tungl2
Eðliseinkenni
Miðbaugsgeisli3.396,2 ± 0,1 km [3]
0,533 jörð
Heimskautageisli3.376,2 ± 0,1 km [3]
0,531 jörð
Pólfletja0,00589 ± 0,00015
Flatarmál yfirborðs144.798.500 km2
0,284 jörð
Rúmmál1,6318 1011 km3[4]
0,151 jörð
Massi6,4185 1023 kg[4]
0,107 jörð
Þéttleiki3,9335 ± 0,0004[4] g/cm³
Þyngdarafl við miðbaug3,711 m/s²[4]
0,376 g
Lausnarhraði5,027 km/s
Snúningshraði við miðbaug868,22 km/k
Möndulhalli25,19°
Stjörnulengd norðurpóls317,68143°
Stjörnubreidd norðurpóls52,88650°
Endurskinshlutfall0,170 [5]
Yfirborðshiti lægsti meðal hæsti
Kelvin 130 K 210 K[7] 308 K
Celsius −143 °C[8] -63 °C 35 °C[9]
Sýndarbirta+1,6 to −3,0[6]
Sýndarþvermál3,5–25,1"[7]
Lofthjúpur[7][10]
Loftþrýstingur við yfirborð0,636 (0,4–0,87) kPa
Samsetning

Í kínverskri, japanskri, kóreskri og víetnamskri menningu er hún kölluð Eldstjarnan, byggt á frumefnunum fimm.

Tvö tungl, Fóbos og Deimos eru á sporbraut um hana, en þau eru bæði smágerð og hafa einkennilega lögun, Fóbos er stærri en Deimos, en sporbaugur hans er mun styttri – þau eru líklega loftsteinar sem þyngdarafl Mars fangaði.

Eiginleikar

breyta

Mars er um það bil helmingi minni en Jörðin að þvermáli, og yfirborðsflatarmál hans aðeins minna en heildarflatarmál alls þurrlendis á Jörðinni. Mars er ekki eins þéttur í sér og Jörðin, hann hefur um 15% rúmmáls hennar og 11% massans. Þótt Mars sé bæði stærri og massameiri en Merkúr er Merkúr eðlisþyngri. Þetta þýðir að þyngdarafl plánetnanna tveggja er næstum það sama við yfirborð þeirra—þyngdarafl Mars er um 1% sterkara. Hematít gefur yfirborði Mars sinn einkennandi rauða lit. Útlit hans er þó breytilegt og getur verið appelsínugult, brúnt eða grænt á litinn, allt eftir þeim efnum sem er að finna á yfirborðinu.

Innri uppbygging

breyta

Mars er, eins og Jörðin, marglaga að uppbyggingu. Innst er þéttur málmkjarni og utan um hann lög úr léttari efnum. Eftir nýjustu rannsóknir er gert ráð fyrir að radíus kjarnans sé 1.795 ± 65 km og að hann sé aðallega úr járni og nikkeli, auk um 16–17% brennisteins (saman mynda þessi efni járnsúlfíð). Kjarninn er talinn vera tvisvar sinnum ríkari af léttari efnum en kjarni Jarðarinnar. Möttull úr sílíkati, sem myndaði megnið af fleka- og eldfjallafyrirbærunum sem er að finna á yfirborði Mars í dag, umlykur kjarnann . Það lítur út fyrir að möttullinn sé nú orðinn óvirkur. Fyrir utan kísil og súrefni eru algengustu efnin í skorpu Mars járn, magnesín, ál, kalk og kalín. Meðaltalsþykkt skorpunnar er um 50 km, en hámarksþykktin 125 km. Meðaltalsþykkt skorpu Jarðarinnar er aðeins 40 km, sem er hlutfallslega einungis um þriðjungur þykktar skorpu Mars, miðað við stærð plánetnanna.

