Bartólómeusarkirkjan í Frankfurt

Bartólómeusarkirkjan í Frankfurt er keisarakirkjan í borginni. Í henni voru þýsku konungarnir kjörnir og margur keisarinn var krýndur í henni. Í kirkjunni eru geymdir hlutar úr höfuðkúpu postulans Bartólómeusar.

Bartólómeusarkirkjan í Frankfurt er keisarakirkja

Saga Bartólómeusarkirkjunnar

breyta

Salvatorkirkjan

breyta
 
Módel af gömlu Salvatorkirkjunni

Fyrirrennari núverandi kirkju var reistur á tímum Karlamagnúsar. Af henni er aðeins grunnurinn eftir. Eftir skiptingu hins mikla frankaríkis 843 (Verdun-samningurinn) lét Lúðvík hinn þýski reisa nýja kirkju sem kallaðist Salvatorkirkjan (Salvator = frelsari). Kirkjunni var lýst sem glæsilegri kirkju með tveimur hringlaga turnum. Árið 855 var Lóþar II kjörinn til konungs í Lotharingen, ríkinu milli Frakklands og Þýskalands. Þetta var fyrsta konungskjörið í kirkjunni í Frankfurt og varð upphafið að aldalöngum siði. Næsta valdaætt, Liudolfinger-ættin, sat oftar en ekki í Speyer. Það var ekki fyrr en Salier-ættin komst til valda að Frankfurt varð að keisaraborg á ný. Þá var Salvatorkirkjan orðin gömul og turnarnir nærri að hruni komnir. Engu að síður predikaði munkurinn Bernhard frá Clairvaux í kirkjunni 1146 og hvatti menn til að leggja í krossferð. Konráður III konungur tók áskoruninni og lagði upp í ferð til landsins helga. Hér er um aðra krossferðina að ræða. 1238-39 var kirkjan gerð upp og vígð á ný. Að þessu sinni var helgiskrín sett í kirkjuna en hún innihélt hluta af höfuðkúpu postulans Bartólómeusar. Hann varð því verndardýrlingur kirkjunnar, sem eftir það var nefnd eftir honum.

Núverandi kirkja

breyta

Strax í framhaldi af þessu var ákveðið að reisa nýja kirkju á grunni Salvatorkirkjunnar. Múrveggir gömlu kirkjunnar fengu að standa, sem og turnarnir, en núverandi kirkja varð þó töluvert stærri. Framkvæmdir stóðu fram eftir 13. öldinni og var nýja kirkjan vígð 1269. Hún var í gotneskum stíl, sú fyrsta í þessu héraði. Konungskjörin voru áfram haldin í nýju kirkjunni. Á 14. öld fékk kirkjan nýjan kór. 1352 geysaði pestin í Frankfurt og létust um 2000 manns. Borgarbúar kenndu gyðingum um óárán þessa og hófu að brenna hverfi þeirra (gettó). En sökum þess að hverfi þeirra var strax fyrir aftan nýja kórinn, læstist eldur í kirkjuna og brann allt þakið. Á þessum tíma var ákveðið að rífa stærsta hlutann af gömlu Salvatorkirkjunni sem enn stóð og stækka núverandi kirkju. Þessum framkvæmdum lauk 1370. Engir nýir turnar voru reistir. Þeir tilheyrðu enn gömlu Salvatorkirkjunni, því vegna þrengsla í miðborginni var ekki unnt að reisa háa turna eins og gert hafði verið í öðrum borgum ríkisins. Ráðhúsið var einfaldlega fyrir. En snemma á 15. öld var ákveðið að reisa nýtt ráðhús við Römerberg og rífa það gamla. Í framhaldi af því var loks hafist handa við að reisa háan turn fyrir Bartólómeusarkirkjuna. Framkvæmdir við hann hófust 1415 og stóðu fram á næstu öld.

Siðaskiptin

breyta

1514 var framkvæmdum hins vegar hætt. Ástæðan fyrir því var mikill órói íbúa gagnvart kaþólsku kirkjunni, sem á þessum tíma ríkti með harðri hendi yfir fólkið. Aðeins þremur árum seinna hóf Lúther að mótmæla gegn kirkjunni. Í trúaróróanum sem fylgdi reyndist ekki unnt að halda verkinu áfram. 1525-1530 héldu siðaskiptin innreið sína í Frankfurt. Kirkjunni var þá skipt. Kaþólikkar fengu kórinn, þar sem þeir héldu sínar messur, en siðaskiptamenn fengu kirkjuskipið. 1530 voru siðaskiptin staðfest af borgarráðinu. Þá ruddist margmenni inn í kirkjuna og eyðilagði öll kaþólsk listaverk, helgimyndir og ölturu. Bartólómeusarkirkjan varð þá lútersk, enda kaþólskar messur bannaðar í borginni. 1546 mætti keisarinn sjálfur, Ferdinand I, til Frankfurt með mikinn her. En ekki kom til bardaga. Borgarbúar sættust við keisara og gáfu honum Bartólómeusarkirkjuna. Kaþólska kirkjan hélt því innreið í borgina á nýjan leik. 1548 var hún endurvígð að kaþólskum sið. Kirkjan er enn kaþólsk í dag.

