Kosta Ríka

(Endurbeint frá Kostaríka)

Kosta Ríka (spænska: Costa Rica, bókst. „Auðströndin“) er land í Mið-Ameríku með landamæri að Níkaragva í norðri og Panama í suðri, og strönd að Kyrrahafi í suðvestri (og Ekvador sunnan við Kókoseyju) og Karíbahafi í austri. Íbúar eru um 5 milljónir á landi sem þekur um 50.000 ferkílómetra. Um 350.000 búa í höfuðborginni, San José, en um 2 milljónir búa á höfuðborgarsvæðinu.

Lýðveldið Kosta Ríka
República de Costa Rica
Fáni Kosta Ríka Skjaldarmerki Kosta Ríka
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
¡Pura vida!
(spænska: „Þetta er lífið!“)
Þjóðsöngur:
Noble patria, tu hermosa bandera
Staðsetning Kosta Ríka
Höfuðborg San José
Opinbert tungumál spænska (opinbert), (enska við ströndina)
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Rodrigo Chaves
Sjálfstæði frá Spáni
 • Yfirlýst 15. september 1821 
 • Frá Fyrsta mexíkóska keisaradæminu 1. júlí 1823 
 • Frá Sambandslýðveldi Mið-Ameríku 1838 
 • Viðurkennt af Spáni 10. maí 1850 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
126. sæti
51.100 km²
0,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2018)
 • Þéttleiki byggðar
123. sæti
4.999.441
85/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 95,791 millj. dala (89. sæti)
 • Á mann 18.651 dalir (77. sæti)
VÞL (2018) 0.794 (68. sæti)
Gjaldmiðill colón (CRC)
Tímabelti UTC-6
Þjóðarlén .cr
Landsnúmer +506

Kosta Ríka er forsetalýðveldi. Landið er þekkt fyrir stöðugleika og menntað vinnuafl þar sem flestir íbúar tala ensku, auk spænsku. Kosta Ríka ver um 6,9% vergrar landsframleiðslu til menntunar (2016), en meðaltalið í heiminum er 4,4%. Efnahagslíf landsins var eitt sinn háð landbúnaði en byggist nú á fleiri stoðum, eins og fjármálaþjónustu, þjónustu við erlend fyrirtæki, lyfjaframleiðslu og visthæfri ferðamennsku. Mörg erlend fyrirtæki reka starfsstöðvar á fríverslunarsvæðum í Kosta Ríka þar sem þau njóta skattfríðinda.

Fyrir komu Spánverja var Kosta Ríka dreifbýlt land byggt nokkrum ólíkum frumbyggjaþjóðum. Það var lengi jaðarhérað í Nýja Spáni en fékk sjálfstæði frá Fyrsta mexíkóska keisaradæminu og varð síðan hluti af Sambandslýðveldi Mið-Ameríku. Landið lýsti formlega yfir sjálfstæði frá sambandslýðveldinu 1847. Kosta Ríka lagði her sinn niður með stjórnarskrárbreytingu 1949 í kjölfar skammvinnrar borgarastyrjaldar. Kosta Ríka er því eitt fárra landa í heiminum með engan her.

Kosta Ríka hefur lengi verið hátt skrifað í Vísitölu um þróun lífsgæða, í 68. sæti á heimsvísu og 5. sæti í Rómönsku Ameríku. Landið hefur líka verið nefnt af Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna sem dæmi um mjög þróað land miðað við önnur lönd á sama tekjubili. Kosta Ríka kemur betur út miðað við þróun og jöfnuð en önnur lönd í sama heimshluta.

Umhverfisstefna Kosta Ríka er framsækin. Landið er það eina sem uppfyllir öll fimm skilyrði sjálfbærrar þróunar sem Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur sett fram.[1] Landið var í 42. sæti á heimsvísu og í 3. sæti í Ameríku á Umhverfisvísitölunni og var í efsta sæti á Happy Planet-vísitölunni sem mælir sjálfbærni. New Economics Foundation lýsti því yfir 2009 að landið væri það grænasta í heimi. Kosta Ríka stefnir að kolefnishlutleysi fyrir árið 2021.[2][3][4] Árið 2019 var 99,62% af orkunotkun landsins framleidd með umhverfisvænum hætti.[5][6]

Heitið Costa Rica kemur fyrst fyrir í konunglegri tilskipun frá Karli 5., dagsettri 17. desember 1539, sem var send til höfuðdómstóls Panama árið 1543 með leyfi til landvinninga handa Diego Gutiérrez y Toledo á svæðinu Nuevo Cartago y Costa Rica.

