Íþróttafélagið Leiftur

Íþróttafélagið Leiftur var fjölgreinaíþróttafélag frá Ólafsfirði sem stofnað var árið 1931. Það var sameinað Knattspyrnufélagi Siglufjarðar árið 2010 í Knattspyrnufélag Fjallabyggðar. Leiftur keppti í efstu deild karla í knattspyrnu fyrst árið 1988 og aftur á árunum 1995-2000. Það var um skeið eitt sterkasta knattspyrnulið landsins og lék m.a. í Evrópukeppni og til úrslita í bikarkeppni KSÍ árið 1998.

Merki Leifturs

Íþróttafélagið Leifur var stofnað árið 1931 í Ólafsfirði með knattspyrnuiðkun að meginmarkmiði. Var félagið því einungis opið körlum í fyrstu. Síðar voru aðrar greinar teknar á keppnisskránna og í kjölfarið var samþykkt, eftir nokkrar umræður, að heimila konum aðgang að félagið árið 1936. Við stofnun Leifturs var starfrækt ungmennafélag í bænum. Félögin voru sameinuð nokkrum árum síðar og gekk hið sameinaða félag um skeið undir nafninu Sameining en fljótlega varð Leifturs-heitið ofan á.

Auk íþróttastarfs kom félagið að ýmsum framfaramálum bæjarins. Það sinnti lengi snjómokstri fyrir bæjarbúa í fjáröflunarskyni og eignaðist réttindi til öflunar á heitu vatni um 1940. Í kjölfarið hafði það forgöngu um stofnun hitaveitu Ólafsfjarðar, sem er ein elsta bæjarhitaveita landsins. Í tengslum við gerð hennar var komið upp myndarlegri sundlaug á Ólafsfirði.

Ólafsfjörður var um áratugaskeið eitt öflugasta bæjarfélag landsins á sviði skíðaíþrótta og getur Leiftur státað af ótal Íslandsmeisturum í gegnum tíðina.[1]

Knattspyrnan á Ólafsfirði

breyta

Leiftur sendi fyrst lið til keppni á Íslandsmóti í knattspyrnu sumarið 1970, en þá var tekin upp svæðaskipt riðlakeppni í þriðju efstu deild í fyrsta sinn og fjölgaði þátttökuliðum af landsbyggðinni þá stórlega. Ólafsfirðingar ráku lestina í sínum riðli þetta fyrsta skipti og næstu tvö ár varð árangurinn litlu betri. Ekkert lið var sent til leiks sumarið 1973 en frá og með árinu 1974 tók Leiftur þátt í Íslandsmóti karla í hvert einasta sinn á meðan félagið starfaði.

Í neðstu deildum

breyta

Frá 1974 til 1981 léku Leiftursmenn í þriðju og neðstu deild og voru nær botninum en toppinum, ef frá er talið árið 1977 þegar liðið hafnaði í öðru sæti á eftir Siglfirðingum. Leiftri tókst því ekki að halda sæti sínu í deildinni þegar fjórða deildin sett á laggirnar og var félagið því meðal stofnmeðlima hennar sumarið 1982. Fallárið 1981 bar það helst til tíðinda að Leiftursmenn komust í fyrsta sinn í 16-liða úrslit bikarkeppninnar og töpuðu þar 0:1 fyrir efstudeildarliði Þórs Akureyri.

Leiftursmenn unnu D-riðil fjórðu deildar 1982 með fullu húsi stiga, en máttu sætta sig við annað sætið á eftir Val Reyðarfirði í B-riðli úrslitakeppninnar eftir harða baráttu. Ólafsfirðingar sneru aftur reynslunni ríkari og fóru taplausir í gegnum sinn riðil í fjórðu deild sumarið 1983, með markatöluna 34:4. Úrslitakeppnin var sem fyrr tvískipt eftir landshlutum. Leiftursmenn áttu ekki í vandræðum með að sigra Leikni Fáskrúðsfirði og Hvöt Blönduósi. Sætið í 3. deild var tryggt en til að fullkomna tímabilið unnu Ólafsfirðingar sigur á Stjörnunni Garðabæ í úrslitaleik á Akureyrarvelli.

Rokkað upp og niður

breyta

Þrátt fyrir að vera nýliðar, höfðu Leiftursmenn talsverða yfirburði í NA-riðli 3.deildar sumarið 1984. Við tók æsilegt einvígi um meistaratitilinn við Fylki. Leikið var heima og heiman. Leiftur vann 2:1 á Ólafsfirði en Fylkismenn 2:0 í Reykjavík þrátt fyrir að ljúka leik tveimur færri. Leiftur var kominn í næstefstu deild í fyrsta sinn.

