Jórdanía

ríki í Mið-Austurlöndum
(Endurbeint frá ʼUrdunn)

Jórdanía (arabíska: أردنّ ʼUrdunn; opinbert heiti: Hasém­íska konungs­ríkið Jórd­anía) er land í Miðausturlöndum með landamæri að Sýrlandi í norðri, Írak í norðaustri, Sádí-Arabíu í austri og suðri og Ísrael og Vesturbakkanum í vestri. Það deilir strandlengju með Ísrael við Akabaflóa og Dauðahaf.

Hasém­íska konungs­ríkið Jórd­anía
المملكة الأردنّيّة الهاشميّة
Al Mamlakah al Urduniyah al Hashimiyah
Fáni Jórdaníu Skjaldarmerki Jórdaníu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
الله، الوطن، الملك
Al-Lāh, Al-Waṭan, Al-Malik (arabíska)
Guð, ríki, konungur
Þjóðsöngur:
As-salam al-malaki al-urdoni
Staðsetning Jórdaníu
Höfuðborg Amman
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Konungur Abdúlla 2.
Forsætisráðherra Bisher Al-Khasawneh
Sjálfstæði
 • frá Þjóðabandalaginu 25. maí 1946 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
110. sæti
89.342 km²
0,6
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
84. sæti
11.042.719
114/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 102,158 millj. dala (84. sæti)
 • Á mann 10.007 dalir (110. sæti)
VÞL (2019) 0.729 (102. sæti)
Gjaldmiðill jórdanskur dínar (JOD)
Tímabelti UTC+2 (+3 á sumrin)
Þjóðarlén .jo
Landsnúmer +962

Konungsríkið varð til þegar Bretar og Frakkar skiptu Vestur-Asíu upp í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar. Landið varð sjálfstætt ríki sem Transjórdanía. Þegar landið lagði Vesturbakkann undir sig í Fyrsta stríði Araba og Ísrael 1948 tók Abdúlla 1. upp titilinn konungur Jórdaníu. Ísrael lagði Vesturbakkann undir sig í Sex daga stríðinu 1967. Jórdanía lét eftir tilkall sitt til landsvæðisins árið 1988 og varð annað Arabaríkið sem gerði friðarsamning við Ísrael árið 1994.[1] Jórdanía er stofnaðili að Arababandalaginu og Samtökum um íslamska samvinnu. Jórdaníu er þingbundin konungsstjórn en konungurinn hefur samt sem áður mikil völd.

Jórdanía er hálfþurrt land, tæplega 90.000 km2 að stærð. Þar búa um 9 milljónir og landið er 11. fjölmennasta Arabaríkið. Langflestir íbúar, eða um 95%, aðhyllast súnní íslam, en í landinu er líka innlendur kristinn minnihluti. Jórdanía hefur oft verið kölluð „stöðugleikavin“ í Mið-Austurlöndum. Arabíska vorið árið 2010 hafði tiltölulega lítil áhrif þar.[2] Allt frá 1948 hefur Jórdanía tekið við flóttafólki frá átökum í nágrannalöndum. Um 2,1 milljón Palestínumanna og 1,4 milljón sýrlenskra flóttamanna var í landinu samkvæmt manntali árið 2015.[3] Þar eru líka þúsundir kristinna Íraka á flótta undan Íslamska ríkinu.[4] Fjöldi flóttafólks frá Sýrlandi hefur valdið álagi á innviði landsins.[5]

Alþjóðabankinn skilgreinir Jórdaníu sem nývaxtarland. Efnahagslíf landsins er fjölbreytt en auðlindir fáar og iðnaður lítt þróaður. Jórdanía er auðug af fosfatnámum og er einn stærsti framleiðandi fosfats í heimi. Jórdanía er í 102. sæti Vísitölu um þróun lífsgæða og er flokkað sem efra meðaltekjuland. Landið hefur laðað að sér fjárfestingu og ferðafólk, sérstaklega heilsuferðamenn vegna þróaðrar heilbrigðisþjónustu.[6] Takmarkaðar náttúruauðlindir, mikill straumur flóttafólks og átök í heimshlutanum hafa staðið hagvexti fyrir þrifum.[7]