Ýmsar kenningar eru uppi um uppruna heitisins. Kólumbus lýsti landinu sem svo að þar bæru innfæddir skartgripi úr gulli, sem gæti hafa leitt til þess að Spánverjar hafi nefnt ströndina „Auðströnd“. Önnur kenning er að nafnið sé fengið úr máli Húetara sem bjuggu í miðju landinu á þeim tíma, hugsanlega Coquerrica, Coquerrique eða Cotaquerrique sem hafi breyst í meðförum Spánverja í Costarrica. Nafnið væri því hliðstætt við önnur landaheiti sem fengin eru úr frumbyggjamálum, eins og nöfn Mexíkó, Níkaragva og Síle.

Fyrir komu Kólumbusar tilheyrðu indíánar þessa svæðis miðsvæðinu milli Andesfjallamenningarinnar og Miðameríkumenningarinnar. Íbúar töluðu tsibtsönsk mál. Elstu mannvistarleifar eru steinverkfæri frá um 10.000 til 7.000 f.o.t. sem fundust í Turrialba-dal. Spjótsoddar frá Clovis-menningunni og örvaroddar frá Suður-Ameríku gefa til kynna að tvö ólík menningarsamfélög hafi búið samhliða í landinu.

Landbúnaður hófst fyrir um 5.000 árum. Íbúar landsins ræktuðu aðallega rætur og rótarhnýði. Á fyrsta og öðru árþúsundinu f.o.t. höfðu skipulögð landbúnaðarsamfélög orðið til, en þau voru lítil og dreifð. Ekki er vitað hvenær eða hvernig umbreytingin frá veiðum og söfnun til landbúnaðar sem aðalviðurværi íbúa varð.

Elstu merki um leirkerjagerð eru frá um 3.000 til 2.000 f.o.t. Leirkerjabrot, leirvasar, diskar, vatnsflöskur og annars konar leirílát með myndskurði hafa fundist.

Áhrif frumbyggja á samtímamenningu Kosta Ríka hafa verið lítil miðað við önnur lönd í sama heimshluta þar sem þar var ekki sterkt ríki frumbyggja fyrir komu Evrópumanna. Frumbyggjar Kosta Ríka samlöguðust flestir spænskri menningu með mægðum með örfáum undantekningum, eins og Bribrium og Brunkum sem enn búa í fjöllunum Cordillera de Talamanca í suðausturhluta Kosta Ríka, við landamærin að Panama.

Landnám Evrópumanna

breyta

Fyrsti Evrópubúinn sem kom til landsins var Kristófer Kólumbus árið 1502. Samkvæmt sumum heimildum var hann fyrstur til að gefa landinu nafnið costa rica vegna gullskartgripa sem innfæddir báru. Nafnið gæti líka hafa komið frá landvinningamanninum Gil González Dávila sem kom að vesturströnd landsins árið 1522, hitti þar frumbyggja og fékk frá þeim gull, ýmist með ránum eða sem gjafir frá höfðingjum.

Við komu Evrópubúa stráféllu íbúarnir vegna bólusóttar og annarra sjúkdóma og evrópskir landnemar lögðu landið undir sig. Megnið af nýlendutímanum var Kosta Ríka hluti af Höfuðsmannsdæminu Gvatemala innan Nýja Spánar. Höfuðsmannsdæmið var í reynd sjálfstæð eining innan Spænska heimsveldisins. Á nýlendutímanum var Gvatemalaborg stærsta borg Mið-Ameríku og vegna fjarlægðar frá þeim miðpunkti var Kosta Ríka afskipt af nýlendustjórninni og jafnframt fátækasta nýlenda Spánar á svæðinu. Spænskur landstjóri lýsti Kosta Ríka sem „aumustu og fátækustu nýlendu Spánar í allri Ameríku“ árið 1719.

Að hluta til stafaði þessi fátækt af skorti á innlendu vinnuafli sem hægt var að nota sem þræla. Íbúar Kosta Ríka urðu því sjálfir að yrkja plantekrur sínar. Afskiptaleysi spænskra yfirvalda varð til þess að landið fékk að þróast á eigin forsendum. Þetta gæti hafa leitt til margs af því sem í dag telst sérstaða Kosta Ríka. Vegna þessa var líka meira jafnræði meðal íbúa Kosta Ríka en í öðrum Mið-Ameríkulöndum. Kosta Ríka varð „sveitalýðræði“ þar sem engin undirokuð stétt mestísa eða frumbyggja var til. Brátt sneru spænsku landnemarnir sér að ræktun í hæðunum þar sem er næringarríkur eldfjallajarðvegur og mildara loftslag en á láglendinu.

