Sumarólympíuleikarnir 1936

(Endurbeint frá Ólympíuleikarnir 1936)

Sumarólympíuleikarnir 1936 voru haldnir í Berlín í Þýskalandi frá 1. ágúst til 14. ágúst.

11. sumarólympíuleikarnir
Bær: Berlín, Þýskalandi
Þátttökulönd: 49
Þátttakendur: 3.963
(3.632 karlar, 331 konur)
Keppnir: 129 í 19 greinum
Hófust: 1. ágúst 1936
Lauk: 16. ágúst 1936
Settir af: Adolf Hitler kanslara
Íslenskur fánaberi: Kristján Vattnes

Undirbúningur

breyta

Árið 1931 var Þýskaland valið af Alþjóðaólympíunefndinni til að halda leikana ákvað þýska ríkið þá að endurbyggja hinn gamla Olympiastadion leikvang. Árið 1933 komust nasistar til valda og ákváðu þeir að byggja nýjan völl árið 1934 og kláraðist hann rétt fyrir leikana í ágúst 1936. Arkitektinn Werner March hannaði leikvanginn ásamt bróður sínum Walter.

Nasistar gerðu sér grein fyrir áróðurgildi leikanna og nýttu þá til að sýna fólki um allan heim tilbúna glansmynd af Þýskalandi. Í því skyni var Ólympíuþorpið einkar glæsilegt. Það var reist í Elstal í Wustermark, vestan við Berlín. Gistiskálar voru bæði á einni og tveimur hæðum, 40 veitingastaðir voru í þorpinu, bíósalur, gufubað, fimleikasalur, innahúslaug og fleira. Einnig var gerð tjörn í þorpinu fuglar fluttir frá dýragarðinum í Berlín til skrauts. Hugmyndin var að þorpið liti út eins og dæmigert þýskt þorp og hefði jákvæð áhrif á ímynd Þýskalands í hugum keppenda og þjálfara.

Um 2000 manns unnu í ólympíuþorpinu og var athugað hvort starfsmenn væru af gyðingaættum áður en þeir voru ráðnir, því nasistar vildu aðeins "hreina" aría í vinnu þar. Það var hluti af því að sýna Þýskaland sem fyrirmyndarríka að þeirra smekk. Eftir leikana var þorpinu breytt í æfingabúðir fyrir Þýska herinn þar til í stríðslok. Í dag standa rústirna af þorpinu enn á sínum stað.[1]

Keppnisgreinar

breyta

Keppt var í 129 greinum. Fjöldi keppna í einstökum íþróttaflokkum er gefinn upp í sviga.

Þáttakendur

breyta

Einstakir afreksmenn

breyta
 
Indverjar urðu hlutskarpastir í hokkíkeppninni.
 
Verðlaunahafarnir í hástökkskeppni kvenna. Frá vinstri: Ibolaya Csák frá Ungverjalandi (gull), Elfriede Kaun frá Þýskalandi (brons) og Dorothy Odam frá Bretlandi (silfur).

Þjóðverjar hlutu flest gullverðlaun á leikunum, 33 á móti 24 gullverðlaunum Bandaríkjamanna. Í frjálsíþróttakeppninni komust Bandaríkjamenn hins vegar fjórtán sinnum á efsta pall en Þjóðverjar aðeins fimm sinnum.

Bandaríkjamaðurinn Jesse Owens vann eitt mesta afrek Ólympíusögunnar með því að vinna til fernra gullverðlauna: í 100 og 200 metra hlaupi, langstökki og 4*100 metra boðhlaupi. Heimildir herma að Adolf Hitler hafði stórlega mislíkað að þeldökkur íþróttamaður yrði stjarna leikanna.

Glenn Morris frá Bandaríkjunum sigraði í tugþraut á nýju heimsmeti. Að leikunum loknum fetaði hann í fótspor sundkappans Johnny Weissmuller með því að leika Tarzan apabróður á hvíta tjaldinu.

Sohn Kee-Chung sigraði í Maraþonhlaupinu og varð þar með fyrsti Kóreubúinn til að vinna til gullverðlauna. Þar sem Kórea var á þessum tíma undir yfirráðum Japana, þurfti hann þó að keppa fyrir þeirra hönd og undir japanskri útgáfu nafns síns, Son Kitei. Við setningu Ólympíuleikanna í Seoul 1988 bar hann kyndilinn með Ólympíueldinum inn á íþróttaleikvanginn.

Fimleikakappinn Konrad Frey hlaut flest verðlaun heimamanna, sex talsins. Þar af þrenn gullverðlaun.

Egyptinn Khadr Eltouny sigraði í -75 kílógramma flokki í kraftlyftingum. Fyrir leikana hafði alþjóða kraftlyftingasambandið neitað að leggja trúnað á tilkynningar egypska lyftingasambandsins um heimsmet Eltounys og talið að þær hlytu að vera uppspuni. Það breyttist eftir glæstan sigur hans í Berlín. Adolf Hitler var viðstaddur lyftingakeppnina og fagnaði afreki Eltounys með því að nefna götu í Berlín í höfuðið á honum.

