Spandau er fjórði stærsti borgarhluti Berlínar með tæpa 92 km² og er jafnframt sá vestasti. Þar búa 230 þúsund manns (31. desember 2014) og er hann því þriðji fámennasti borgarhluti Berlínar. Spandau var eigin borg allt til 1920, er hún var innlimuð Berlín.

Lega Spandau í Berlín

Spandau er vestasti borgarhluti Berlínar. Hann afmarkast af þremur öðrum borgarhlutum. Fyrir norðaustan er Reinickendorf, fyrir austan er Charlottendorf-Wilmersdorf og fyrir suðaustan er Steglitz-Zehlendorf. Auk þess er sambandsríkið Brandenborg meðfram allri vesturhlið Spandau. Meðfram landamerkjum Spandau og Brandenborgar lá Berlínarmúrinn fyrrum.

Lýsing

breyta

Spandau er nokkuð ílangur borgarhluti og liggur í norður-suður stefnu. Áin Havel rennur frá norðri til suðurs í gegnum gjörvallt Spandau. Norðarlega er samflæði Spree og Havel, en þar var borgin Spandau upphaflega stofnuð. Fjölmörg stöðuvötn eru í borgarhlutanum og nær helmingur svæðisins er þakið skógi. Alls eru níu hverfi í Spandau: Hakenfelde, Falkenhagener Feld, Spandau (miðborg), Haselhorst, Siemensstadt, Staaken, Wilhelmstadt, Gatow og Kladow.

Orðsifjar

breyta

Spandau myndaðist í kringum borgarvirki sem kallaðist Spandow. Nafnið er slavneskt að uppruna. 1878 var rithættinum breytt úr Spandow í Spandau.

Saga Spandau

breyta
 
Frímerki af Spandau. Borgin er til vinstri, til hægri er virkið Zitadelle.

Borgin Spandau

breyta

Albrecht der Bär (Albrecht björn) úr Askanier-ættinni hóf landnám á svæði slava og stofnaði markgreifadæmið Brandenborg 1157. Í framhaldi af því reisti hann virki, sem seinna kallaðist Spandow. Í kringum virkið myndaðist þýskur bær. Af skjölum má ráða að Spandow hafi fengið borgarréttindi í kringum 1232. Árið 1539 tók kjörfurstinn Jóakim II siðaskiptum í Sankti Nikulásarkirkju í miðborg Spandow. Við það urðu siðaskipti í furstadæminu öllu. Með iðnbyltingunni óx Spandow verulega. 1846 fékk borgin járnbrautartengingu á línunni Hamborg - Berlín. 1878 var ritháttur borgarinnar breytt úr Spandow í Spandau. 1897 fluttu Siemens-verksmiðjurnar starfsemi sína til Spandau. Þær framleiddu til að byrja með fjarskiptatæki og alls konar raftæki. Í kjölfarið myndaðist hverfið Siemensstadt sem vinnubúðir fyrir starfsfólk, en verksmiðjurnar voru langfjölmennasti vinnustaður Spandau. Árið 2008 störfuðu 430 þúsund manns í fyrirtækinu í 190 löndum. Í heimstyrjöldinni fyrri risu stórar vopnaverksmiðjur í Spandau.

Spandau sem hluti Berlínar

breyta

Árið 1920 var gerð viðamikil breyting á skipulagi sveitarfélaga í kringum Berlín. Mýmargir bæir og nokkrar borgir voru innlimaðar í stórborgina. Spandau var ein borganna sem var innlimuð og varð nú að borgarhluta Berlínar. Í heimstyrjöldinni síðari skemmdist Spandau minna í loftárásum en mörg önnur borgarhverfi, þar sem það var í útjaðri borgarinnar. Því eru nokkur hverfi þar enn eins og þau voru fyrr á öldum, svo sem Kolk. Við uppgjöf Þjóðverja í stríðinu varð Spandau hluti af breska hernámssvæðinu. Bretar starfræktu stríðsglæpafangelsi við Wilhelmstrasse, þar sem sjö stríðsglæpamenn úr Nürnberg-réttarhöldunum voru vistaðir. 1966 var Rudolf Hess eini fanginn eftir í fangelsinu. Hann lést 1987 og var fangelsið þá rifið. 1990 var Berlínarmúrinn rifinn sem aðskildi Spandau frá Brandenborg.

Skjaldarmerki

breyta
 
Skjaldarmerki Spandau

Skjaldarmerki Spandau sýnir tvo rauða virkisturna, sem tákna borgina Spandau. Vatnið á milli þeirra er áin Havel. Skjöldurinn með erninum fyrir miðju er merki furstadæmisins Brandenborgar, sem Spandau tilheyrði áður fyrr. Fyrir ofan er hjálmur frá Brandenborg. Efri hlutinn (turnarnir og bjarnarmerkið) tákna Berlín en Spandau var innlimað í Berlín 1920. Neðri hluti merkisins birtist fyrst 1289 en núverandi skjaldarmerki var samþykkt 1957.

Vinabæir

breyta

Spandau viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Áhugaverðir staðir

breyta
 
Virkið Zitadelle er þekktasta bygging Spandau

Þekktasta byggingin í Spandau er virkið Zitadelle. Það er eitt best varðveitta virki Evrópu úr endurreisnartímanum. Það er frá 16. öld. Virkið stóðst áhlaup Svía á 17. öld, en mátti sín lítils gegn Frökkum á 19. öld. Napoleon hertók virkið 1806. Það er safn í dag. Gamla hverfið Kolk skammt frá miðborg Spandau er með íbúðarhúsum frá 18. öld. Sankti Nikulásarkirkjan í göngugötunni er frá 14. öld.

Markvert

breyta

Enska popphljómsveitin Spandau Ballet valdi sér þetta heiti eftir heimsókn til Spandau.

Heimildir

breyta