Sjálfstæði

breyta

Líkt og önnur Mið-Ameríkuríki háði Kosta Ríka ekki vopnaða baráttu fyrir sjálfstæði. Eftir ósigur Spánar í Sjálfstæðisstríði Mexíkó 15. september 1821 lýstu yfirvöld í Gvatemalaborg yfir sjálfstæði allrar Mið-Ameríku. Kosta Ríka tók þátt í sjálfstæðisyfirlýsingunni og varð hluti af Mexíkó undir stjórn Agustín de Iturbide og síðar Sambandslýðveldi Mið-Ameríku. Kosta Ríka heldur þann dag enn hátíðlegan sem sjálfstæðisdaginn þótt Kosta Ríka hafi, ásamt Níkaragva, þegar fengið sjálfstjórn með Stjórnarskrá Spánar 1812 með León sem höfuðborg.

Við sjálfstæði fengu yfirvöld í Kosta Ríka það verkefni að ákveða framtíð landsins. Tvær fylkingar mynduðust; stuðningsmenn keisaradæmisins sem áttu sér mest fylgi í borgunum Cartago og Heredia, og lýðveldissinnar í San José og Alajuela sem vildu fullt sjálfstæði. Þessum fylkingum laust saman í fyrstu borgarastyrjöld landsins. Lýðveldissinnar báru sigur úr býtum í orrustunni við Ochomogo 1823. Í kjölfarið var höfuðborgin flutt frá Cartago til San José.

Árið 1838, löngu eftir að Sambandslýðveldi Mið-Ameríku var hætt að starfa, lýsti landið yfir fullu sjálfstæði. Fjarlægðir og lélegir vegir milli Gvatemalaborgar og miðhálendisins, þar sem flestir íbúar Kosta Ríka bjuggu, gerðu að verkum að þeir litu ekki til stjórnarinnar þar eftir leiðsögn. Íbúar Kosta Ríka voru og hafa síðan verið tregir til að binda efnahag landsins við önnur lönd Mið-Ameríku.

Héraðið Chiriquí var hluti af Kosta Ríka til 1849 þegar það varð hluti af Panama. Til að bæta Kosta Ríka upp missi héraðsins fékk héraðið Guanacaste í norðvestri.

Efnahagsuppgangur á 19. öld

breyta

Kaffirækt hófst í Kosta Ríka árið 1808 og um 1820 hafði það tekið fram úr tóbaki, sykri og kakói, sem helsta útflutningsvara landsins. Kaffiræktunin var helsta undirstaða efnahagslífs Kosta Ríka fram á 20. öld og skapaði stétt auðugra kaffiræktenda eða kaffibaróna. Tekjurnar af kaffiútflutningnum urðu til þess að landið nútímavæddist.

Mest af kaffinu var ræktað í kringum helstu þéttbýlisstaðina á miðhálendinu og flutt með nautgripavögnum til hafnarinnar í Puntarenas við Kyrrahafsströndina eftir að aðalvegurinn var lagður 1849. Um miðjan 6. áratuginn var helsti markaðurinn fyrir kaffið í Bretlandi. Brátt varð forgangsatriði að gera flutningsleið frá miðhálendinu að Atlantshafinu. Stjórn Kosta Ríka gerði á 8. áratugnum samning við bandaríska athafnamanninn Minor C. Keith um lagningu járnbrautar milli San José og Limón við Karíbahafsströndina. Þrátt fyrir gríðarlega erfiðleika, sjúkdóma og himinháan kostnað, var lokið við járnbrautina árið 1890.

Kosta Ríka-búar af afrískum uppruna eru flestir afkomendur innflytjenda frá Jamaíku sem unnu við járnbrautarlagninguna og eru nú um 3% íbúa landsins. Bandarískir fangar og innflytjendur frá Ítalíu og Kína störfuðu einnig að verkefninu. Keith fékk stór landsvæði frá ríkisstjórn landsins að launum fyrir verkið. Hann lagði þau undir bananaræktun og flutti banana til Bandaríkjanna. Bananar kepptu því við kaffi sem helsta útflutningsvara Kosta Ríka. Erlend fyrirtæki (eins og United Fruit Company síðar meir) urðu fyrirferðarmeiri í fyrirtækjarekstri í landinu og tákn fyrir arðránsútflutningshagkerfi. Verkföll, eins og Bananaverkfallið mikla 1934, urðu til þess að efla verkalýðsfélög og neyddi United Fruit Company til að gera kjarasamninga við verkamenn.

20. öldin

breyta

Sögulega séð hefur landið notið meiri friðar og stöðugleika en nágrannalöndin. Kosta Ríka hefur gengið í gegnum tvö átakatímabil frá lokum 19. aldar. Frá 1917 til 1919 ríkti herforinginn Federico Tinoco Granados yfir landinu sem einræðisherra þar til honum var steypt af stóli og rekinn í útlegð. Óvinsældir herforingjastjórnarinnar leiddu til þess að dregið var verulega úr mætti hers Kosta Ríka. Árið 1948 komst José Figueres Ferrer til valda eftir blóðuga borgarastyrjöld í kjölfar umdeildra forsetakosninga. Borgarastyrjöldin stóð í 44 daga og yfir 2000 létu lífið.

