Gunnlaugur Sigmundsson

Gunnlaugur Magnús Sigmundsson (oftast skrifaður Gunnlaugur M. Sigmundsson) (f. 30. júní 1948) er fyrrverandi alþingismaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forstjóri Kögunar. Hann var um tíma stjórnarformaður Icelandair. [1] Gunnlaugur er faðir Sigmundar Davíðs, alþingismanns og formanns Miðflokksins og Nönnu Margrétar Gunnlaugsdóttir þingmanns.

Gunnlaugur er fæddur í Reykjavík og ólst upp í Vesturbænum. Hann lauk viðskiptafræðiprófi frá HÍ 1974 og lagði stund á nám í opinberri fjármálastjórnun hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í Washington árið 1976. Starfaði í fjármálaráðuneytinu frá 1971 til 1982. Árin 1982-1985 var hann aðstoðarmaður framkvæmdastjóra hjá Alþjóðabankanum. Árin 1985-1986 var hann forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins og vann í kjölfarið að stofnun og rekstri Þróunarfélags Íslands þar til hann varð forstjóri Kögunar. Gunnlaugur var kjörinn á þing 1995 og sat í eitt kjörtímabil en sneri sér þá alfarið að Kögun.[2]

Í dálknum Svipmynd í viðskiptablaði Morgunblaðsins þann 7. október 2004 er dregin upp eftirfarandi mynd af Gunnlaugi:

„Samferðamenn Gunnlaugs lýsa honum sem harðduglegum, afskaplega framtakssömum manni. Velgengni í rekstri hafi hann skapað sér sjálfur og hann vilji að hlutirnir gangi hratt og vel fyrir sig. Gunnlaugur er sagður víkingur og vaskur til verka, hann er sagður mynda sér sjálfstæðar skoðanir og ekki liggja á þeim, hann sé alls ekki "já-maður" og sumir segja hann skapmikinn en þægilegan í samskiptum, með mikinn húmor og sýni ekki hörku umfram eðlilega málafylgju. Þá er hann sagður ákaflega metnaðarfullur og vilji ávallt vera fremstur meðal jafningja.“[3]

Gunnlaugur ásamt Sigríði Sigurbjörnsdóttur, konu sinni, stefndi Teiti Atlasyni bloggara í júní 2011 fyrir meiðyrði[4]. Var annari kröfunni vísað frá vegna formgalla en Teitur sýknaður af hinni í Héraðsdómi 19. september 2012 og Gunnlaugi gert að greiða Teiti 1.5 miljónir í málskostnað.[5][6] Gunnlaugur áfrýjaði kröfunni sem vísað var frá vegna formgalla til Hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu og Héraðsdómur föstudaginn. 12. október 2012. Gunnlaugi og Sigríði var einnig gert að greiða Teiti 300 þúsund krónur í kærumálskostnað.[7] Eftir úrskurð Hæstaréttar sendi Gunnlaugur frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttaði að Teitur Atlason hefði upplýst fyrir héraðsdómi að ástæða þess að hann réðst að þeim með staðlausum skrifum sínum hefði verið sú, að hann hafi látið ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknar fara í taugarnar á sér. Ekki ætti að líða það að svo væri gengið fram gegn ættingjum stjórnmálamanna og ætluðu þau hjónin að halda áfram að berjast gegn slíkri þróun.[8]

Tilvísanir

breyta
  1. Flugið verður að vera arðbært; grein í Fréttablaðinu 2008
  2. „Svipmynd“. Morgunblaðið, 7. október, 2004. Sótt 5. september 2012.
  3. „Svipmynd“. Morgunblaðið, 7. október, 2004. Sótt 5. september 2012.
  4. „Stefnir Teiti Atlasyni fyrir meiðyrði“; grein af Vísi.is 2011
  5. „Myndlíkingin þótti ekki refsiverð aðdróttun“; grein af visir.is 19. september 2012
  6. „Teitur sýknaður - Gunnlaugi gert að greiða honum 1,5 milljónir“; grein af Vísi.is 19. september 2012
  7. „Hæstiréttur vísaði máli Gunnlaugs frá“; grein af ruv.is 14. október 2012
  8. „Máli Gunnlaugs vísað frá Hæstarétti“; grein af visir.is 14. október 2012

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.