Walter Ulbricht
Walter Ernst Paul Ulbricht (30. júní 1893 – 1. ágúst 1973) var þýskur stjórnmálamaður og kommúnisti. Ulbricht var einn af stofnmeðlimum þýska kommúnistaflokksins á árum Weimar-lýðveldisins. Á valdaárum nasista dvaldi Ulbricht í útlegð í Frakklandi og síðan í Sovétríkjunum en eftir að Þjóðverjar báðu ósigur í seinni heimsstyrjöldinni sneri hann heim og tók þátt í stofnun þýska alþýðulýðveldisins, eða Austur-Þýskalands. Ulbricht var fyrsti aðalritari Sósíalíska einingarflokksins frá 1950 til 1971 og réði þar með lögum og lofum í austur-þýsku ríkisstjórninni. Eftir að Wilhelm Pieck, forseti alþýðulýðveldisins, lést árið 1960 gerðist Ulbricht einnig þjóðhöfðingi Austur-Þýskalands og gegndi því hlutverki til dauðadags. Ulbricht var náinn samstarfsmaður Jósefs Stalín og sá til þess að Austur-Þýskaland yrði eins náið Sovétríkjunum og hugsast gat, meðal annars með því að leiða það inn í Varsjárbandalagið.
Walter Ulbricht | |
---|---|
Aðalritari Sósíalíska einingarflokksins | |
Í embætti 25. júní 1950 – 3. maí 1971 | |
Forveri | Otto Grotewohl og Wilhelm Pieck (formenn) |
Eftirmaður | Erich Honecker |
Formaður ríkisráðs Austur-Þýskalands | |
Í embætti 12. september 1960 – 1. ágúst 1973 | |
Forsætisráðherra | Otto Grotewohl Willi Stoph |
Forveri | Wilhelm Pieck (sem forseti) |
Eftirmaður | Willi Stoph |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 30. júní 1893 Leipzig, þýska keisaraveldinu |
Látinn | 1. ágúst 1973 (80 ára) Templin, Austur-Þýskalandi |
Dánarorsök | Heilablóðfall |
Stjórnmálaflokkur | Sósíalíski einingarflokkurinn (1946–1973) Kommúnistaflokkurinn (1920–1946) |
Maki | Martha Schmellinsky (1920 -?) Lotte Kühn (1953–1973) |
Starf | Snikkari |
Æviágrip
breytaWalter Ulbricht fæddist í Leipzig árið 1893. Faðir hans var klæðskeri en móðir hans kom úr fjölskyldu strangtrúaðra sósíalista.[1] Báðir foreldrar hans voru meðlimir í þýska Jafnaðarmannaflokknum. Ulbricht fór snemma að tileinka sér marxískar skoðanir og var fimmtán ára genginn í ungliðahreyfingu sósíalista og verkalýðsfélag trésmiða.[1]
Stjórnmálaferill
breytaÍ fyrri heimsstyrjöldinni vann Ulbricht að því að semja og dreifa áróðursritum gegn stríðsrekstrinum þar til hann var handtekinn og kvaddur í herinn.[2] Í Belgíu reyndi hann að hvetja herdeild sína til uppreisnar og var því handtekinn.[1] Ulbricht dvaldi í fangelsi til stríðsloka en var sleppt þegar þýska keisaraveldið hrundi árið 1918 og Weimar-lýðveldið var stofnað. Hann sneri heim til Leipzig og tók þátt í stofnun þýska kommúnistaflokksins ásamt fyrrum meðlimum Jafnaðarmannaflokksins sem höfðu klofið sig úr þeim flokki vegna andstöðu við styrjöldina. Ulbricht sótti heimsráðstefnu kommúnista í Moskvu, hitti átrúnaðargoð sitt, Vladímír Lenín, og gekk í Lenínskólann frá 1924 til 1925.
