Jón Guttormsson skráveifa

Jón Guttormsson skráveifa (d. 8. júlí 1362) var íslenskur lögmaður og hirðstjóri á 14. öld, þekktur óróa- og ofstopamaður og hefur fengið á sig mjög slæmt orð í Íslandssögunni.

Ekkert er vitað um ætt og uppruna Jóns en hann var bróðir Unu, konu Ketils Þorlákssonar hirðstjóra og riddara á Kolbeinsstöðum. Árið 1348 var hann dæmdur á náð konungs fyrir einhvern gjörning og sigldi á konungsfund það ár. Ekki er vitað hvenær hann kom aftur. Haustið 1357 sigldi hann út ásamt fleiri höfðingjum en komst ekki lengra en til Hjaltlands og var þar um veturinn. Þar gerði hann eitthvað af sér svo að hann var aftur dæmdur á konungsnáð.

Hann kom þó til Íslands sumarið 1358 og höfðu þeir Þorsteinn Eyjólfsson, Andrés Gíslason og Árni Þórðarson þá fengið saman hirðstjórn á landinu til þriggja ára. Er til þess tekið í annálum hve landið var þá skattpínt. Jón mun hafa fengið Norðurland í sinn hlut og sumarið 1360 höfðu Norðlendingar fengið nóg af honum, riðu á móti honum 300, mættu honum við Þverá í Vesturhópi og stökktu honum úr fjórðungnum.

Jón varð þó lögmaður 1361 er hirðstjóratíð hans lauk og mun þar hafa notið stuðnings Smiðs Andréssonar, sem varð hirðstjóri það ár. Sumarið 1362 riðu þeir Smiður saman norður í Eyjafjörð ásamt Ormi Snorrasyni. Þann 8. júlí voru þeir á Grund í Eyjafirði og þar var gerð aðför að þeim; er sagt að húsfreyjan, Grundar-Helga, hafi átt stóran þátt í því. Í Grundarbardaga féllu Smiður og Jón og er sagt að Jón hafi verið laminn til bana með járnreknum kylfum en í vísum sem ortar voru um bardagann segir að hann hafi fundist fastur í kamarauga sem hann hafði verið að reyna að flýja út um og verið dreginn þaðan og höggvinn.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Ívar Vigfússon hólmur
Hirðstjóri
með Andrési Gíslasyni, Árna Þórðarsyni og Þorsteini Eyjólfssyni
(13571360)
Eftirmaður:
Smiður Andrésson
Fyrirrennari:
Pétur Halldórsson
Lögmaður norðan og vestan
(13611362)
Eftirmaður:
Þorsteinn Eyjólfsson