Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Forsætisráðherra Íslands 2013-2016

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (fæddur í Reykjavík, 12. mars 1975) er núverandi formaður og stofnandi Miðflokksins frá 2017 eftir að hafa yfirgefið Framsóknarflokkinn. Sigmundur var áður formaður Framsóknarflokksins frá 2009 til 2016. Sigmundur var forsætisráðherra Íslands frá 2013 til 2016.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð árið 2016.
Forsætisráðherra Íslands
Í embætti
23. maí 2013 – 7. apríl 2016
ForsetiÓlafur Ragnar Grímsson
ForveriJóhanna Sigurðardóttir
EftirmaðurSigurður Ingi Jóhannsson
Dómsmálaráðherra
Í embætti
26. ágúst 2014 – 4. desember 2014
ForsætisráðherraHann sjálfur
ForveriHanna Birna Kristjánsdóttir (innanríkisráðherra)
EftirmaðurÓlöf Nordal (innanríkisráðherra)
Formaður Miðflokksins
Núverandi
Tók við embætti
24. september 2017
ForveriEmbætti stofnað
Formaður Framsóknarflokksins
Í embætti
18. janúar 2009 – 2. október 2016
ForveriValgerður Sverrisdóttir
EftirmaðurSigurður Ingi Jóhannsson
Alþingismaður
frá til  kjördæmi    þingflokkur
2009 2017  Norðaustur  Framsóknarfl.
2017    Norðaustur  Miðflokkur
Persónulegar upplýsingar
Fæddur12. mars 1975 (1975-03-12) (49 ára)
Reykjavík, Íslandi
StjórnmálaflokkurMiðflokkurinn (2017–)
Framsóknarflokkurinn (2009–2017)
MakiAnna Sigurlaug Pálsdóttir​
Börn1
HáskóliHáskóli Íslands
Wolfson College, Oxford
Cambridge-háskóli
Vefsíðasigmundurdavid.is
Æviágrip á vef Alþingis

Sigmundur hefur oft verið kallaður einn umdeildasti stjórnmálamaður Íslandsögunnar og hefur hann komið nálagt ýmsum hneyklismálum eins og Panamaskjölunum árið 2016 og Klaustursmálinu árið 2018.[1]

Menntun og fyrri störf

Sigmundur Davíð lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1995 og B.S. prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2005.[2] Sigmundur lagði stund á hlutanám í fjölmiðlafræði samhliða háskólanámi.

Þaðan lá leið hans í skiptinám við Plekhanov-háskóla í Moskvu og alþjóðasamskiptum og opinberri stjórnsýslu við stjórnmálafræðideild Kaupmannahafnarháskóla. Einnig lagði hann stund á nám í Oxford-háskóla með áherslu á tengsl hagrænnar þróunar og skipulagsmála. Sigmundur lauk engri gráðu eftir veru sína í erlendum háskólum.[3]

Sigmundur Davíð hlaut Chevening-styrk árið 2004 til náms í Bretlandi. Átta Íslendingar hlutu styrkinn.[4] Styrkurinn er veittur árlega af breska utanríkisráðuneytinu til styrkþega utan ESB og Bandaríkjanna. Skólaárið 2015–2016 munu yfir 600 manns hljóta styrkinn.[5]

Sigmundur Davíð starfaði sem blaðamaður og sem fréttamaður og þáttastjórnandi á RÚV með námi 2000–2007. Þá var hann forseti Nordiska Ekonomie Studerander Union 2000–2002 og fulltrúi í skipulagsráði Reykjavíkurborgar 2008–2010.[6]

Eftir fall bankanna tók Sigmundur þátt í stofnun samtakanna In Defence of Iceland sem almennt gengu undir nafninu InDefence og kom fram fyrir hönd samtakanna. Samtökin sem voru óformleg grasrótarsamtök fólks sem átti það helst sameiginlegt að hafa stundað nám í Bretlandi og börðust gegn því að bresk stjórnvöld hefðu beitt hryðjuverkalöggjöf landsins gegn Íslendingum vegna bankahrunsins. Í því skyni stóðu samtökin fyrir áróðri á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum, innlendum sem erlendum og stóðu fyrir stærstu undirskriftasöfnun sem fram hafði farið á Íslandi. Afhenti Sigmundur ásamt öðrum félögum í samtökunum 83.000 undirskriftir fulltrúa breska þingsins.[7]

