Bochum er iðnaðarborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 365 þúsund íbúa (2018). Hún er í Ruhr-héraðinu. Hún er hluti af Rín-Ruhr-stórborgarsvæðinu.

Bochum
Skjaldarmerki Bochum
Staðsetning Bochum
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals145,66 km2
Hæð yfir sjávarmáli
100 m
Mannfjöldi
 • Samtals365 þúsund (2.018)
 • Þéttleiki2.483/km2
Vefsíðawww.bochum.de
 
Bochum.

Bochum liggur austarlega í Ruhr-héraðinu og er umkringt öðrum borgum þar. Næstu borgir eru Dortmund til austurs (10 km), Recklinghausen til norðurs (10 km), Essen til vesturs (10 km) og Wuppertal til suðurs (25 km).

Skjaldarmerki

breyta

Skjaldarmerki Bochum er svört bók með gullnum síðum á bláum grunni. Fyrir aftan bókina er hvít-rauður borði. Merki þetta var tekið í notkun 1975 er nokkrir bæir voru innlimaðir Bochum. Hvít-rauði borðinn var merki Wattenscheid en bókin merki Bochum. Uppruni bókarinnar er óljós.

Orðsifjar

breyta

Bochum hét upphaflega Bokheim og Buockheim. Það er dregið af þýska orðinu Buche, sem merkir trjátegundina beyki. Endingin -heim merkir bær. [1]

Söguágrip

breyta
 
Járnbrautarsýning í Bochum

890 kemur heitið Bochum fyrst við skjöl, en lítið er vitað um sögu bæjarins á miðöldum. 1321 veitti greifinn Engelbert II von der Mark Bochum borgarréttindi. Um miðja 16. öld var farið að grafa eftir kolum við borgina en hún var þó aðallega landbúnaðarborg næstu aldir. Í 7 ára stríðinu um miðja 18. öld hertóku Frakkar og prússar borgina. Strax í upphafi 19. aldar hófst iðnbyltingin í borginni er fyrsta gufuvélin í kolanámunum var tekin í notkun. 1806-1815 var Bochum í höndum Frakka, en varð prússnesk eftir það. 1834 voru fyrstu kolanámur neðanjarðar grafnar og í framhaldi af því voru fyrsti stáliðjurnar reistar. Með tilkomu járnbrautarinnar 1860 fara flutningar hraðar fram, þar sem Bochum liggur ekki við skipgengar ár. Við það blómstrar iðnaðurinn enn meir og íbúafjöldinn vex. 1898 fórust 116 kolunámumenn í einu stærsta kolanámuslysi Þýskalands fyrr og síðar. 1923 hertaka Frakkar borgina sem nokkurs konar stríðsskaðabætur og réðu þeir borginni næstu fjögur árin. Eftir valdatöku nasista í Þýskalandi voru gyðingar fluttir á brott frá borginni. Gyðingakonan Else Hirsch skipulagði leyniferðir til Hollands og Bretlands og tókst þannig að bjarga fjölda barna og unglinga, bæði gyðinga og annarra sem nasistar ofsóttu. Else sjálf var síðar flutt í útrýmingarbúðir, þar sem hún lést. Bochum varð fyrir talsverðum loftárásum í heimstyrjöldinni síðari en þó ekki eins miklum og margar aðrar iðnaðarborgir. Um 38% borgarinnar eyðilagðist. 10. apríl 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust. Hún var síðan hluti af breska hernámssvæðinu. Við endurreisn borgarinnar fer iðnaðurinn í gang á ný. 1962 eru Opel-verksmiðjurnar stofnaðar í borginni og sama ár er háskólinn Ruhr-Universität stofnaður i Bochum, en hann er með stærri háskólum Þýskalands. Upp úr því fara erfiðleikar í kolavinnslunni að gera vart við sig. Einni námu eftir annarri er lokað og stálverin í kjölfarið. 1973 er síðustu kolanámunni lokað. 1975 var borgin Wattenscheid innlimuð í Bochum. Þar með fór íbúafjöldinn yfir 400 þúsund en hefur dalað síðan.

Viðburðir

breyta
 
Bochum Total er stærsta útirokkhátíð Evrópu

Bochum Total er heiti á stærstu rokk/popp útihátíð Evrópu þar sem aðgangur er ókeypis. Hátíð þessi hefur farið fram árlega síðan 1986 og fer ávallt fram seinni part júlí. Um milljón manns sækja hátíðina heim. Ýmsar hljómsveitir troða upp en eitt aðalsmerki hátíðarinnar er að bjóða ungum og óreyndum hljómsveitum að spila og afla sér reynslu. Margar þeirra hafa síðan náð að slá í gegn.

Sparkassen Giro Bochum er heiti á alþjóðlegri hjólreiðakeppni sem fram fer í miðborg Bochum. Hún tekur ávallt tvo daga og er bæði fyrir atvinnuhjólreiðamenn og áhugamenn. Keppni þessi fer ávallt fram tveimur vikum eftir að Tour de France lýkur í Frakklandi. Árið 2009 sigraði Mark Cavendish frá Bretlandi, en hann er margfaldur meistari í ýmsum hjólreiðakeppnum.

Frægustu börn borgarinnar

breyta

Byggingar og kennileiti

breyta
 
Hinn útbrunni turn Kristskirkjunnar
 
Die Glocke fyrir framan ráðhúsið
  • Kristskirkjan er lútersk kirkja sem reist var 1877-1932. Í kjallara hennar var minningarsalur fyrir fallna hermenn í þýsk-franska stríðinu 1870-71 og í heimstyrjöldinni fyrri 1914-18. Á nasistatímanum predikaði presturinn Hans Ehrenberg ákaft gegn ofríki nasista og var sendur í fangabúðir fyrir vikið. Í loftárásum 1943 eyðilagðist kirkjan nær algjörlega. Kirkjuskipið var endurreist 1956-59 en turninn er enn útbrunninn og stendur sem minnisvarði um stríðið. Áætlanir eru um að hreinsa sótið og gera hann upp.
  • Die Glocke er stór kirkjuklukka sem stendur á torginu fyrir framan nýja ráðhúsið. Hún var smíðuð 1867 af Bochumer Verein sem sýningargripur á heimssýningunni í París. Klukknahljómur hennar opnaði sýninguna. Klukkan er 15 tonn að þyngd, en þvermál hennar er 3,13 m. Eftir heimssýninguna var hún aftur flutt til Bochum, en við flutninginn skemmdist hún lítillega og er óhæf til hringinga. Síðan þá hefur hún verið sett til sýninga, fyrst á verksmiðjulendi, en síðan 1979 stendur hún á núverandi stað.

Tilvísanir

breyta
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 58.

Heimildir

breyta