Römerberg
Römerberg er ráðhústorgið og aðaltorgið í miðborg Frankfurt am Main. Þar standa gamlar byggingar eins og ráðhúsið (Römer) og Nikulásarkirkjan.
Torgið
breytaRáðhústorgið myndaðist strax í upphafi byggðar í Frankfurt. Þar var haldinn markaður áður fyrr. Torgið skiptst í tvennt: Aðaltorgið og Laugardagstorgið. Gyðingar máttu venjulega ekki ganga á aðaltorginu, aðeins þegar stórsýningar voru í gangi. Þeir urðu að halda sig á Laugardagstorginu. Þar var mönnum refsað og haldnar aftökur, en aðeins á laugardögum. Þaðan kemur heitið. Á torginu er brunnur og stytta af rómversku gyðjunni Mínervu. Í kringum hana var áður fyrr haldin heiðin hátíð, Walpurgisnacht, þann 1. maí ár hvert. Í kringum allt torgið risu fögur verslunarhús. Ráðhúsið Römer var ekki reist fyrr en á 15. öld. Á torginu fóru fram hátíðir og skrúðgöngur í tengslum við konungskjör og krýningar sem fram fóru í hinni nálægu Bartólómeusarkirkju. 1963 hélt John F. Kennedy þar ræðu fyrir framan 150 þús manns. Á seinni tímum fara gjarnan fram heiðranir íþróttamanna á torginu, til dæmis er Þjóðverjar urðu heimsmeistarar og Evrópumeistarar í knattspyrnu, og á það bæði við um karlaliðið og kvennaliðið. Þar er einnig haldinn árlegur jólamarkaður í aðventunni. Öll gömlu húsin gjöreyðilögðust í loftárásum heimstyrjaldarinnar síðari. Þau hús sem nú standa eru öll endurreist og nýleg. Við endurreisn þeirra var reynt að viðhalda útlitinu eins og þau birtust á gömlum myndum.
Römer
breytaVið suðurenda ráðhústorgsins stendur hið mikla ráðhús borgarinnar. Það heitir Römer (Rómverji) og er ein af einkennisbyggingum borgarinnar. Elstu hlutar hússins voru reistir 1405-1407. Með tilkomu hússins var konungskjörið fært úr Bartólómeusarkirkjunni í ráðhúsið. Mýmargir konungar þýska ríkisins voru kjörnir af kjörfustunum í ráðhúsinu en krýningin fór eftir sem áður fram í borginni Aachen en færðist svo yfir í Bartólómeusarkirkjuna á 17. öld. Á 17. öld voru keisararnir kjörnir beint, án þess að hafa verið kjörnir konungar fyrst. Síðasta keisarakjörið í húsinu fór fram 1792 en eftir það var þýska ríkið lagt niður. Yfirleitt var haldin mikil veisla í ráðhúsinu eftir hvert kjör. Bæði kjörið og veislan fóru fram í Keisarasalnum svokallaða en það er íburðarmikill salur í ráðhúsinu. Í þeim sal héldu keisararnir oft ríkisþing. Í loftárásum 1944 nær gjöreyðilagðist ráðhúsið og brann út. Endurreisn ráðhússins hófst 1947 og stóð til 1955. Það var forseti Þýskalands, Theodor Heuss, sem vígði húsin á ný.
Gamla Nikulásarkirkjan
breytaNikulásarkirkjan stendur við austurenda Römerberg. Hún var reist á 13. öld í mjög óvenjulegu formi. Turninn er 48 metra hár og er átthyrndur. Hún brann út í loftárásum 1944 og var endurreist. Í henni eru því ekki mörg gömul listaverk.
Sögusafnið
breytaStrax við hliðina á Nikulásarkirkjunni við austurenda Römerberg er sögusafnið Historisches Museum. Það var stofnað 1878 með það fyrir augum að halda við sögu Frankfurts í aðgengilegu formi. Sökum plássleysis var safnið hins vegar víða um borg. Mörg fögur listaverk voru geymd í stærri söfnum í Þýskalandi. Í loftárásum 1944 eyðilagðist nær allt safnahúsið. Margir munanna í öðrum húsakynnum sluppu hins vegar við skemmdir. Viðgerðir drógust á langinn og lauk þeim ekki fyrr en 1972. Nokkrar fastar sýiningar eru í húsinu og tengjast þær allar sögu borgarinnar, sérstaklega keisarasögu og kirkjusögu. Nokkur borgarmódel eru í safninu og málverk, auk annarra hluta. Við innganginn er stór rauð steinstytta af Karlamagnúsi.
Myndasafn
breyta-
Krýningarveisla Jósefs II í Keisarasalnum í ráðhúsinu 1792
-
Vesturálma ráðhússins
-
Karlamagnús við inngang sögusafnsins
-
Eftirmynd af krúnudjásnum keisaranna í sögusafninu
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Römerberg (Frankfurt)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Römer (Frankfurt)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Alte Nikolaikirche“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Historisches Museum Frankfurt“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.