Jórdanía heitir eftir ánni Jórdan sem myndar stóran hluta af norðvesturlandamærum landsins.[8] Til eru nokkrar kenningar um uppruna nafns árinnar, en líklegast þykir að hún dragi nafn sitt af semíska orðinu Yarad sem merkir „niðurfarinn“ og vísar til rennslishalla árinnar.[9] Mest af því svæði sem nú er hluti Jórdaníu var áður nefnt Transjórdanía sem merkir „landið handan Jórdan“.[9] Í Hebresku biblíunni er landið nefnt עבר הירדן Ever HaYarden „handan Jórdan“.[9] Elstu annálar á arabísku nefna ána Al-Urdunn, sem samsvarar Yarden.[10] Jund Al-Urdunn var setuliðsumdæmi í kringum ána snemma í sögu íslam.[10] Þegar krossferðirnar hófust á 2. árþúsundinu var lávarðsdæmið Oultrejordain stofnað þar.[11]

Landfræði

breyta
 
Landslag Wadi Rum minnir svo á landslag á Mars að það hefur orðið vinsæll tökustaður og ferðamannastaður.

Jórdanía er á hernaðarlega mikilvægum stað á þar sem Asía, Afríka og Evrópa mætast,[12] í frjósama hálfmánanum þar sem ein vagga siðmenningar hefur verið.[13] Landið er 89.341 km2 að stærð, og er 400 km að lengd frá norðri til suðurs. Nyrsti punktur landsins er Umm Qais og sá syðsti er Aqaba.[8] Landið er milli 29. og 34. breiddargráðu norður og 34. og 40. lengdargráðu austur. Það á landamæri að Sádi-Arabíu í suðri og austri, Írak í norðaustri, Sýrlandi í norðri og Ísrael og Palestínuríki í vestri.

Í austri er landið eyðimerkurháslétta með stöku vinjar og árstíðabundin vatnsföll.[8] Helstu borgirnar eru langflestar í norðvesturhluta landsins þar sem er frjósamur jarðvegur og tiltölulega mikil úrkoma.[14] Meðal þeirra eru Irbid, Jerash og Zarqa í norðvestri; höfuðborgin Amman og Al-Salt í miðvesturhlutanum; og Madaba, Al-Karak og Aqaba í suðvestri.[14] Helstu bæir í austurhlutanum eru við vinjarnar Azraq og Ruwaished.[13]

Í vestri er hálendi með ræktarlandi og sígrænum skógum sem lækkar skyndilega þegar kemur að Sigdal Jórdan.[13] Áin Jórdan rennur um sigdalinn og þar er Dauðahafið á mörkum Jórdaníu og Ísrael.[13] Jórdanía á 26 km strönd að Akabaflóa í Rauðahafi, en er landlukt að öðru leyti.[15] Yarmouk-á, sem rennur í Jórdan, myndar landamæri Jórdaníu og Sýrlands (ásamt hinum hernumdu Gólanhæðum) í norðri.[15] Önnur landamæri eru samkvæmt nokkrum alþjóðlegum og staðbundnum samningum og fylgja ekki landslagsþáttum.[13] Hæsti tindur landsins er Jabal Umm al Dami, 1.854 metrar á hæð. Dauðahafið er lægsti punkturinn, 420 metrum undir sjávarmáli og lægsti punktur jarðar á landi.[13]

 
Dauðahaf er lægsti punktur jarðar á landi.

Í Jórdaníu er að finna margvísleg búsvæði, vistkerfi og lífríki út af fjölbreyttu landslagi og umhverfi.[16] Konunglega náttúruverndarfélagið var stofnað 1966 til að sjá um náttúruauðlindir Jórdaníu.[17] Náttúruverndarsvæði í Jórdaníu eru meðal annars Dana-verndarsvæðið, Azraq-votlendið, Shaumari-friðlandið og Wadi Mujib.[17]

Stjórnmál

breyta

Stjórnsýslueiningar

breyta

Jórdanía skiptist í tólf héruð (landstjóraumdæmi) sem aftur skiptast í 54 umdæmi (nawahi).