 
Verðlaunaafhending langstökkskeppninnar. Frá vinstri: Naoto Tajima frá Japan, Jesse Owens frá Bandaríkjunum og Þjóðverjinn Luz Long.

Bandaríska stúlkan Marjorie Gestring varð yngsti gullverðlaunahafi Ólympíusögunnar þegar hún sigraði í dýfingum af þriggja metra bretti, 13 ára og 268 daga gömul.

Kristjan Palusalu frá Eistlandi sigraði í þungavigt í báðum keppnisflokkum fangbragða: grísk-rómverskri glímu og með frjálsri aðferð. Telja Eistlendingar afrek hans meðal hápunkta íþróttasögu sinnar.

Japanir unnu meira en helming allra verðlauna í sundkeppni karla. Í kvennaflokknum voru hollenskarstúlkur sigursælastar með fern af fimm gullverðlaunum.

Norður-Ameríkulöndin: Bandaríkin, Kanada og Mexíkó röðuðu sér í þrjú efstu sætin í keppninni körfuknattleik, sem var í fyrsta sinn formleg keppnisgrein. Leikið var utandyra og gátu leikmenn því ekki rakið knöttinn á moldarvellinum ef blautt var í veðri. Lítið varð því um stigaskor og lauk úrslitaleik Bandaríkjamanna og Kanadabúa, 19:8.

Keppni í svifflugi var sýningargrein á leikunum, án þess þó að neinn sigurvegari væri krýndur. Í kjölfarið ákvað alþjóða Ólympíunefndin að svifflug skyldi verða fullgild keppnisíþrótt á næstu leikum, en til þess kom þó aldrei.

Þátttaka Íslendinga á leikunum

breyta

Þjóðverjar hugðust nota Ólympíuleikana í áróðursskyni og veittu rausnarlega styrki, svo ljóst var að Íslendingar gætu sent marga þátttakendur til keppni. Ákveðið var að senda fjóra frjálsíþróttamenn og sundknattleikslið. Þá var boðið upp á glímusýningu ellefu glímukappa í tengslum við leikana, að Adolf Hitler viðstöddum, en hún var þó ekki hluti af formlegri dagskrá.

Sundknattleiksmennirnir voru reynslulitlir og töpuðu öllum leikjum sínum stórt. Skoruðu eitt mark en fengu á sig 24 í leikjunum þremur.

Í frjálsíþróttakeppninni keppti Sveinn Ingvarsson í 100 metra hlaupi, Sigurður Sigurðsson í hástökki og þrístökki, Kristján Vattnes Jónsson í spjótkasti og Karl Vilmundarson í tugþraut en lauk ekki keppni.

Verðlaunaskipting eftir löndum

breyta
 
Ólympíukyndillinn frá leikunum í Berlín.
Nr. Land Gull Silfur Brons Samtals
1   Þýskaland 33 26 30 89
2   Bandaríkin 24 20 12 56
3   Ungverjaland 10 1 5 16
4   Ítalía 8 9 5 22
5   Finnland 7 6 6 19
5   Frakkland 7 6 6 19
7   Svíþjóð 6 5 9 20
8   Japan 6 4 8 18
9   Holland 6 4 7 17
10   Bretland 4 7 3 14
11   Austurríki 4 6 3 13
12   Tékkóslóvakía 3 5 0 8
13   Argentína 2 2 3 7
13   Eistland 2 2 3 7
15   Egyptaland 2 1 2 5
16   Sviss 1 9 5 15
17   Kanada 1 3 5 9
18   Noregur 1 3 2 6
19   Tyrkland 1 0 1 2
20   Indland 1 0 0 1
  Nýja Sjáland 1 0 0 1
22   Pólland 0 3 3 6
23   Danmörk 0 2 3 5
24   Lettland 0 1 1 2
25   Rúmenía 0 1 0 1
  Suður-Afríka 0 1 0 1
  Júgóslavía 0 1 0 1
28   Mexíkó 0 0 3 3
29   Belgía 0 0 2 2
30   Ástralía 0 0 1 1
  Filippseyjar 0 0 1 1
  Portúgal 0 0 1 1
Alls 130 128 130 388

Heimildir

breyta

Summer Olympics 1936. (2023, 20. júlí). https://en.wikipedia.org/wiki/1936_Summer_Olympics

Rachel. (2016. 28, júlí). Hitler's Olympic Village Wustermark, Germany. Atlasobscura. https://www.atlasobscura.com/places/hitler-s-olympic-village

Tilvísanir

breyta
  1. „Hitler's Olympic Village“. Atlas Obscura (enska). Sótt 5. desember 2023.