Krýningarkirkja

breyta
 
Bartólómeusarkirkjan 1859, átta árum fyrir brunann. Eins og sjá má er turninn ekki fullkláraður.

Bartólómeusarkirkjan varð áfram vettvangur konungskjörs í þýska ríkinu. Krýning konunganna fór hins vegar fram í keisaraborginni Aachen. 1556 var Maximilian II kjörinn til konungs. En sökum þess að biskupinn í Aachen lést, var ekki hægt að krýna hann þar að sinni. Því var ákveðið að krýna Maximilian í Bartólómeusarkirkjunni. Þessi atburður varð þess valdandi að allir konungar þýska ríkisins voru hér eftir krýndir konungar í þessari kirkju. Maximilian var einnig krýndur keisari í kirkjunni. Keisarakrýningarnar höfðu farið fram í Róm en upp á síðkastið í Trient og Bologna. Eftir krýningu Maximilians voru allir þýsku keisararnir einnig krýndir í Bartólómeusarkirkjunni, 10 alls. 1792 var síðasti keisarinn krýndur í kirkjunni, Frans II, því 1806 var þýska ríkið lagt niður eftir 1000 ára tilveru. Frans varð hins vegar áfram keisari Austurríkis en Frankfurt lauk ferli sínum sem keisaraborg og Bartólómeusarkirkjan varð að venjulegri sóknarkirkju í miðborg Frankfurts. Til marks um það var þjóðþingið mikla í Frankfurt 1848 ekki haldið í Bartólómeusarkirkjunni, heldur í Pálskirkjunni.

Seinni tímar

breyta
 
Kirkjan í rústum eftir loftárásir seinna stríðs. Nasistar eru búnir að sprengja brýrnar yfir ána Main.

1867 kom upp eldur í ölkelduhúsi við hliðina á Bartólómeusarkirkjunni. Eldurinn náði að læsa sig í kirkjuna og brann hún öll að innan. Turninn brann einnig til kaldra kola. Fjórir biðu bana. Aðeins ári fyrr hafði Prússland innlimað Frankfurt. Vilhjálmur I, Prússakonungur, lofaði endurreisn kirkjunnar hið snarasta. Framkvæmdir hófust strax og við tækifærið var turninn nú loks fullkláraður. Fyrir brunann var hann 72 metra hár. Eftir hækkunina varð hann 94 metra hár og svo er enn. Í hann voru settar níu kirkjubjöllur. Sú þyngsta (Gloriosa) vó tólf tonn og er næstþyngsta kirkjubjallan í Þýskalandi (á eftir Pétursklukkunni í Dómkirkjunni í Köln). Framkvæmdunum lauk 1877. Í heimstyrjöldinni síðari varð Frankfurt fyrir gífurlegum loftárásum. Þann 22. mars 1944 brann nær öll miðborgin, þar á meðal Bartólómeusarkirkjan. Þakið hrundi og allt innviðið eyðilagðist. Að þessu sinni höfðu listaverk og annað verðmætt verið komið fyrir í geymslu annars staðar. Þannig var ýmsum listaverkum bjargað. Tiltektir hófust ekki fyrr en 1947. Endurreisn kirkjunnar hófst ári síðar og lauk þeim 1953. Árið 1994 var haldið upp á 1200 ára afmæli kirkjunnar. Við það tækifæri var vír strengdur milli turna Bartólómeusarkirkjunnar og Pálskirkjunnar og gekk franski línudansarinn Philippe Petit þar yfir.

Heilagur Bartólómeus

breyta

Bartólómeus var einn af upprunalegu postulum Jesú og kemur fram í upptalningu á þeim í Nýja testamentinu. Sagan segir að Bartólómeus hafi farið í kristniboðsferðir til Indlands og Armeníu. Þar var hann tekinn af lífi er hann var skinnflettur og hálshöggvinn. Lík hans var flutt til Ítalíu og geymt í Beneventum. Keisarinn Otto III flutti líkamsleifar hans til Rómar þar sem þær voru geymdar í kirkjunni San Bartolomeo all’Isola á eyju einni í Tíber. Talið er að það hafi verið förunautar Friðriks Barbarossa keisara sem fluttu þær til Frankfurt á 12. öld, þ.e. aðeins höfuðkúpuna. Meginhluti líkamsleifar postulans eru enn geymdar í Róm. Helgiskrín postulans bjargaðist í báðum brununum og er enn geymt í Bartólómeusarkirkjunni.

Listaverk

breyta

Flest eldri listaverk kirkjunnar eyðilögðust í siðaskiptunum 1530. Þau sem ekki voru eyðilögð þá urðu eldinum að bráð 1867 í brunanum mikla. Öll ölturu, málverk og höggmyndir eru því nýjar af nálinni. Helsta listaverk kirkjunnar er Maríualtarið frá 1728 en það var flutt inn í kirkjuna nokkuð eftir brunann 1867. Annað þekkt listaverk er málverkið Jesús tekinn af krossinum eftir hollenska málarann Anthony van Dyck. Málverkið er frá 1627 og barst til Vínarborgar og til Frankfurt, þar sem það var sett upp í kirkjunni 1952.

Myndasafn

breyta

Heimildir

breyta