Það tók Leiftursmenn of langan tíma að venjast því að leika á efra stigi, því fyrsti sigurleikurinn sumarið 1985 leit ekki dagsins ljós fyrr en í 9. umferð. Það var of seint í rassinn gripið og Leiftur lauk keppni í tíunda og neðsta sæti með tólf stig.

Dvölin í 3. deild varð stutt. Sumarið 1986 unnu Leiftursmenn NA-riðilinn eftir harða keppni við Tindastól sem hafði á að skipa markakóngnum Eyjólfi Sverrissyni. Einn úrslitaleikur var látinn nægja að þessu sinni og unnu Leiftursmenn 3:2 sigur á ÍR-ingum á Akureyri.

Þótt Leiftursmenn kæmu mun sterkari til leiks sumarið 1987 en tveimur árum fyrr óraði fæsta fyrir velgengninni þá um sumarið. Bræðurnir Steinar og Óskar Ingimundarsynir voru báðir iðnir við kolann og urðu markahæstir með sjö mörk hvor. Deildin var með ólíkindum jöfn, þannig voru aðeins fjögur stig á milli efsta liðs og þess sjöunda þegar þrjár umferðir voru eftir. Í lokaumferðinni mættu Leiftursmenn Þrótturum á Valbjarnarvelli, þar sem Þróttarar þurftu sigur til að eiga von um fyrstu deildar sæti en gestunum dugði jafntefli. Leiftursmenn gerðu betur og unnu 2:1. Leiftursliðið var komið í hóp hinna bestu einungis fimm árum eftir að hafa leikið í neðstu deild. Vegna þessa afreks útnefndi Víðir Sigurðsson, ritstjóri bókaflokksins Íslensk knattspyrna Leiftur sem lið ársins 1987. Sama ár veittu Leiftursmenn Frömurum harða keppni í fjórðungsúrslitum bikarkeppninnar, en töpuðu að lokum 1:3 á heimavelli að viðstöddum 600 áhorfendum.

Eitt ár í sólinni

breyta

Fáir höfðu nokkra trú á Leiftursliðinu í efsstu deild sumarið 1988. Raunin varð sú að Norðurlandsliðin Leiftur og Völsungur fóru lóðbeint niður, með níu stig hvort lið - helminginn af því sem þriðja neðsta liðið endaði með. Leiftursliðið varðist vel og fékk ekki nema 26 mörk á sig, minna en fimm önnur lið í deildinni en skoraði fæst allra - aðeins tólf.

Litlu mátti muna að Ólafsfirðingar upplifðu bikarævintýri en Leiftur tapaði 0:1 Keflavík á Ólafsfjarðarvelli í undanúrslitum bikarkeppninnar eftir hörkuleik.

Aftur á uppleið

breyta

Bræðurnir Steinar og Óskar Ingimundarsynir hurfu á braut fyrir leiktíðina 1989. Leiftursliðið fór illa af stað og endaði að lokum í sjöunda sæti, með langfæst mörk allra liða skoruð, fimmtán talsins, en fengu hins vegar ekki nema átján mörk á sig. Árið eftir féllu nágrannaliðin Leiftur og KS niður í 3. deild eftir harða baráttu við Tindastól og Grindavík.

Dvölin í 3. deild var ekki nema eitt ár. Leiftursmenn unnu deildina með allnokkrum yfirburðum undir stjórn Aðalsteins Aðalsteinssoanr og varð framherjinn Þorlákur Árnason markakóngur með 20 mörk.

Sumarið 1992 hafnaði Leiftur í fjórða sæti í næstefstu deild. Staðan í töflunni sagði þó ekki alla söguna því Keflvíkingar voru með heilum tólf stigum meira í öðru sætinu. Þjálfari Leiftursliðsins þetta ár var Marteinn Geirsson sem komið hafði Víðismönnum í efstu deild nokkrum árum áður.

Marteinn var aftur við stjórnvölinn árið 1993 þar sem Leiftur og Stjarnan háðu æsilegt einvígi um annað sætið á eftir Breiðabliki. Leiftursliðið, rækilega styrkt af ungum leikmönnum úr félögum frá Akureyri og að sunnan, endaði stiginu á eftir Stjörnunni og tveimur á eftir Blikum. Í bikarkeppninni féllu Ólafsfirðingar úr keppni í fjórðungsúrslitum í Keflavík, 4:2 eftir að hafa komist 0:2 yfir í leik þar sem ýmis vafaatriði féllu heimamönnum í vil.