 
Héruð Jórdaníu.


Tilvísanir

breyta
  1. Khalil, Muhammad (1962). The Arab States and the Arab League: a Documentary Record. Beirut: Khayats. bls. 53–54.
  2. Dickey, Christopher (5. október 2013). „Jordan: The Last Arab Safe Haven“. The Daily Beast. Afrit af uppruna á 30. september 2015. Sótt 12. október 2015.
  3. Ghazal, Mohammad (22. janúar 2016). „Population stands at around 9.5 million, including 2.9 million guests“. The Jordan Times. Afrit af uppruna á 8. febrúar 2018. Sótt 12. júní 2018.
  4. Vela, Justin (14. febrúar 2015). „Jordan: The safe haven for Christians fleeing ISIL“. The National. Afrit af uppruna á 30. september 2015. Sótt 12. október 2015.
  5. „2015 UNHCR country operations profile – Jordan“. UNHCR. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. október 2014. Sótt 12. október 2015.
  6. „Jordan second top Arab destination to German tourists“. Petra. Jordan News. 11. mars 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. mars 2016. Sótt 12. mars 2016.
  7. „Jordan's Economy Surprises“. Washington Institute. Washington Institute. 29. júní 2015. Afrit af uppruna á 10. október 2017. Sótt 9. apríl 2016.
  8. 8,0 8,1 8,2 „The World Fact book – Jordan“. CIA World Factbook. Sótt 15. júní 2018.
  9. 9,0 9,1 9,2 Mills, Watson E.; Bullard, Roger Aubrey (1990). Mercer Dictionary of the Bible. Mercer University Press. bls. 466–467, 928. ISBN 9780865543737. Afrit af uppruna á 18. október 2017. Sótt 15. júní 2018.
  10. 10,0 10,1 Le Strange, Guy (1890). Palestine Under the Moslems: A Description of Syria and the Holy Land from A. D. 650 To 1500. Alexander P. Watt for the Committee of the Palestine Exploration Fund. bls. 52. Afrit af uppruna á 5. október 2010. Sótt 15. júní 2018.
  11. Nicolle, David (1. nóvember 2008). Crusader Warfare: Muslims, Mongols and the struggle against the Crusades. Hambledon Continuum. bls. 118. ISBN 9781847251466. Sótt 15. júní 2018.
  12. Teller, Matthew (2002). Jordan. Rough Guides. bls. 173, 408. ISBN 9781858287409. Afrit af uppruna á 30. maí 2016. Sótt 9. apríl 2016.
  13. 13,0 13,1 13,2 13,3 13,4 13,5 McCoy, John (2003). Geo-data: The World Geographical Encyclopedia. Gale Research Company. bls. 281–283. ISBN 9780787655815. Afrit af uppruna á 28. nóvember 2016. Sótt 10. mars 2016.
  14. 14,0 14,1 Haddadin, Munther J. (2002). Diplomacy on Springer Science & Business Media. Springer Science & Business Media. bls. 1. ISBN 9780792375272. Afrit af uppruna á 28. nóvember 2016. Sótt 14. júní 2016.
  15. 15,0 15,1 McColl, R. W. (14. maí 2014). Encyclopedia of World Geography. Infobase Publishing. bls. 498. ISBN 9780816072293. Afrit af uppruna á 28. nóvember 2016. Sótt 15. júní 2016.
  16. „The Main Jordanian Ecosystems“. Jordanian Clearinghouse Mechanism. Jordanian Ministry of Environment. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. mars 2016. Sótt 12. mars 2016.
  17. 17,0 17,1 Bowes, Gemma (4. september 2010). „Jordan's green crusade“. The Guardian. Afrit af uppruna á 12. apríl 2016. Sótt 9. apríl 2016.

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.