Cordell Hull

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1933-1944

Cordell Hull (2. október 1871 – 23. júlí 1955) var bandarískur stjórnmálamaður og ríkiserindreki. Hann var utanríkisráðherra Bandaríkjanna frá 1933 til 1944 á forsetatíð Franklins D. Roosevelt. Hull gengdi embætti utanríkisráðherra lengst allra í sögu Bandaríkjanna og var í embættinu mestalla seinni heimsstyrjöldina. Hull var meðlimur í Demókrataflokknum og hafði setið bæði á fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir flokkinn í Tennessee áður en hann varð utanríkisráðherra.

Cordell Hull
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
Í embætti
4. mars 1933 – 30. nóvember 1944
ForsetiFranklin D. Roosevelt
ForveriHenry L. Stimson
EftirmaðurEdward Stettinius Jr.
Öldungadeildarþingmaður fyrir Tennessee
Í embætti
4. mars 1931 – 3. mars 1933
ForveriWilliam Emerson Brock
EftirmaðurNathan L. Bachman
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 4. kjördæmi Tennessee
Í embætti
4. mars 1923 – 3. mars 1931
ForveriWynne F. Clouse
EftirmaðurJohn R. Mitchell
Í embætti
4. mars 1907 – 3. mars 1921
ForveriMounce Gore Butler
EftirmaðurWynne F. Clouse
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. október 1871
Olympus, Tennessee, Bandaríkjunum
Látinn23. júlí 1955 (83 ára) Washington, D. C., Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiWitz Whitney (g. 1917; d. 1954)
Börn6
HáskóliCumberland-háskóli
AtvinnaStjórnmálamaður, lögfræðingur
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1945)
Undirskrift

Hull hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1945 fyrir að vinna að stofnun Sameinuðu þjóðanna. Roosevelt forseti lýsti Hull sem „föður Sameinuðu þjóðanna“.[1]

Æviágrip

breyta

Cordell Hull fæddist í timburkofa í Overton-sýslu (nú Pickett-sýslu) í Tennessee. Eftir að hafa lokið lögfræðinámi við Cumberland-háskóla var hann kjörinn á fylkisþing Tennessee. Hull barðist með bandaríska hernum á Kúbu í stríði Spánar og Bandaríkjanna árið 1898. Hann sneri aftur til Tennessee árið 1903 og var útnefndur héraðsdómari. Árið 1906 var hann kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Demókrataflokkinn en tapaði þingsæti sínu þegar Demókratar guldu afhroð gegn Repúblikönum í þingkosningum árið 1920. Frá 1921 til 1924 var Hull formaður landsnefndar Demókrataflokksins. Í kosningum árið 1922 endurheimti Hull þingsæti sitt og hélt því til ársins 1931, en þá var hann kjörinn öldungadeildarþingmaður Tennessee-fylkis.

Þegar Franklin D. Roosevelt tók við embætti Bandaríkjaforseta árið 1933 útnefndi hann Hull utanríkisráðherra í stjórn sinni. Hull gegndi því embætti mestalla forsetatíð Roosevelts og sagði ekki af sér fyrr en nokkrum vikum eftir fjórða kjör Roosevelts til forseta árið 1944. Hull er enn í dag sá utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem lengst hefur setið í embætti, í alls 11 ár og 9 mánuði.

Hull þótti „suðrænn séntilmaður af gamla skólanum“.[2] Hann var smámæltur og talsmáti hans þótti bera merki um „meinleysi og vingjarnleika“.[2] Þeir sem þekktu Hull báru þó vitni um að hann hafi verið óbilgjarn í garð andstæðinga sinna.[3]

Utanríkisráðherratíð

breyta

Franklin Delano Roosevelt útnefndi Hull utanríkisráðherra þrátt fyrir viðvaranir fimm öldungadeildarþingmanna um að Hull væri „of hugsjónasamur“ fyrir starfið.[4] Sagnfræðingurinn Arthur Schlesinger hefur kallað Hull „eins konar alþjóðasinnaða samvisku Roosevelts í efnahagsmálum, samviskurödd sem forsetinn hlustaði ekki alltaf á en átti yfirleitt síðasta orðið.“[5]

Hull tók þátt í þróun Morgenthau-áætlunarinnar, sem snerist um að farga stríðsgögnum hins hertekna Þýskalands í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar til þess að koma í veg fyrir að Þjóðverjar gætu háð annað stríð.

