Áramótaskaup 1975
Áramótaskaupið 1975 hafði yfirskriftina: Góða veislu gjöra skal - áramótaskaup 1975. Kynning þess í Morgunblaðinu þann 31. desember var þannig:
- Eins og flestum er kunnugt stendur yfir mikil veisla á vegum hins opinbera. Sjónvarpið sendi þangað Eið Guðnason, fréttamann, og mun hann fylgjast með því, sem þar fer fram og segja fréttir af því markverðasta í beinni útsendingu. Upptöku stjórnar Tage Ammendrup, og bak við tjöldin hafa Hrafn Gunnlaugsson og Björn Björnsson veislustjórn með höndum, en Magnús Ingimarsson situr við píanóið. Meðal gesta má nefna Ómar Ragnarsson, Spilverk þjóðanna, Róbert Arnfinnsson, Guðmund Pálsson, Árna Tryggvason, Karl Guðmundsson, Bessa Bjarnason, Sigríði Þorvaldsdóttur, Randver Þorláksson, Hauk Morthens, Sigfús Halldórsson, Guðrúnu Á. Símonar, Þuríði Pálsdóttur og Jörund Guðmundsson í margra kvikinda líki. Víða var leitað veislufanga og höfundar efnisins eru, auk Hrafns og Björns, Hermann Jóhannesson, Davíð Oddson, Helgi Seljan, Þórarinn Eldjárn, Halldór Blöndal, Flosi Ólafsson og fleiri.