Formennska í Framsóknarflokknum

Í desember 2008 hvöttu nokkrir félagar í Framsóknarflokknum Sigmund til að bjóða sig fram til formennsku í flokknum en Sigmundur var þá ekki skráður í flokkinn. [2] Sigmundur Davíð var kjörinn formaður Framsóknarflokksins á flokksþingi 18. janúar 2009 og tók hann við formennsku af Valgerði Sverrisdóttur. Hann hafði þá aldrei starfað í Framsóknarflokknum og skráði sig í hann tveimur vikum áður en hann bauð sig fram til formennsku.[8]

Sigmundur Davíð hlaut 56% atkvæða í seinni umferð formannskosninganna á 30. flokksþingi framsóknarmanna 40,9% í fyrri umferðinni. Tveir aðrir voru í formlega í framboði.[9] Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2011 var hann endurkjörinn með 92% greiddra atkvæða, en samkvæmt lögum Framsóknarflokksins eru allir flokksmenn í kjöri.

Á flokksþingi Framsóknarflokksins 2016 fékk hann 46,7% atkvæða er hann tapaði fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni, eftirmanni sínum á stóli forsætisráðherra.

Þingstörf

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn á Alþingi fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður 25. apríl 2009.[10] Hann hefur setið í utanríkismálanefnd fyrir Framsóknarflokkinn frá 2009, Íslandsdeild EFTA 2009–2011, Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES 2011–2013, í starfshóp utanríkismálanefndar um Evrópumál og þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins af hálfu Alþingis.

Með helstu baráttuefni Sigmundar Davíðs á stjórnmálaferilnum hans hafa verið Icesavedeilan og skuldamál heimilanna.

Ásamt InDefence-hópnum og fleirum, barðist Sigmundur Davíð gegn því að Icesave-samningarnir yrðu samþykktir.[11] Gagnrýni Sigmundar Davíðs snéri helst að ágöllum á samningunum; að fyrirvarar myndu ekki halda lagalega, greiðslurnar væru í erlendri mynt, vaxtagreiðslur væru svo verulegar að þjóðin myndi vera í ánauð vegna þeirra og að ekki hefðu verið kannaðar aðrar leiðir eins og möguleiki á skuldajöfnun við Breta vegna beitingar hryðjuverkalaga í efnahagshruninu 2008.[12]

Annað baráttumál Sigmundar Davíðs, skuldamál heimilanna, varð eitt helsta kosningamál alþingiskosninganna 2013.[13] Hann hafði ásamt þingflokki framsóknarmanna lagt fram þrjár tillögur um lausn á vandanum á því kjörtímabili sem var að ljúka. 2009–2011 var það hin svokallaða 20% leið[14] og tillaga um samvinnuráð um þjóðarsátt.[15] 2011–2012 átti hann þátt í að leggja fram þingsályktunatillögu um stöðugleika í efnahagsmálum og vefinn www.planb.is.[16]

Fyrsta ráðuneyti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu meirihlutaríkisstjórn eftir Alþingiskosningarnar 2013 og var fyrsti ríkisstjórnarfundurinn haldinn 24. maí 2013.[17] Um mitt sumar vakti það nokkra athygli þegar Sigmundur birti í Morgunblaðinu og á bloggi sínu pistil undir fyrirsögninni „Fyrsti mánuður loftárása“ þar sem hann setti út á það hversu harðri gagnrýni væri beint að núverandi ríkisstjórn sem væri aðeins nýtekin við stjórnartaumunum.[18] Í framhaldi af umdeildri eign eiginkonu Sigmundar í aflandsfélaginu Wintris sagði hann af sér forsætisembættinu 6. apríl 2016 og Sigurðar Ingi Jóhannsson tók við embættinu.[19]

Wintris-málið og afsögn

Þann 3. apríl 2016 átti sér stað stærsti gagnaleki sögunnar, kallaður Panamalekinn eða Panamaskjölin. Í honum léku 2,6 terabæti af gögnum úr einni stærstu lögfræðistofu Panama, Mossack Fonseca.[20] Panamaskjölin opnuðu upp á gátt harðlæstar hirslur aflandsfélaga í skattaskjólum víðs vegar um heiminn. Mossack Fonseca hefur verið ásakað um að hjálpa við peningaþvætti, ólöglega vopnasölu, stórfelld skattsvik og skipulögð glæpastarfsemi.[21] Gífurleg fréttaumfjöllun var um lekann en var sú staðreynd að forsætisráðherra Íslands væri á skrá yfir eigendur skattaskjólsfélaga var, ásamt tengingum Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta við slíka starfsemi, ein helsta ástæða þess að augu flestra fjölmiðla heims beintust að Rússlandi og Íslandi.