Jarðfræðilegir eiginleikar yfirborðsins

breyta

Mars er svokölluð bergpláneta sem er úr steinefnum sem innihalda kísil, súrefni, málma og önnur efni sem berg er venjulega úr. Yfirborð Mars er aðallega úr þóleiítbasalti, en á sumum svæðum er bergið kísilríkara en dæmigert basalt og gæti verið svipuð andesítbergi sem finnst á Jörðinni, eða kísilgleri. Á svæðum þar sem endurskin er minna er meira magn af plagíóklasi en á norðanverðum endurskinslitlum svæðum er meira magn af plötusílíkötum og kísilríku gleri. Á hálendinu í suðri hafa kalkrík pýroxen fundist í greinanlegu magni. Staðir með háu hematít- og ólivínhlutfalli hafa líka fundist. Meginhluti yfirborðsins er þakinn fíngerðum járnoxíðkornum.

Þótt engin merki hafi fundist um virkt hnattrænt segulsvið hafa athuganir leitt í ljós að hlutar yfirborðs plánetunnar hafi verið segulmagnaðir, og að skautun segulsviðs hafi umsnúist nokkrum sinnum í fortíðinni. Skautunarrendur sem staðfesta þetta má finna í segulnæmum efnum, alveg eins og í lögum á hafsbotni sums staðar á Jörðinni. Í einni kenningu er því haldið fram að þessar rendur sýni að flekavirkni hafi verið á Mars fyrir fjórum milljörðum ára, áður en rafallinn í kjarna og möttli plánetunnar dvínaði og segulsviðið dofnaði.

Í myndun sófkerfisins varð Mars til úr frumplánetudiski sem var á sporbraut um sólina vegna tilviljanakennds samrunaferlis. Mars hefur marga sérkennandi efnafræðilega eiginleika sem stafa af stöðu hans í sólkerfinu. Efni með hlutfallslega lágt suðumark, svo sem klór, fosfór og brennisteinn eru algengari á Mars en á Jörðinni. Sennilegt er að orkumiklir sólvindar ungu sólarinnar hafi á sínum tíma ýtt þessum efnum utar í sólkerfið.

Eftir myndun plánetnanna urðu þær allar fyrir mörgum árekstrum á svokallaða „Árekstratímabilinu mikla“ (e. Late Heavy Bombardment). Merki um árekstra frá þessu tímabil er að finna á um 60% yfirborðs Mars og sennilegt er að undir því sem þá er eftir af yfirborðinu liggi stórar dældir sem hafi myndast vegna þessara árekstra. Finna má merki um stóra árekstrardæld á norðurhveli Mars, rúmlega 10.600 km langa og 8.500 km breiða, sem er þá fjórum sinnum stærri en Suðurskauts–Aitkendældin á tunglinu, stærsta árekstrardæld sem hingað til hefur fundist. Kenningin um tilurð hennar bendir til þess að hlutur á stærð við Plútó hafi rekist á Mars fyrir fjórum milljörðum ára og myndað þessa sléttu Borealis-dæld, sem nær yfir 40% plánetunnar.

Jarðfræðilegri sögu Mars má skipta í mörg tímabil, en þrjú eftirfarandi tímabil eru þau helstu:

  • Nóakskeiðið
  • Hesperskeiðið
  • Amazonisskeiðið

Vatnafræði

breyta

Kenningar eru um að vatn sé að finna á Mars en það er a.m.k. ekki í fljótandi formi - vegna lágs loftþrýstings er suðumark vatns 0° á Selsíus svo að það myndi gufa upp um leið og það kæmi upp á yfirborðið. Fram hafa komið kenningar um að hugsanlega sé ís að finna undir yfirborðinu. Rannsóknir gefa til kynna að meðaltalshlutfall vatns í andrúmsloftinu á Mars sé um 0,03%.

Andrúmsloft

breyta

Það er rúmlega fimm sinnum meira af koltvísýringi í andrúmsloftinu á Mars en á Jörðinni. Yfir 95% lofthjúpsins á Mars er koltvísýringur á móti aðeins um 0,035% af koltvísýringi í andrúmsloftinu á jörðinni. Koltvísýringur er byggingarefni plantna, sem þær breyta í súrefni og kolvetni. Því mætti með ljóstillífun plantna vinna súrefni sem fólk gæti andað að sér auk þess sem hún gæti búið til mat sem það borðaði og eldsneyti á vélar sem það notaði.