Ulbricht og meðlimir kommúnistaflokksins stóðu fyrir miklum óeirðum á lokaárum Weimar-lýðveldisins og lentu oft í götubardögum og uppþotum gegn meðlimum Nasistaflokksins og öðrum þjóðernisflokkum. Í eitt skipti kom til slagsmála þar sem lögreglan þurfti að grípa inn í á samkomu þar sem bæði Ulbricht og nasistinn Joseph Goebbels héldu ræður.[3]
Þegar nasistar komust til valda í Þýskalandi hófust ofsóknir á þýskum kommúnistum og formaður kommúnistaflokksins, Ernst Thälmann, var handtekinn. Ulbricht tók við formannsembættinu og margir keppinautar hans hurfu eða voru myrtir til þess að tryggja hann í sessi.[1][4]
Ulbricht bjó í útlegð í París og Prag frá 1933 til 1937 en bjó í Sovétríkjunum frá 1937 til 1945. Í seinni heimsstyrjöldinni vann hann ásamt öðrum þýskum kommúnistum með sovésku leyniþjónustunni NKVD, meðal annars við að þýða sovéskan áróður á þýsku og yfirheyra þýska stríðsfanga. Lavrentij Beria, leiðtogi NKVD, sagði um Ulbricht að hann væri „mesta fífl sem [hann hefði] nokkurn tímann séð“.[5]
Leiðtogi Austur-Þýskalands
breytaUlbricht sneri heim til Þýskalands eftir að nasistar voru sigraðir og tók þátt í stofnun Alþýðulýðveldisins Þýskalands þann 7. október árið 1949. Ulbricht var í upphafi varaforsætisráðherra en varð árið 1950 aðalritari miðstjórnar flokksins. Eftir uppreisnina í Austur-Þýskalandi 1953 (þar sem eitt slagorðið var „Niður með geitskegg!“[2]) lýstu Sovétmenn yfir stuðningi við Ulbricht sem óskoraðan leiðtoga Austur-Þjóðverja, þar sem þeir óttuðust að minni harðlínumaður myndi ekki geta gætt kommúnismans á vesturmörkum áhrifasvæðis þeirra. Árið 1960, eftir dauða Wilhelms Pieck forseta, gerðist Ulbricht formlega æðsti maður ríkisins og yfirstjórnandi þýska alþýðuhersins.[2]
Á valdatíð Ulbrichts hófst fólksflótti frá Austur-Þýskalandi sem leiddi til þess að byrjað var að byggja Berlínarmúrinn þann 13. ágúst 1961. Ulbricht beitti hermönnum og lögreglumönnum til þess að loka landamærunum við Vestur-Berlín og kveða niður allar óeirðir.[6]
Ulbricht rak fjölda keppinauta sinna í útlegð og stjórnartíð hans einkenndist af vöktun leynilögreglu, hervæðingu, samyrkjuvæðingu og eignarnámi verksmiðja. Hann var ekki vinsæll leiðtogi og mörg samtök voru mynduð innan flokksins til þess að losna við hann.[2] Bygging Berlínarmúrsins skaðaði mjög ímynd hans og svo fór að hann neyddist til þess að segja af sér flestum embættum sínum þann 3. maí 1971 „vegna heilsubrests“. Erich Honecker tók við flestum embættum hans, en Ulbricht var áfram táknrænn þjóðhöfðingi Austur-Þýskalands til dauðadags árið 1973.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 1,2 1,3 „Walter Ulbricht“. Nýr Stormur. 10. janúar 1969. bls. 4.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 „Walter Ulbricht – maðurinn bak við múrvegginn“. Morgunblaðið. 7. júní 1962. bls. 1; 5.
- ↑ Was geschah in Friedrichshain, Die Zeit, 1969/40
- ↑ Frank, Mario, Walter Ulbricht. Eine Deutsche Biographie (Berlin 2001), bls. 117–121.
- ↑ Frank, Mario, Walter Ulbricht. Eine Deutsche Biographie (Berlin 2001), bls. 241.
- ↑ Kempe, Frederick (2011). Berlin 1961. Penguin Group (USA). bls. 345.
Fyrirrennari: Otto Grotewohl og Wilhelm Pieck |
|
Eftirmaður: Erich Honecker | |||
Fyrirrennari: Wilhelm Pieck (sem forseti Austur-Þýskalands) |
|
Eftirmaður: Willi Stoph |