Austur-Þýskaland

land í Mið-Evrópu (1949-1990)
(Endurbeint frá DDR)

Þýska alþýðulýðveldið (þýska: Deutsche Demokratische Republik, skammstafað DDR), einnig þekkt sem Austur-Þýskaland var ríki sem stofnað var á hernámssvæði Sovétríkjanna í Þýskalandi eftir seinni heimsstyrjöldina. Það var stofnað 7. október 1949 og leið undir lok 3. október 1990 þegar austur-þýsku sambandslöndin gengu í vestur-þýska ríkjasambandið (Bundesrepublik Deutschland) og núverandi Þýskaland varð til.

Þýska alþýðulýðveldið
Deutsche Demokratische Republik
Fáni Austur-Þýskalands Skjaldarmerki Austur-Þýskalands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Proletarier aller Länder, vereinigt Euch (Þýska)
Verkalýðsmenn allra landa, sameinist
Þjóðsöngur:
Auferstanden aus Ruinen
Staðsetning Austur-Þýskalands
Höfuðborg Austur-Berlín
Opinbert tungumál þýska
Stjórnarfar Alþýðulýðveldi

Þjóðhöfðingi Wilhelm Pieck
Walter Ulbricht
Willi Stoph
Erich Honecker
Egon Krenz
Manfred Gerlach
Stofnun
 • Stofnun 7. október 1949 
 • Uppreisn 1953 16. júní 1953 
 • Varsjárbandalagið 14. maí 1955 
 • Berlínarkreppan 4. júní 1961 
 • Innganga í Sameinuðu þjóðirnar 18. september 1973 
 • Friðsamlega byltingin 13. október 1989 
 • Fall Berlínarmúrsins 9. nóvember 1989 
 • Lokauppgjör 12. september 1990 
 • Sameining Þýskalands 3. október 1990 
Flatarmál
 • Samtals

108.333 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1990)
 • Þéttleiki byggðar

16.111.000
149/km²
Gjaldmiðill Austur-þýskt mark

Stjórnarflokkur Austur-Þýskalands var Sósíalíski einingarflokkurinn, sem fór í reynd fyrir flokksræði í landinu. Formlega var flokkurinn í forsvari fyrir „Þjóðfylkingu þýska alþýðulýðveldisins“, sem taldi til sín alla löglega stjórnmálaflokka og fjöldahreyfingar landsins. Aðildarflokkar Þjóðfylkingarinnar buðu fram á austur-þýska þingið á sameiginlegum kosningalista undir forystu Sósíalíska einingarflokksins.[1]

Tilurð Austur-Þýskalands

breyta
 
Þýskaland var limað í sundur og að nokkru leyti leyst upp að lokinni heimsstyrjöldinni síðari. Öll héruð gamla Þýskalands austan við fljótið Oder og þverá þess Neisse voru innlimuð í Pólland og Sovétríkin.

Fyrir lok heimsstyrjaldarinnar síðari var það svæði sem síðar var nefnt Austur-Þýskaland nærri miðju þýska ríkisins og raunar þekkt í daglegu tali sem Mið-Þýskaland (Mitteldeutschland). Austan ánna Oder og Neisse voru stór landflæmi sem tilheyrt höfðu þýska ríkinu Prússlandi um langan aldur. Þetta voru Pommern, Austur-Prússland, Vestur-Prússland, Efri-Slésía, Neðri-Slésía og austurhluti Brandenborgar. Á Jaltaráðstefnunni sömdu leiðtogar Bandamanna um að landamæri Póllands yrðu færð vestur að ánum Oder og Neisse að stríðinu loknu, sem uppbót fyrir svæði í austurhluta Póllands sem Sovétmenn gerðu tilkall til. Niðurstaðan varð því sú að Mið-Þýskaland varð að austasta hluta Þýskalands.

Hernámssvæðin

breyta

Á ráðstefnunum í Jalta og Potsdam var einnig rætt um hernám og stjórnun Þýskalands að stríðinu loknu. Ákveðið var að sérstakt ráð (Allied Control Council eða ACC) undir stjórn bandalagsríkjanna fjögurra, Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Sovétríkjanna, skyldi fara með stjórn Þýskalands og skipti það landinu í fjögur hernámssvæði sem hvert var í reynd undir beinni stjórn eins bandalagsríkis og skyldi svo vera þar til Þýskaland fengi fullveldi á ný.

Sambandslöndin Mecklenborg-Vorpommern, Brandenborg, Saxland, Saxland-Anhalt og Þýringaland voru undir hernámsstjórn Sovétríkjanna (Sowjetische Besatzungszone eða SBZ). Fljótlega fóru Sovétmenn að mótmæla þeim efnahagslegu og stjórnmálalegu breytingum sem tóku að eiga sér stað á vestari hernámssvæðunum þremur og sögðu þeir sig úr ACC árið 1948. Upp úr því varð SBZ, ásamt sovéska hluta Berlínar, að Austur-Þýskalandi. Á svipuðum tíma tóku vestari hernámssvæðin að mynda Vestur-Þýskaland.

Sameiningarþreifingar

breyta
 
Síðla árs 1949 var Þýskaland fjórskipt. Bandarísku, bresku og frönsku hernámssvæðin, utan Saarlands, mynduðu Vestur-Þýskaland en það var undir franskri stjórn allt til 1957. Austur-Þýskaland varð til úr sovéska hernámssvæðinu og Vestur-Berlín var skipt í bandarískt, breskt og franskt hernámssvæði.

Í orði kveðnu höfðu bæði Sovétríkin og vestrænu bandalagsríkin á stefnuskrá sinni að endurmynda sameinað Þýskaland (þó án austurhéraðanna sem runnið höfðu til Póllands og Sovétríkjanna), líkt og kveðið var á um í samningnum sem undirritaður var á Potsdam-ráðstefnunni. Stalín lagði fram tillögu í þessa átt árið 1952, þar sem lagt var til að hernámi Þýskalands yrði hætt, en vesturveldin með Konrad Adenauer í broddi fylkingar voru tortryggin og litu á tillögu Stalíns sem tilraun til að halda aftur af hinu nýstofnaða Vestur-Þýskalandi. Bandaríkjastjórn hafnaði því tillögunni. Að Stalín látnum, snemma árs 1953, lognuðust þessar þreifingar út af og sameining Þýskalands komst ekki aftur á dagskrá fyrr en við fall kommúnismans síðla árs 1989.

Tilvísanir

breyta
  1. Bjarni Benediktsson (13. október 1954). „Þjóðfylking um frið“. Þjóðviljinn. bls. 7; 9.
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.