Marteinn Geirsson lét af störfum eftir tímabilið 1993 til að taka við stjórnartaumunum hjá Fram. Í hans stað kom Óskar Ingimundarson. Grindavík, Leiftur og Fylkir bitust um sætin tvö í efstu deild. Í lokaumferðinni gerðu Grindavík og Leiftur markalaust jafntefli sem tryggði fyrrnefnda liðinu meistaratitilinn en Ólafsfirðingum annað sætið. Athygli vakti að einu tveir tapleikir leiftursmanna um sumarið voru gegn botnliðinu Þrótti Neskaupsstað, sem reyndust líka einu sigrar Austfjarðaliðsins.

Synt með stórfiskunum

breyta

Leiftursmönnum var spáð sjöunda sæti í 1. deild sumarið 1995. Yfirburðir Skagamanna voru algjörir. Leiftur átti veika von um að hreppa þriðja sætið og komast þannig í Evrópukeppni en tapaði tveimur síðustu leikjunum og mátti sætta sig við fimmta sæti. Ljóst var að aðstandendur liðsins stefndu enn hærra og að móti loknu bættu Ólafsfirðingar við sig sterkum leikmönnum.

Viðbæturnar skiluðu svo sannarlega sínu og sumarið 1996 hafnaði Leiftur í þriðja sæti, talsvert þó á eftir KR-ingum í sætinu fyrir ofan. Þetta þótti talsvert afrek og var Gunnar Oddsson, fyrirliði liðsins, valinn leikmaður Íslandsmótsins. Þriðja sætið tryggði Ólafsfirðingum einnig keppnisrétt í hinni svokölluðu Intertoto-keppni árið eftir.

Leiftur í Evrópukeppni

breyta

Kristinn Björnsson tók við þjálfun Leiftursliðsins fyrir sumarið 1997. Miklar mannabreytingar urðu milli ára og vakti virkni Ólafsfirðinga á leikmannamarkaðnum talsverða athygli. Gáfu gárungar liðinu viðurnefnið Keyptur vegna fjölda aðkomumanna í leikmannahópnum. Ekki leið þó á löngu uns slík liðsöfnun varð alvanaleg hjá íslenskum knattspyrnuliðum.

Þátttakan í Intertoto-keppninni tók sinn toll og um miðbik mótsins söfnuðust upp frestaðir leikir vegna þessa. Undir lokin sóttu Ólafsfirðingar hins vegar í sig veðrið og nældu í þriðja sætið með sigri á nýkrýndum Íslandsmeisturum ÍBV í lokaleiknum. Í annað sinn í sögunni máttu Leiftursmenn sætta sig við 1:0 ósigur gegn Keflvíkingum í undanúrslitum bikarsins, að þessu sinni eftir sigurmark í undir lok framlengingar.

Hápunktur leikársins var þó þátttakan í Intertoto. Keppnin hófst í seinni hluta júní og var því utan keppnistímabils flestra keppnisliðanna af meginlandinu. Leikin var einföld umferð í fimm liða riðli. Byrjað var með látum þegar þýska stórliðið Hamburger SV mætti til Ólafsfjarðar. Mikill áhugi var á leiknum og um 1.700 áhorfendur mættu á Ólafsfjarðarvöll, mun fleiri en heildaríbúafjöldi bæjarins. Gestirnir unnu 1:2, en Rastislav Lazorik minnkaði muninn fyrir Leiftur undir lokin. Lazorik skoraði svo fyrsta mark Ólafsfirðinga í afar óvæntum 3:4 útisigri á Odense Boldklub í næstu umferð.

Leiftursmenn fóru illa að ráði sínu á heimavelli gegn FBK Kaunas frá Litháen og töpuðu 2:3 eftir að hafa fengið á sig þrjú slysaleg mörk á tíu mínútna kafla í fyrri hálfleik. Ekki mættu nema 200 manns á leikinn gegn Kaunas á Ólafsfjarðarvelli. Ólíku var saman að jafna viku síðar þegar 10 þúsund manns sáu tyrkneska liðið Samsunspor vinna auðveldan 3:0 sigur á Leiftursmönnum sem sköpuðu sér engin færi. Leiftursmenn enduðu því í fjórða og næstsíðasta sæti riðilsins en frammistaða þeirra á Íslandsmótinu þýddi að liðið myndi snúa aftur til leiks í sömu keppni að ári.

