Eiður Svanberg Guðnason

(Endurbeint frá Eiður Guðnason)

Eiður Svanberg Guðnason (f. 7. nóvember 1939 - d. 30. janúar 2017) var íslenskur stjórnmálamaður, alþingismaður, ráðherra og sendiherra.

Eiður Svanberg Guðnason
Fæðingardagur: 7. nóvember 1939(1939-11-07)
Fæðingarstaður: Reykjavík
Dánardagur: 30. janúar 2017 (77 ára)
Dánarstaður: Garðabær
Flokkur: Alþýðu­flokkurinn
Þingsetutímabil
1978-1980 í Vesturl. fyrir Alþfl.
1980-1987 í Vesturl. fyrir Alþfl.
1987-1993 í Vesturl. fyrir Alþfl.
= stjórnarsinni
Embætti
1979-1980 Formaður fjárlaganefndar
1980-1983 Formaður samgöngunefndar
1980-1983 Formaður allsherjarnefndar
1987-1991 Formaður menntamálanefndar
1988-1989 Formaður efnahags- og viðskiptanefndar
1983-1991 Þingflokksformaður
1991-1993 Umhverfisráðherra
1991-1993 Samstarfsráðherra Norðurlanda
Tenglar
Æviágrip á vef AlþingisVefsíða

Eiður hóf nám í MR þar sem hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum, átti til að mynda sæti í Íþökunefnd og var annar tveggja auglýsingastjóra Skólablaðsins.[1][2] Á sínum yngri árum var Eiður virkur í starfi skátahreyfingarinnar, var m.a. kosinn ritari Skátafélags Reykjavíkur á aðalfundi 1960[3].

Að loknu stúdentsprófi árið 1959 stundaði hann nám í stjórnmálafræði við Delaware-háskóla í Bandaríkjunum 1960-1961 og lauk BA-prófi í ensku og enskum bókmenntum við Háskóla Íslands 1967.

Fjölmiðlastörf

breyta

Eiður var blaðamaður hjá Alþýðublaðinu 1962-1967 en var þá ráðinn til Ríkisútvarpsins sem hóf sjónvarpsútsendingar árið áður. Hjá RÚV starfaði Eiður frá 1967 til 1978. Hann var fréttamaður og stýrði sem slíkur umræðuþáttunum Blaðamannafundur, þar sem stjórnmálamenn og embættismenn sátu fyrir svörum. Hann var jafnframt kynnir í þættinum Góða veislu gjöra skal, áramótaskaupi sjónvarpsins 1975. Þá hafði hann með höndum þýðingar á ýmsu sjónvarpsefni á ensku og var yfirþýðandi stofnunarinnar.

Hann gerði ásamt öðrum kynningarmyndina The Living Sea fyrir ríkisstjórn Íslands árið 1971, en henni var ætlað að útskýra málstað Íslendinga í landhelgismálinu. Þá var hann í hópi stofnenda fyrirtækisins Sagafilm og sat í stjórn þess um árabil. Samhliða störfum sínum hjá Alþýðublaðinu og Ríkisútvarpinu var Eiður fréttaritari vikuritsins Time og CBS-útvarpsstöðvanna auk þess að skrifa fréttapistla í American Scandinavian Review. Árið 1990 gerði hann heimildarmynd um sögu íslenskrar landhelgi fyrir Landhelgisgæsluna.

Hann var formaður Blaðamannafélags Íslands frá 1971 til 1972 og sat í stjórn félagsins á árunum 1968 til 1973.

Stjórnmálaferill

breyta

Eiður skipaði sjötta sætið á framboðslista Alþýðuflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1966 en annar ungur frambjóðandi, Jóhanna Sigurðardóttir skipaði sætið fyrir ofan.[4] Alþýðuflokkurinn hlaut tvo borgarfulltrúa í kosningunum og tók Eiður nokkrum sinnum sæti í borgarstjórn á kjörtímabilinu sem varamaður. Á næstu árum þurfti hann hins vegar að halda sér til hlés í stjórnmálum sem starfsmaður Ríkisútvarpsins.