Í þeim gögnum kom í ljós að Sigmundur Davíð var helmingseigandi aflandsfélagsins Wintris Inc. frá því í nóvember 2007 og til ársloka 2009.[22] Félagið var stofnað þann 27. nóvember 2007 en félagið var á lista yfir tilbúin aflandsfélög í umsjón Mossack Fonseca í Panama. Félagið er staðsett á eyjunni Tortóla sem er hluti af Bresku Jómfrúareyjunum. Starfsmaður eignastýringar Landsbankans í Lúxemborg óskar eftir að Wintris Inc. sé tekið frá.

Þann 28. nóvember 2007 sendi sami starfsmaður Landsbankans í Lúxemborg fyrirmæli til Panama vegna Wintris og óskaði eftir að prófkúruhafar yrðu tveir, Anna Sigurlaug Pálsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. 50% ættu að vera í eigu Önnu Sigurlaugar og 50% í eigu Sigmundar Davíðs.

Wintris Inc., gerði kröfu upp á tæplega 400 milljónir króna í slitabú Kaupþings og gamla Landsbankans (LBI). Samþykktar kröfur félagsins í slitabú Kaupþings og Landsbankans námu samtals um 260 milljónum króna. Ein lýst krafa félagsins upp á ríflega 134 milljónir í bú Kaupþings var hins vegar hafnað af slitastjórn.[23]

Þann 25. apríl 2009 var Sigmundur Davíð kjörinn á Alþingi Íslendinga. Hann skráði félagið Wintris Inc. ekki í hagsmunaskráningu þingmanna eftir að hann var kjörinn á þing, þrátt fyrir að hafa verið prófkúruhafi á þeim tíma.[24]

Þann 31. desember árið 2009 seldi Sigmundur Davíð eiginkonu sinni, Önnu Sigurlaugu, hlut sinn í Wintris Inc. á einn bandaríkjadollara ($1), degi áður en breytingar á lögum um tekjuskatt taka gildi.[25] Lögin kveða á um að tekjur erlendra fyrirtækja í lágskattaríkjum beri að skattleggja hjá eigendum þeirra.

Í september 2010 tók Anna Sigurlaug yfir framkvæmdastjórn Wintris Inc., en engin gögn eru til um það að prófkúruhafaréttur Sigmundar Davíðs hafi verið afturkallaður.[22]

Viðtal SVT við Sigmund

Þann 11. mars 2016 mætti Sigmundur Davíð í viðtal hjá Sven Bergman, fréttamanni sænsku ríkissjónvarpsstöðvarinnar SVT, í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Þegar Sven spurði Sigmund hvort Sigmundur hefði sjálfur eða haft einhver tengsl við aflandsfélag svaraði Sigmundur neitandi. Sven spurði Sigmund einnig hvað hann gæti sagt sér um aflandsfélagið Wintris. Sigmundur sagðist þá, ef hann myndi rétt, hafa verið stjórnarmeðlimur í fyrirtækinu og að það hafi frá upphafi komið fram á skattskýrslu sinni. Þá skarst í leikinn Jóhannes Kr. Kristjánsson fyrrum fréttamaður fréttamaður Kastljóss og núverandi fréttamaður Reykjavík Media. Hann spurði Sigmund af hverju hann hefði ekki greint frá því að hann væri tengdur aflandsfélaginu Wintris og skráð þau í hagsmunaskrá þingmanna. Sigmundur sagði þá að öll þau atriði sem hagsmunaskráning þingmanna næði yfir hefðu verið gefin upp. Hann neitaði því einnig að hafa selt félagið á $1.[21] Stuttu síður gekk Sigmundur Davíð út úr viðtalinu og reyndu starfsmenn á hans vegum síðar meir að koma í veg fyrir að það færi í birtingu.[26]

Sérstakri útgáfu af fréttaskýringaþættinum Kastljósi var sjónvarpað þann 3. apríl 2016. Þar eru birt gögn um Wintris Inc. og viðtalið við Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra þar sem hann gengur út.

