Víðimýri er bær í Skagafirði, fyrir sunnan og ofan Varmahlíð, og tilheyrði Seyluhreppi áður. Bærinn er gamalt höfuðból og var í lok 12. aldar og á 13. öld bústaður helstu höfðingja héraðsins af ætt Ásbirninga, frá Kolbeini Tumasyni til Kálfs sonar Brands Kolbeinssonar, sem vitað er að bjó þar 1262. Á 17. og 18. öld var jörðin löngum sýslumannssetur. Víðimýri hefur nú verið skipt niður í átta eða níu sjálfstæðar jarðir.

Víðimýrarkirkja.

Snorri Sturluson lét eftir því sem segir í Sturlungu gera virki á Víðimýri um 1220 og mátti að sögn sjá menjar þess fram á 20. öld en þá var allt sléttað. Kirkja hefur sennilega verið á Víðimýri frá því um eða eftir kristnitöku og frægastur presta þar fyrr á öldum er Guðmundur Arason, síðar biskup. Núverandi kirkja var reist 1834.

Á fyrstu áratugum 20. aldar reyndu bæði sóknarbörn og kirkjuyfirvöld að fá bóndann á Víðimýri, Steingrím Arason, til að rífa kirkjuna og byggja nýja en hann vildi það ekki og árið 1934 keypti Þjóðminjasafnið kirkjuna. Síðan þá hefur hún verið endurbætt mikið og þykir gersemi og frábært sýnishorn af gamalli íslenskri byggingarhefð. Kirkjan er úr torfi og timbri og var það Jón Samsonarson alþingismaður sem sá um smíði hennar.

Tenglar breyta