Sjá aðalgrein um tungl Mars.

Um Mars ganga tvö tungl, Fóbos og Deimos, sem eru bæði lítil[11] og óreglulega löguð[12] og alls ekki ósvipuð þeim aragrúa smástirna sem er að finna á milli Mars og Júpíters.[13] Eins og tungl Jarðarinnar snúa tungl Mars ávallt sömu hlið að plánetu sinni.[14][11] Mikið af þeim upplýsingum sem til eru um tunglin hafa fengist úr geimferðum Mariner og Viking í umsjá Geimferðastofnunar Bandaríkjanna og úr Fóbos-geimferðaáætlun Geimferðastofnunar Sovétríkjanna.[13]

Einkennandi er að tunglin tvö snúast hvort í sína áttina um Mars, Deimos frá austri til vesturs en Fóbos frá austri og sest í vestri.[11]

Eldvirkni

breyta

Eldfjöll á Mars eru stærri en þau sem finnast á jörðinni vegna þess að ekkert landrek er á Mars og þess vegna verða ekki til ný eldfjöll, heldur stækka þau sem fyrir eru. Olympus Mons er stærsta eldfjallið sem menn vita um, en það nær yfir landsvæði á stærð við Ísland og er um 27 km á hæð. Mesti hæðarmunur á Jörðu, á Everestfjalli og dýpstu úthafsgjám, er til samanburðar tæpir 20 kílómetrar.

Tilvísanir

breyta
  1. „The MeanPlane (Invariable plane) of the Solar System passing through the barycenter“. 3. apríl 2009.
  2. Donald K. Yeomans: „HORIZONS Web-Interface for Mars (Major Body=499)“. JPL Horizons On-Line Ephemeris System, 13. júlí 2006.
  3. 3,0 3,1 P. Kenneth Seidelmann, B. A. Archinal, M. F. A’hearn, A. Conrad, G. J. Consolmagno, D. Hestroffer, J. L. Hilton, G. A. Krasinsky, G. Neumann, J. Oberst, P. Stooke, E. F. Tedesco, D. J. Tholen, P. C. Thomas, I. P. Williams. „Report of the IAU/IAG Working Group on cartographic coordinates and rotational elements“. Celestial Mechanics and Dynamical Astronomy. 98 (3), bls. 155-180, júlí 2007. 
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 Katharina Lodders, Bruce Fegley. The planetary scientist's companion. Oxford University Press US, 1998, bls. 190. ISBN 0-19-511694-1.
  5. Mallama, A. (2007). „The magnitude and albedo of Mars“. Icarus. 192 (2): 404–416. Bibcode:2007Icar..192..404M. doi:10.1016/j.icarus.2007.07.011. ISSN 0019-1035.
  6. Mallama, A.. „Planetary magnitudes“. Sky and Telescope. 121(1), bls. 51–56, 2011. 
  7. 7,0 7,1 7,2 David R. Williams: „Mars Fact Sheet“. National Space Science Data Center [á vefnum]. NASA, 1. september 2004.
  8. „What is the typical temperature on Mars?“. Astronomycafe.net [á vefnum]. [skoðað 14-08-2012].
  9. „Mars Exploration Rover Mission: Spotlight“. Marsrover.nasa.gov [á vefnum]. NASA. [skoðað 14-08-2012].
  10. Nadine G. Barlow. Mars: an introduction to its interior, surface and atmosphere. Bindi 8. Cambridge University Press, 2008, bls. 21, ritröð: Cambridge planetary science. ISBN 0-521-85226-9.
  11. 11,0 11,1 11,2 „Upplýsingar um Mars á stjörnufræðivefnum“. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. júlí 2011. Sótt 24. maí 2011.
  12. THE MOONS OF MARS: PHOBOS AND DEIMOS eftir Kathy Miles á ensku
  13. 13,0 13,1 Geological History:Moons of Mars eftir Scott Ellis á ensku
  14. „Hvað heita tungl Mars?“. Vísindavefurinn.

Tenglar

breyta