Fyrr um daginn deildi Sigmundur Davíð bloggfærslu á heimasíðu sinni undir yfirskriftinni „Stóra myndin.“ Þar segir Sigmundur Davíð að umfjöllun RÚV hafi „haft meira yfirbragð þess að segja sögu eða hanna atburðarás fremur en að greina frá staðreyndum.“[27]

Fjölmargir íslendingar heimtuðu afsögn Sigmundar í kjölfar umfjöllunar Kastljóss, þar á meðal fyrrverandi forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir.[28]

Þann 5. apríl 2016 steig Sigmundur Davíð til hliðar sem forsætisráðherra á þingflokksfundi Framsóknarflokksins. Hann hélt þó áfram að gegna starfi formanns flokksins. Lagt var til að Sigurður Ingi Jóhannsson tæki við embættinu í stað Sigmundar um óákveðinn tíma.[29] Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson mynduðu síðan nýja ríkistjórn undir forsæti Sigurðar þann daginn eftir, þann 6. apríl.[30]

Afsögn úr Framsóknarflokknum

2. október 2016 var haldið flokksþing Framsóknarflokksins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhansson áttust við í flokksþinginu. Sigurður Ingi hafði betur og hlaut 52,7% atkvæða á meðan Sigmundur hlaut 46,8% atkvæða. Sigmundur var þingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í kjörtímabilinu 2016–2017. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisn var slitið 15. september 2017 ákvað Sigmundur þann 24. september 2017 að hætta í Framsóknarflokknum og stofna sinn eigin flokk sem átti að taka þátt í alþingiskosningunum 2017 sem áttu að fara fram tæpum mánuði síðar, 28. október 2017. Miðflokkurinn, nýji flokkur Sigmundar var stofnaður 15. október 2017, þrettán dögum fyrir kosningar.

Miðflokkurinn

24. september 2017 hætti Sigmundur Davíð í Framsóknarflokknum og hyggðist ætla að stofna sinn eigin flokk sem ætlaði að taka þátt í alþingiskosningunum sama ár. Flokkurinn var stofnaður 15. október 2017, þrettán dögum fyrir kosningar og hét Miðflokkurinn. Flokkurinn birti lista í öllum sex kjördæmunum fyrir kosningar. Flokkurinn hlaut sjö þingsæti í kosningunum og 11,1% atkvæða. Í kjölfar Klaustursmálsins svokallaða sem átti sér stað 20. nóvember 2018 þar sem náðist upptaka af fjórum þingmönnum Miðflokksins og tveimur úr Flokki fólksins tala illa um aðra þingmenn á Alþingi voru Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokki fólksins reknir úr flokknum vegna upptakanna, gengu þeir yfir í Miðflokkinn 23. febrúar 2019 og var flokkurinn þá með níu þingsæti og varð þar með stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn.

Í alþingiskosningunum 2021 birti flokkurinn lista fyrir öll sex kjördæmin og hlaut einungis 5,4% atkvæða og tvö þingsæti. 9. október 2021 eða tveimur vikum eftir kosningar sagði Birgir Þórarinsson þingmaður flokksins sig úr flokknum og gekk yfir í Sjálfstæðisflokkinn svo Miðflokkurinn fékk einungis tvö þingsæti.

Fjölskylda og einkalíf

Sigmundur Davíð ólst upp í Breiðholti en bjó í Washington í Bandaríkjunum milli 1982–1985 meðan faðir hans starfaði fyrir Alþjóðabankann.[31] Foreldrar hans eru Gunnlaugur Sigmundsson framkvæmdastjóri og þingmaður Framsóknarflokksins á árunum 1995–1999, og Sigríður G. Sigurbjörnsdóttir lífeindafræðingur og skrifstofustjóri. Sigmundur er kvæntur Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur og eiga þau eina dóttur.[6]

Vakti það athygli þegar Sigmundur Davíð lýsti því yfir á heimasíðu sinni 2011 að hann væri farinn í megrun og hyggðist borða einungis íslenskan mat.[32] Birti hann þyngdartölu sína á hverjum mánudegi á Facebook síðu sinni.[33]