Bikarúrslit

breyta
 
Páll Guðlaugsson hafði mikla reynslu úr færeyska boltanum og stýrði landsliði Færeyja um tíma.

Enn á ný varð mikil endurnýjun í leikmannahópi Leifturs fyrir leiktíðina 1998. Ellefu nýjir leikmenn komu til liðsins og álíka margir hurfu á braut. Páll Guðlaugsson tók við þjálfun liðsins en hann hafði mikla reynslu af þjálfun í Færeyjum. Hann tók með sér færeyska landsliðsmarkvörðinn Jens Martin Knudsen og framherjann Uni Arge. Urðu erlendir leikmenn áberandi í liðum Leifturs á næstu árum, m.a. vegna tengsla Páls á leikmannamarkaðnum.

Ólafsfirðingar komust á topp deildarinnar í sólarhring í byrjun fimmtu umferðar en soguðust fljótlega niður í miðja deild, enduðu í sjötta sæti og komu hvorki við sögu í topp- né botnbaráttunni. Intertoto-keppnin var með öðru sniði en árið áður. Leiftur tók ekki þátt í riðlakeppni en lék heima og að heiman gegn liðin Vorskia Poltava frá Úkraínu. Leiftursemnn unnu heimaleikinn 1:0 eftir að hafa leikið manni færri nær allan seinni hálfleik. Grátleg mistök urðu þó til þess að ónýta sigurinn, þar sem Leiftursmenn höfðu fyllt rangt út leikskýrslu og taldist leikurinn því tapaður 0:3. Staðan var því orðin vonlaus fyrir leikinn ytra. Honum lauk með 3:0 sigri Úkraínumanna.

Hápunktur leikársins var þó vafalítið bikarkeppni KSÍ. Ólafsfirðingar þurftu ekki að sigra nema eitt efstudeildarlið á leið sinni í úrslitin, Grindvíkinga 0:2 á útivelli í undanúrsltium. Meira en 4.600 áhorfendur mættu á úrslitaleik tveggja landsbyggðaliða: Leifturs og ÍBV. Eyjamenn höfðu tapað í úrslitaleiknum tvö ár í röð en Ólafsfirðingar höfðu enga reynslu á þessum vettvangi. Á 36. mínútu var dæmd vítaspyrna á Pál Guðmundsson fyrir að verja með hendi á marklínu. Páli var vísað útaf og eftir að skorað var úr vítinu voru Leiftursmenn komnir undir og manninum færri. Lokatölur urðu 2:0 fyrir ÍBV en leikurinn fékk þó þær umsagnir að hafa verið einhver skemmtilegasti bikarúrslitaleikur í áraraðir. Uni Arge varð markahæstur í bikarkeppninni þetta árið með sex mörk.

Efsta deildin kvödd

breyta

Leiftur fékk einu stigi meira í deildinni 1999 en árið fyrr en það dugði þó í þriðja sæti. Athygli vakti að fyrir mótið sótti Páll Guðlaugsson þrjá brasilíska leikmenn til félagsins en Suður-ameríkubúar máttu heita óþekktir í deildinni.

Stærstu leikir sumarsins hjá Leiftri voru tvímælalaust viðureignir við belgíska stórliðið Anderlecht í UEFA-bikarnum, en með liðinu lék hinn kunni markahrókur Jan Köller. Með réttu hefðu Leiftursmenn átt að keppa í Evrópukeppni bikarhafa en hún var sameinuð UEFA-bikarnum þetta árið. Belgarnir reyndust miklu sterkari og unnu heimaleik sinn 6:1. Munurinn var litlu minni í seinni leiknum, 0:3, sem fram fór á Akureyri að viðstöddum 1.300 áhorfendum en Ólafsfjarðarvöllur taldist ekki uppfylla skilyrði fyrir keppnina.

Jens Martin Knudsen tók við stjórn Leifturs fyrir átökin sumarið 2000. Búist var við erfiðri baráttu og Leiftursmönnum spáð þriðja neðsta sæti í spá forráðamanna liðanna. Ólafsfirðingar lentu snemma á botninum og sátu þar nær allan tímann og óhagstæð úrslit í öðrum leikjum gerðu það að verkum að liðið var fallið fyrir lokaumferðina. Ljósið í myrkrinu þetta sumarið var góð frammistaða í Intertoto-keppninni þar sem Leiftur gerði sér lítið fyrir og sló út Luzern frá Sviss á útivallarmörkum eftir 2:2 og 4:4 jafntefli, þar sem Örlygur Helgason jafnaði á lokamínútunni ytra. Við tóku tveir leikir gegn Sedan frá Frakklandi sem báðir töpuðust.

