Konráður III (HRR)
Konráður III (1093 í Bamberg – 15. febrúar 1152 í Bamberg) var hertogi í Frankalandi, gagnkonungur og síðar konungur þýska ríkisins 1127-1152, konungur Langbarðalands 1128-1135 og konungur í Búrgund 1138-1152. Konráður var hins vegar aldrei krýndur til keisara.
Æviágrip
breytaLeiðin til konungs
breytaKonráður fæddist í bærísku borginni Bamberg 1093. Foreldrar hans voru Friðrik I hertogi af Sváfalandi og Agnes frá Waiblingen (dóttir Hinriks IV keisara). Konráður var því af Staufer-ættinni og reyndi að útvíkka yfirráðasvæði ættarinnar í Frankalandi og Sváfalandi. Á þeim tíma voru staðamálin þýsku í gangi milli Hinriks V keisara og páfa. Þegar Erlung, biskup í Würzburg og hertogi í Frankalandi, studdi síðarnefna aðilann, afturkallaði Hinrik keisari hertogatitilinn af biskupi og gerði Konráð að hertoga yfir Frankalandi í staðinn. Þegar keisarinn fór til Ítalíu gerði hann Konráð að staðgengli sínum í þýsku löndunum. 1124 eða 1125 fór Konráður í pílagrímsferð til Jerúsalem. Meðan hann var þar dó Hinrik keisari. Nýr konungur þýska ríkisins var kjörinn Lothar III. Bróðir Konráðs, Friðrik, tók því illa og ákvað að berjast móti nýja konunginum. Þegar Konráð kom heim úr ferðalagi sínu, tók hann þegar upp baráttuna með bróður sínum. Íbúar Sváfalands kusu hann til konungs og voru því tveir konungar þýska ríkisins á þeim árum. Ekki er ljóst hvers vegna Friðrik, sem var eldri, var ekki kosinn, en ef til vill skipti það máli að hann var blindur á öðru auga.
Konungur þýska ríkisins
breytaÞegar Konráð var með góðan stuðning í suðurhluta Þýskalands, ákvað hann að fara til Ítalíu til að tryggja sig í sessi þar. 1128 var hann kjörinn til konungs í Langbarðalandi (Lombardia) og var því orðinn jafn stöndugur sem gagnkonungur og Lothar. 1137 lést Lothar hins vegar. Konráður flýtti sér þá til Koblenz, þar sem hann var formlega kjörinn (eða endurkjörinn) til konungs þýska ríkisins í mars 1138. Viku seinna hlaut hann konungsvígslu í keisaraborginni Aachen. Hvorki kjörið né vígslan var gerð með vitund kjörfurstanna. Þrátt fyrir það héldu þeir að sér höndum og samþykktu gjörninginn á ríkisþingi í Bamberg skömmu seinna. Konráður reyndi að ganga milli bols og höfuðs á ættingjum Lothars, Welfen-ættinni, sem fannst að þeim bæri konungstitillinn. Þessu fylgdu töluverð innanríkisátök. 1147 hélt Konráður ríkisþing í Frankfurt am Main. Þar voru lögð drög að annarri krossferðinni. Þar tókst konungi einnig að fá samþykkt að sonur sinn, Hinrik, yrði eftirmaður hans á konungsstóli. Sama ár fór Konráður af stað í krossferðina, ásamt Loðvík VII. konungs Frakklands. Ungur bróðursonur Konráðs, Friðrik, slóst með í för (seinna Friðrik Barbarossa). Ferðin var algerlega mislukkuð. Strax í Litlu-Asíu beið krossfararherinn ósigur gegn múslimum. Konráð og aðrir sem lifðu af fundu þá franska herinn. En ekki tók betra við þar, því hjá Frökkum braust út pest sem drap meirihluta liðsins. Konráður veiktist og fór til Konstantínópel. Næsta ár var ákveðið að sitja um borgina Damaskus. En það mistókst herfilega eftir aðeins 10 daga. Krossfarar sáu sitt óvænna og fóru heim til Evrópu. Heima héldu átökin gegn Welfen-ættinni áfram. 1150 lést sonur Konráðs, Hinrik, sem hafði verið kjörinn eftirmaður hans. Tveimur árum seinna lést svo Konráð sjálfur í heimaborg sinni Bamberg. Hann var þá á leið til Rómar til að hljóta keisaravígslu, en henni náði hann því ekki. Konráður hvílir í dómkirkjunni í Bamberg. Næsti konungur varð bróðursonur hans, Friðrik Barbarossa.
Fjölskylda
breytaKonráður var tvíkvæntur.
Heimildir
breyta- Höfer, Manfred. Die Kaiser und Könige der Deutschen, Bechtle 1994.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Konrad III. (HRR)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt febrúar 2010.
Fyrirrennari: Lothar III |
|
Eftirmaður: Friðrik Barbarossa |