Tilvísanir

  1. Kjarnans, Ritstjórn (8. apríl 2019). „Virðist geta staðið flest allt af sér -“. Mannlíf.is. Sótt 31. júlí 2024.
  2. Háskóli Íslands. „Lokaritgerðir 2005“. Sótt 28. maí 2014.
  3. „Sigmundur Davíð Gunnlaugsson“. Sótt 29. maí 2014.
  4. Átta hlutu styrk til háskólanáms í Bretlandi, 23. ágúst 2004. Morgunblaðið
  5. „About us“. Sótt 29. maí 2014.
  6. 6,0 6,1 Æviágrip: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Alþingi
  7. „Fréttablaðið – 314. tölublað (16.11.2008)“.
  8. Sigmundur Davíð býður sig fram til formanns Framsóknar­flokksins AMX
  9. Sigmundur Davíð kjörinn formaður Framsóknar. Uppákoma: Höskuldur áður lýstur formaður fyrir mistök Geymt 18 apríl 2014 í Wayback Machine Pressan
    Sigmundur Davíð býður sig fram í Reykjavík Morgunblaðið
  10. Sigmundur Davíð býður sig fram til formanns Morgunblaðið
  11. Sigurður Már Jónsson, 2011, Icesavesamningarnir – afleikur aldarinnar? Almenna Bókafélagið, Reykjavík, bls 214.
  12. Icesave-atriðin 10
  13. "Ég útiloka ekkert": mbl.is
  14. Þingsályktunartillaga: Afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja Alþingi
  15. Þingsáætlunartillaga: Samvinnuráð um þjóðarsátt Alþingi
  16. Þingsáætlunartillaga: Stöðugleiki í efnahagsmálum Alþingi
  17. Fyrsti ríkisstjórnarfundur ráðuneytis Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar haldinn í dag
  18. Fyrsti mánuður loftárása Geymt 1 september 2013 í Wayback Machine, 25. júní 2013
  19. RÚV. „https://ruv.is/frett/kosningar-i-haust-lilja-verdur-radherra“. Sótt 7. apríl 2016.
  20. [1] Süddeutsche Zeitung.
  21. 21,0 21,1 RÚV. „Kastljós 3.3.2016“. Sótt 4. apríl 2016.
  22. 22,0 22,1 RÚV. „Tímalínan í Wintris-málinu“. Sótt 4. apríl 2016.
  23. DV. „Wintris fær um 46 milljónir úr slitabúum Kaupþings og Landsbankans“. Sótt 4. apríl 2016.
  24. Alþingi. „Hagsmunaskrá“. Sótt 4. apríl 2016.
  25. Alþingi. „Lög um tekjuskatt“. Sótt 4. apríl 2016.
  26. Stundin. „Forsætisráðherra gekk út úr viðtali og reyndi að stöðva birtingu þess“. Sótt 4. apríl 2016.
  27. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. „Stóra myndin“. Sótt 4. apríl 2016.
  28. Vísir. „„Forsætisráðherra verður strax að segja af sér og ríkisstjórnin öll að fara frá". Sótt 4. apríl 2016.
  29. RÚV. „Sigurður Ingi verði nýr forsætisráðherra“. Sótt 5. apríl 2016.
  30. RÚV. „https://ruv.is/frett/kosningar-i-haust-lilja-verdur-radherra“. Sótt 6. apríl 2016.
  31. Víkingur og vaskur til verka Morgunblaðið
  32. Íslenski kúrinn Geymt 6 janúar 2013 í Wayback Machine Bloggsíða Sigmundar Davíðs
  33. Megrunarkúr formanns Framsóknarflokksins: 2 kíló fuku fyrstu vikuna – Fleiri undur verða upplýst á næstunni Geymt 24 júní 2016 í Wayback Machine Pressan

Tenglar


Fyrirrennari:
Jóhanna Sigurðardóttir
Forsætisráðherra
(23. maí 20137. apríl 2016)
Eftirmaður:
Sigurður Ingi Jóhannsson
Fyrirrennari:
Valgerður Sverrisdóttir
Formaður Framsóknarflokksins
(18. janúar 20092. október 2016)
Eftirmaður:
Sigurður Ingi Jóhannsson