Þingstörf

breyta

Fyrir Alþingiskosningarnar 1978 færði Benedikt Gröndal formaður Alþýðuflokksins sig til Reykjavíkur og losnaði þar með oddvitasæti flokksins í Vesturlandskjördæmi. Efnt var til prófkjörs þar sem Eiður sóttist eftir fyrsta sætinu og vann með miklum yfirburðum, fékk 1.020 atkvæði eða 87% greiddra atkvæða.[5] Vakti framboð Eiðs talsverða athygli og sagði pistlahöfundurinn Baldur Hermannsson það vera „angan vors í lofti stjórnmálanna“.[6] Alþýðuflokkurinn vann stórsigur í kosningunum og í Vesturlandskjördæmi jók flokkurinn fylgi sitt úr 10,9% í 23,2% og hlaut kjördæmakjörinn þingmann.

Eftir kosningarnar 1978 var Eiður almennur stjórnarliði í vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Stjórnin sprakk síðla árs 1979 og myndaði Alþýðuflokkurinn þá minnihlutastjórn með stuðningi Sjálfstæðismanna. Gegndi Eiður embætti formanns fjárveitinganefndar í tíð hennar. Efnt var til nýrra Alþingiskosninga í desember 1979. Alþýðuflokkurinn tapaði talsverðu fylgi á landsvísu og í Vesturlandskjördæmi hlaut flokkurinn 15,5%.[7] Eiður hélt þingsæti sínu sem uppbótarþingmaður, en við tók seta í stjórnarandstöðu.

Alþýðuflokkurinn tapaði aftur fylgi í Alþingiskosningunum 1983, meðal annars vegna framboðs Bandalags jafnaðarmanna. Flokkurinn fékk 11,7% á landsvísu, en á Vesturlandi fengu Alþýðuflokksmenn 13,5% og Eiður varð uppbótarþingmaður á ný.[8] Hann var kosinn þingflokksformaður að kosningum loknum og gegndi því embætti til ársins 1991.

Í Alþingiskosningunum 1987 bætti Alþýðuflokkurinn við sig nokkru fylgi. Í Vesturlandskjördæmi hlaut flokkurinn 15,1% og varð Eiður kjördæmakjörinn þingmaður á ný. Á kjörtímabilinu áttu Alþýðuflokksmenn aðild að ríkisstjórnum Þorsteins Pálssonar og Steingríms Hermannssonar. Hafði Eiður með höndum nefndarformennsku ýmist í Menntamálanefnd og Fjárhags- og viðskiptanefnd. Þá var hann formaður stjórnar Sementsverksmiðju ríkisins, sem um þær mundir var einn stærsti vinnuveitandi í Vesturlandskjördæmi. Þá var hann formaður Þjóðarátaks um umferðaröryggi á árunum 1988-89.

Ráðherra 1991-1993

breyta

Fylgi Alþýðuflokksins á landsvísu stóð nánast í stað í Alþingiskosningunum 1991. Í Vesturlandskjördæmi fékk flokkurinn 14,1% atkvæða og varð Eiður uppbótarþingmaður. Ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks var mynduð að kosningum loknum undir stjórn Davíðs Oddssonar. Tók Eiður við starfi umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda.

Eiður var annar í röð íslenskra umhverfisráðherra og tók við ráðuneytinu að nokkru leyti ómótuðu[9][10]. Nokkrar deilur voru um það hvaða verkefni skyldu færast til hins nýja ráðuneytis og þegar upp var staðið reyndist ríkisstjórnin ekki hafa nægjanlegan þingstyrk til að færa verkefni skógræktar og landgræðslu frá landbúnaðarráðuneyti til umhverfisráðuneytis.[11]

Í ráðherratíð sinni hleypti Eiður mörgum stefnumarkandi verkefnum af stokkunum, þótt ekki öll hafi náð fram að ganga. Meðal þeirra stærstu sem náðu í gegn mætti nefna vinnu við heildarskipulag miðhálendisins[12] og lög um mat á umhverfisáhrifum[13]. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin nyti stuðnings meirihluta þings náðu ekki öll frumvörp hennar að verða að lögum í ráðherratíð Eiðs. Þannig dagaði heildarendurskoðun á dýraverndarlögum í tvígang uppi í umhverfisnefnd þingsins og sömu sögu er að segja um ný lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, svokölluð villidýralög. Framgangur villdýralaganna steytti einna helst á svokölluðum veiðikortum sem lögin áttu að innleiða.