Basl og samkrull

breyta

Páll Guðlaugsson tók aftur við stjórntaumunum árið 2001. Næstefsta deildin var sannkölluð Norðurlandsdeild þetta sumarið með sex af tíu liðum frá því landsvæði. Leiftur endaði í sjötta sæti, stigi ofar en nágrannarnir frá Dalvík. Kostnaðurinn við rekstur deildarinnar var orðinn sligandi. Niðurstaðan varð sú að sameina liðin tvö. Haustið 2001 lauk því rúmlega þriggja áratuga sögu Leiftursmanna sem sjálfstæðs liðs á Íslandsmótinu í knattspyrnu.

Hið sameinaða lið Leiftur/Dalvík lék heimaleiki sína á þremur völlum: Ólafsfjarðarvelli, Dalvíkurvelli og Árskógsstrandarvelli sumarið 2002. Árangurinn varð undir væntingum. Leiftur/Dalvík nældi í sitt fimmtánda stig í fjórtándu umferð. Í kjölfarið tapaði það þremur af fjórum síðustu leikjunum og hélt sér naumlega í deildinni. Í bikarkeppninni sló liðið Valsmenn úr leik og stóðu því næst rækilega uppi í hárinu á Eyjamönnum í fjórðungsúrslitum.

Leiftur/Dalvík sá ekki til sólar sumarið 2003. Liðið missti marga leikmenn og náði ekki að byggja upp sterka liðsheild í staðinn. Botnsætið varð útkoman og Ólafsfirðingar því komnir í þriðju efstu deild í fyrsta sinn í langan tíma.

Hið sameinaða lið endaði fyrir neðan miðja deild sumarið 2004 eftir slaka byrjun. Ekki tók betra við á árinu 2005. Leiftur/Dalvík lenti fljótlega á botninum og tókst ekki að vinna átta leiki í röð. Athygli vakti þó að af einungis þremur sigurleikjum sumarsins voru tveir á útivelli og báðir með fjögurra marka mun. Einungis fimm árum eftir að Ólafsfjörður átti lið í efstu deild blasti fjórða efsta deildin við.

Nýtt samstarf

breyta

Það kom reyndar ekki til þess að Ólafsfirðingar þyrftu að leika í neðstu deild sumarið 2006. Leiftur og Dalvík ákváðu að slíta samstarfi sínu. Knattspyrnufélag Siglufjarðar hafði kolfallið úr næstefstu deild sumarið 2005 og ákváðu Leiftur og KS að taka höndum saman. Slík sameining var orðin raunhæfur kostur í ljósi þess að vinna við Héðinsfjarðargöng var í fullum gangi og farið að ræða um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Frá 2006 til 2010 gekk hið sameinaða lið undir nafninu KS/Leiftur en það ár var Knattspyrnufélag Fjallabyggðar stofnað og er hefð fyrir að miða deildarsögu KF við árið 2006.

Skammlífur kvennaflokkur

breyta

Leiftur tefldi í fyrsta sinn fram kvennaliði á Íslandsmóti sumarið 1991. Við ramman reip var að draga í töpuðust allir leikirnir sex og flestir með talsverðum mun. Næstu tvö sumur mátti Ólafsfjarðarliðið aftur sætta sig við að tapa öllum sínum leikjum. sumarið 1994 náði liðið tveimur jafnteflum og sló Aftureldingu út úr bikarnum. Í næstu umferð komu Valsstúlkur norður og unnu 0:17.

Fyrsti deildarsigurinn leit dagsins ljós sumarið 1995, á móti Knattspyrnufélagi Siglufjarðar. Leiftursliðið var þá undir stjórn Sverris Sverrissonar leikmanns karlaliðsins. Liðsfélagi hans, Gunnar Már Másson tók við liðinu árið eftir. Leiftursstúlkur hlutu þá níu stig í átta leikjum og unnu m.a. 8:1 sigur á Tindastóli. Sumarið 1997 voru Ólafsfirðingar á svipuðu róli. Eftir það var ákveðið að tefla fram sameiginlegu liði með Dalvíkingum í kvennaflokki.

Tilvísanir

breyta
  1. „Morgunblaðið 6. desember 1991“.