Þann 19. október árið 1943 var Hull fulltrúi Bandaríkjamanna á fundi í Moskvu ásamt breskum starfsbróður sínum, Anthony Eden. Auk þeirra sóttu fundinn Vjatsjeslav Molotov, Jósef Stalín, Hastings Ismay og Clark Kerr.[6]

Samkvæmt sagnfræðingnum François Kersaudy var Cordell Hull meðal þeirra meðlima í ríkisstjórn Roosevelts sem hvöttu mest til afskipta af stjórn Frjálsra Frakka til þess að grafa undan forystu Charles de Gaulle, sem Hull og Roosevelt var báðum í nöp við.[7] Einn áreksturinn milli þeirra varð þegar de Gaulle skipaði hertöku á frönsku nýlendunni Saint-Pierre og Miquelon í lok ársins 1941 þrátt fyrir mótmæli Bandaríkjamanna.[8][9] De Gaulle sendi flota Frjálsra Frakka til að hertaka Saint-Pierre og Miquelon frá Vichy-stjórninni þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hefðu skipað honum að láta þær vera.[9] Eftir að Frjálsir Frakkar hertóku eyjaklasann birti Hull yfirlýsingu þar sem hann sagði: „aðgerðir þriggja hersveita hinna svokölluðu Frjálsu Frakka í Saint-Pierre og Miquelon voru bæði dutlungafullar og andstæðar samkomulögum allra aðila.“ Notkun orðsins „svokölluðu“ þótti sérlega niðrandi í garð de Gaulle.[9]

Hull var einn helsti hvatamaðurinn að baki stofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hull lagði drög að stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna ásamt starfsliði sínu á miðju árinu 1943. Fyrir störf sín við stofnun þeirra var Hull sæmdur friðarverðlaunum Nóbels árið 1945. Roosevelt hafði tilnefnt Hull til verðlaunanna áður en hann lést.

Stjórnmálastefnur

breyta

Arthur Schlesinger hefur sagt um Hull að hann hafi átt tvær stórar fyrirmyndir í stjórnmálum:[10]

Hull var talinn frjálslyndismaður að hætti Williams Ewart Gladstone og var hlynntur hugmyndum Jeffersons um „réttæti fyrir alla“. Efnahagslega stóð hann nærri Woodrow Wilson og efnahagsstefnu „Nýja frelsisins“ sem Wilson rak. Hull var aftur á móti andsnúinn stjórnarstefnu Theodores Roosevelt, sem hann taldi aðhyllast of mikla efnahagsmiðstýringu. Tvær helstu stjórnmálabarátturnar sem Hull háði á ferli sínum voru:[11]

Líkt og Franklin D. Roosevelt var Hull andstæðingur nýlendustefnu og frá árinu 1943 töluðu Bandaríkin opinskátt í þágu sjálfstæði nýlendnanna.[12]

Tilvísanir

breyta
  1. Hulen, Bertram D. (25. október 1946). „Charter Becomes 'Law of Nations', 29 Ratifying It“. The New York Times. bls. 1. Sótt 1. apríl 2020.
  2. 2,0 2,1 Schlesinger, The Age of Roosevelt Volume II The Coming Of The New Deal, bls. 215.
  3. Schlesinger, 1971b, bls. 216.
  4. Arthur Schlesinger, The Age Of Roosevelt - Volume I The Crisis Of The Old Order 1919-1933, bls. 505.
  5. Schlesinger, 1971b, bls. 217.
  6. Staline, Jean Elleinstein, Librairie Arthème Fayard.
  7. François Kersaudy, De Gaulle et Roosevelt. Le duel au somment, Paris, Perrin, 2004.
  8. Robert Aron, Grands dossiers de l'histoire contemporaine, Paris, CAL (Club des amis du livre), 1964 (1re éd. : Grands dossiers de l'histoire contemporaine ; Nouveaux grands dossiers de l'histoire contemporaine, Paris, Librairie Académique Perrin, 1962-1964), 494 p., « Le putsch de Saint-Pierre-et-Miquelon », p. 191-208.
  9. 9,0 9,1 9,2 Winston Churchill, The Second World War, Plon, 1948-1954 ; rééd. La Deuxième Guerre mondiale, Le Cercle du Bibliophile, 12, 1965-1966, Tome sixième, « La grande alliance – L'Amérique en Guerre, 1941–1942 », XV : « Washington et Ottawa », bls. 303-304.
  10. Schesinger, 1971b, bls. 213.
  11. Schlesinger, 1971b, bls. 214.
  12. Noraogo Kinda, Les États-Unis et le nationalisme en Afrique noire à l'épreuve de la décolonisation (Deuxième Guerre mondiale-1960), Outre-Mers. Revue d'histoire, Année 1992, 297, bls. 533-555


Fyrirrennari:
Henry L. Stimson
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna
(4. mars 193330. nóvember 1944)
Eftirmaður:
Edward Stettinius Jr.