Þorsteinn Eyjólfsson

Þorsteinn Eyjólfsson (d. eftir 1402) var íslenskur höfðingi á 14. öld, lögmaður og hirðstjóri hvað eftir annað og einhver valdamesti maður landsins um langa hríð. Ekkert er vitað hvar hann bjó en hann var frá Urðum í Svarfaðardal en hann átti fleiri höfuðból. Í 17. aldar heimildum er hann kenndur við Víðimýri í Skagafirði.

Þorsteinn er talinn sonur Eyjólfs Arnfinnssonar á Urðum og konu hans, Ólafar Björnsdóttur, sem var systurdótturdóttir Jörundar Hólabiskups Þorsteinssonar. Hans er fyrst getið árið 1356, þegar hann sigldi til Noregs ásamt Jóni skráveifu og Árna Þórðarsyni og fengu þeir, ásamt Andrési Gíslasyni, sem siglt hafði út árinu áður, sameiginlega hirðstjórn yfir landinu til þriggja ára. Þeir sigldu heimleiðis sumarið 1357 en skipin sem þeir voru á hröktust til Hjaltlands og þurftu þeir að hafa þar vetursetu. Þeir komu því ekki heim fyrr en sumarið 1358 og tóku þá við hirðstjórn. Þorsteinn og Jón skráveifa fengu Norðlendinga- og Vestfirðingafjórðung og mun Vestfirðingafjórðungur hafa komið í hlut Þorsteins.

Árið 1362 sigldi Þorsteinn til Noregs ásamt Þorsteini Hallssyni presti á Hrafnagili, sem hafði verið helsti andstæðingur Jóns skalla Hólabiskups í deilum norðlenskra presta við biskup. Voru þeir handteknir þar og hnepptir í varðhald. Ekki er víst hvers vegna það var en kann að hafa tengst Grundarbardaga og drápi Smiðs Andréssonar hirðstjóra þar, eða deilum milli konunganna, Magnúsar Eiríkssonar smek og Hákonar sonar hans, en vinátta er sögð hafa verið með Þorsteini og Magnúsi og Magnús lét leysa Þorstein úr haldi 1363.

Árið 1364 kom Þorsteinn aftur til landsins ásamt Ólafi Péturssyni; Þorsteinn var þá lögmaður og þeir virðast hafa gegnt hirðstjóraembættinu einnig þar til Andrés Gíslason og Ormur Snorrason komu til landsins 1366. Árið 1367 sigldi Þorsteinn aftur og fór þá að finna Magnús konung, sem sat í varðhaldi í Svíþjóð. Á heimleiðinni var hann hertekinn, 2. maí 1368, af lýbskum kaupmönnum og fluttur til Lübeck, þar sem hann sat í fangelsi til 29. júlí; „hann hét þá á Guð og helga menn sér til lausnar, og sagði ekki sitt rétta nafn“. Honum var svo sleppt en aftur var hann handtekinn þegar hann kom til Skánar, hafður í varðhaldi um tíma og að lokum fluttur til Noregs. Heim kom hann 1369 og hafði þá lögsögn yfir öllu landinu og aftur 1372-1380.

Hann virðist hafa tekið við hirðstjórn af Andrési Sveinssyni þegar hann sigldi 1387 og haft hana þar til Eiríkur Guðmundsson kom út með hirðstjórn sama ár. Þegar Eiríkur var drepinn 1388 tók Þorsteinn enn við embættinu og gegndi því þar til Vigfús Ívarsson kom til landsins 1390. Hann varð þá aftur lögmaður og gegndi því embætti líklega til dauðadags en hann er talinn hafa dáið 1402.

Erfðaskrá hans er til, gerð á þriðja í hvítasunnu 1386 á Hólum í Hjaltadal og kemur þar fram að hann var stórauðugur. Kona hans var Arnþrúður, dóttir Magnúsar Brandssonar á Svalbarði. Börn Þorsteins sem eru þekkt voru Ingibjörg kona Hrafns Bótólfssonar lögmanns, og Arnfinnur riddari og hirðstjóri á Urðum. Síðari tíma ættfræðingar hafa eignað honum mörg önnur börn en Einar Bjarnason prófessor í ættfræði hafnar þeim sem órökstuddum getgátum.

Heimildir

breyta
  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • Einar Bjarnason Íslenskir Ættstuðlar III, Reykjavík 1972.


Fyrirrennari:
Ívar Vigfússon hólmur
Hirðstjóri
með Andrési Gíslasyni, Árna Þórðarsyni og Jóni Guttormssyni
(13571360)
Eftirmaður:
Smiður Andrésson
Fyrirrennari:
Smiður Andrésson
Hirðstjóri
með Ólafi Péturssyni
(13641365)
Eftirmaður:
Andrés Gíslason
Ormur Snorrason
Fyrirrennari:
Andrés Sveinsson
Hirðstjóri
(13871387)
Eftirmaður:
Eiríkur Guðmundsson
Fyrirrennari:
Eiríkur Guðmundsson
Hirðstjóri
(13881389)
Eftirmaður:
Vigfús Ívarsson
Fyrirrennari:
Jón Guttormsson skráveifa
Lögmaður norðan og vestan
(13621366)
Eftirmaður:
Einar Gilsson
Fyrirrennari:
Einar Gilsson
Lögmaður norðan og vestan
(13691370)
Eftirmaður:
Magnús Jónsson
Fyrirrennari:
Magnús Jónsson
Lögmaður norðan og vestan
(13721380)
Eftirmaður:
Hrafn Bótólfsson
Fyrirrennari:
Hrafn Bótólfsson
Lögmaður norðan og vestan
(13911404)
Eftirmaður:
Hrafn Guðmundsson
Fyrirrennari:
Ormur Snorrason
Lögmaður sunnan og austan
(13691373)
Eftirmaður:
Ormur Snorrason