Mikill hiti var í umræðu um skyldu til að útbúa alla nýja bíla með hvarfakútum, sem Tryggvi Þór Herbertsson benti m.a. á að myndi leiða til mikils kostnaðar fyrir þjóðarbúið.[14]

Í ráðherratíð Eiðs vann umhverfisráðuneytið starfsleyfi fyrir álver sem reisa átti á Keilisnesi. Minnihluti umhverfisnefndar gagnrýndi leyfið harðlega, sagði málsmeðferð stjórnvalda ámælisverða og kröfur í mengunarmálum ekki standast samanburð við nágrannaþjóðirnar.[15]

Eiður stýrði sendinefnd Íslands á Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun, sem haldin var árið 1992. Þar skuldbundu þjóðir heims sig til aukinnar ábyrgðar í umhverfismálum og þátttöku í framgangi sjálfbærrar þróunar. Samhliða því vann nefnd á vegum hans stefnu Íslands í umhverfismálum undir yfirskriftinni Á leið til sjálfbærrar þróunar: Stefna og framkvæmdir ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum[16]. Í þeirri framvæmdaáætlun voru sjö meginatriði sett í forgang:

  • Að draga úr staðbundinni mengun, myndun úrgangs og mengun andrúmslofts.
  • Að ljúka úrbótum í sorp- og frárennslismálum.
  • Að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda.
  • Að bæta gróðurvernd og landgræðslu.
  • Að styrkja verndun kjörlenda, dýra og plantna.
  • Að styrkja búsetu á landsbyggðinni í samræmi við markmið og grundvallarreglur sjálfbærrar þróunar.
  • Að auka þátttöku í alþjóðlegri samvinnu á sviði umhverfis- og þróunarmála.

Árið 1993 gerðist Eiður sendiherra og lét af þingmennsku og ráðherradómi.

Störf að loknum stjórnmálum

breyta

Eiður gekk í utanríkisþjónustuna árið 1993 og starfaði þar samfellt þar til hann lét af störfum 2009. Hann var sendiherra Íslands í Noregi 1993-1998, sendiherra í Kína 2002-2006 og aðalræðismaður í Færeyjum 2007-2009.

Eiður hélt úti bloggsíðu frá árinu 2007, þar sem hann fjallaði í fyrstu um ýmis samfélagsmál. Í febrúar 2009 birti Eiður færslu á síðunni undir fyrirsögninni „Molar um málfar“, þar sem hann benti á ambögur í málfari fjölmiðlafólks. Molaskrifin héldu áfram og urðu mikil að vöxtum, nafn ritraðarinnar varð „Molar um málfar og miðla“ og í september 2012 birti Eiður þúsundasta molann. Þessi tímamót vöktu nokkra athygli fjölmiðla[17].

Eiður varð bráðkvaddur 30. janúar 2017. Eiður hafði þá skrifað alls 2103 mola um málfar og fjölmiðla á vefsíðu sína.

Tilvísanir

breyta
  1. „Skólablaðið 1. nóvember 1957, s.16“.
  2. „Skólablaðið 1. nóvember 1957, s.1“.
  3. „Alþýðublaðið 18. maí 1960, s. 14“.
  4. „Alþýðublaðið 30. mars 1966, s.1“.
  5. „Vísir 22. nóvember 1977“.
  6. „Vísir 15. nóvember 1977, s.10“.
  7. „Dagblaðið 4. desember 1979“.
  8. „Dagblaðið 25. apríl 1983, s.2“.
  9. "Eiður Guðnason umhverfisráðherra: Mikið að vinna og að vernda," Morgunblaðið, 1. maí 1991“.
  10. „„Hef betra sóknarfæri," Morgunblaðið, 26. maí 1991, s. 16-17“.
  11. Oftúlkað samkomulag trúnaðar og trausts? Tíminn, 11. maí 1991, s. 1“.
  12. „Lög nr. 73/1993 um breytingu á skipulagslögum, nr. 19/1964, ásamt síðari breytingum“.
  13. „Lög nr. 63/1993 um mat á umhverfisáhrifum“.
  14. „„Prófanir hafa sýnt fram á gagnsemi hvarfakúta," Morgunblaðið, 24. júní 1992, s. 16“.
  15. „Skýrsla umhverfisnefndar um starfsleyfistillögur fyrir álver á Keilisnesi (sérálit Hjörleifs Guttormssonar, Kristínar Einarsdóttur, Ólafs Ragnars Grímssonar og Valgerðar Sverrisdóttur)“.
  16. „Á leið til sjálfbærrar þróunar. Stefna og framkvæmdir ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum“.
  17. „„Fær þakkir frá fólki úti á götu," Fréttablaðið, 3. september 2012“.

Tenglar

breyta


Fyrirrennari:
Júlíus Sólnes
Umhverfisráðherra
(30. apríl 199114. júní 1993)
Eftirmaður:
Össur Skarphéðinsson