Uppreisnarmenn Figueres komu á skammlífri herforingjastjórn sem breytti stjórnarskrá Kosta Ríka og lagði herinn niður. Eftir þessar umbætur lét stjórnin völdin í hendur Otilio Ulate Blanco 8. nóvember 1949. Figueres varð þjóðhetja eftir þetta og vann fyrstu forsetakosningar landsins samkvæmt nýrri stjórnarskrá árið 1953. Síðan þá hafa verið haldnar 14 forsetakosningar í Kosta Ríka. Landið hefur notið samfellds lýðræðis frá 1949.

Landfræði

breyta

Kosta Ríka er á Mið-Ameríkueiðinu í kringum 10°N og 84°V. Landið liggur að Karíbahafi í austri og Kyrrahafi í vestri. Það á landamæri að Níkaragva í norðri og Panama í suðri. Kosta Ríka situr á Karíbahafsflekanum sem Kókosflekinn gengur undir í vestri. Þetta skapar Mið-Ameríkueldfjallabeltið sem liggur gegnum Kosta Ríka. 14 eldfjöll eru á Kosta Ríka og sex þeirra hafa sýnt merki um eldvirkni á undanförnum 75 árum.

Hæsti punktur landsins er Chirripó-fjall, 3.819 metrar á hæð. Hæsta eldfjallið er Irazú-eldfjall, 3.431 metrar á hæð. Stærsta stöðuvatn landsins er Arenalvatn.

Veðurfar

breyta
 
Rauði íkornapi lifir eingöngu á Kyrrahafsströnd Kosta Ríka og Panama.

Ríkjandi loftslag á Kosta Ríka er hitabeltisloftslag árið um kring. Það eru tvær árstíðir; „sumar“ eða þurrkatíð frá desember til apríl, og „vetur“ eða regntíð frá maí til nóvember. Á þeim tíma rignir nánast stanslaust á sumum svæðum. Fjöllin eru svalari en láglendið við ströndina. Í fjallgarðinum í miðju landsins, Cordillera Central, er úrkoma um 5.000 mm á ári. Raki er meiri Karíbahafsmegin en Kyrrahafsmegin. Meðalhiti er um 27°C á láglendi, 20°C á byggðum svæðum í fjöllunum og 10°C hæst uppi.

Lífríki

breyta

Lífríki Kosta Ríka er mjög fjölbreytt. Landið er eitt 20 landa í heiminum með mesta líffjölbreytni. Þar lifa yfir 500.000 tegundir lífvera sem eru um 5% af öllum þekktum lífverum heims. Ein ástæða þessarar miklu líffjölbreytni er staðsetning Kosta Ríka á Mið-Ameríkueiðinu sem tengir tvær heimsálfur.

27% af landsvæði Kosta Ríka eru verndarsvæði eða þjóðgarðar. Corcovado-þjóðgarðurinn er þekktur sem búsvæði tapíra og stórkatta auk þess sem þar er að finna allar fjórar tegundir apa sem lifa í Kosta Ríka: panamískur hettuapi, rauði íkornapi, rauði öskurapi og kóngulóarapi. Skógareyðing og veiðiþjófnaður ógna þessum dýrum.

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta
 
Héruð Kosta Ríka: 1.Alajuela2 Cartago, 3 Guanacaste, 4 Heredia, 5 Limón, 6 Puntarenas, 7 San José

Kosta Ríka skiptist í sjö héruð sem aftur skiptast í 82 sveitarfélög (cantones, et. cantón) sem bæjarstjóri stýrir. Bæjarstjórar eru kosnir til fjögurra ára í senn. Það eru engin héraðsþing. Sveitarfélögin skiptast síðan í hverfi (distritos).

Tilvísanir

breyta
  1. UNDP Human Development Report 2015. „Table 1: Human Development Index and its components“. UNDP. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. maí 2019. Sótt 5. apríl 2016. s. 4, 42 (sjá töflu 2.4 og ramma 2.10) and 128.
  2. John Burnett (18. febrúar 2008). „Costa Rica Aims to Be a Carbon-Neutral Nation“. National Public Radio (NPR.org). Sótt 27. apríl 2009.
  3. Alana Herro (12. mars 2007). „Costa Rica Aims to Become First "Carbon Neutral" Country“. Worldwatch Institute. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. mars 2009. Sótt 27. apríl 2009.
  4. Alejandro Vargas (21. febrúar 2007). „País quiere ser primera nación con balance neutro de carbono“ (spænska). La Nación. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. febrúar 2009. Sótt 27. apríl 2009.
  5. „Costa Rica's Electricity Is Nearly At 100% Renewable Energy“. intelligentliving.co. 23. febrúar 2020.
  6. „Costa Rica's electricity was produced almost entirely from renewable sources in 2016“. 2. janúar 2017.