InDefence
In Defence of Iceland (InDefence) hópurinn var stofnaður í október 2008 af nokkrum Íslendingum sem ofbauð framferði breskra stjórnvalda gegn Íslandi við bankahrunið 2008. InDefence hópurinn hefur að markmiði að beita sér fyrir upplýsingaöflun, málefnalegri umræðu og ekki síst að kynna og verja hagsmuni Íslands bæði innanlands og erlendis. InDefence hópurinn er þverpólitískur og meðlimir hans hafa mjög mismunandi skoðanir á stjórnmálum almennt. Öll vinna meðlima InDefence er unnin í sjálfboðavinnu[1].
Icelanders are NOT terrorists
breytaFyrsta verkefni InDefence hópsins var að standa að undirskriftasöfnun til að mótmæla beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum ("Icelanders are NOT terrorists"). Rúmlega 83.000 einstaklingar (þar af rúmlega 75.000 íslendingar) skrifuðu undir svoljóðandi yfirlýsingu vegna þessa sem afhent var breska þinginu þann 17. mars 2009:
Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn
"Miðvikudaginn 8. október beitti breska ríkisstjórnin hryðjuverkavarnalögum gegn Íslendingum. Þessi afdrifaríka aðför að íslensku samfélagi kom okkur gersamlega í opna skjöldu og breytti erfiðri stöðu í efnahagslegt hrun. Við Íslendingar höfum lengi talið okkur vera góða vini Breta. Þjóðir okkar eiga langa sögu viðskipta, auk þess að vera nánir bandamenn í NATO og Evrópu.
Með hverri klukkustund sem líður valda aðgerðir breskra stjórnvalda hagsmunum Íslendinga óbætanlegum skaða um víða veröld. Þetta fellir verðmæti eigna sem annars væri hægt að nýta til endurgreiðslu til eigenda sparifjárreikninga í íslenskum bönkum bæði í Bretlandi og á Íslandi. Aðgerðir breskra stjórnvalda stefna framtíð íslenskra fyrirtækja í hættu og einnig hag allrar þjóðarinnar, auk þeirra rúmlega 100.000 starfsmanna breskra fyrirtækja sem tengjast íslenskum aðilum. Í þessu sambandi viljum við ítreka að íslensk stjórnvöld hafa aldrei staðhæft annað en að þau hyggist standa við skuldbindingar sínar, þvert á fullyrðingar Alistair Darling fjármálaráðherra og Gordon Brown forsætisráðherra Breta.
Í þessari tvísýnu stöðu er nauðsynlegt að við vinnum öll saman. Við getum ekki látið leiðtoga, eins og Gordon Brown, spilla samskiptum þjóðanna til langs tíma vegna skammtíma pólitísks ávinnings. Brown hefði aldrei brugðist við hruni banka hjá stærri og voldugri þjóð með því að brennimerkja þegna hennar sem hryðjuverkamenn og glæpamenn.
Við Íslendingar förum þess á leit við ykkur, breska vini okkar, að þið standið með okkur í þeirri viðleitni að binda enda á diplómatískar erjur milli ríkisstjórna okkar. Það er von okkar að með því getum við komið í veg fyrir frekara efnahagslegt tjón í löndum okkar og hafið uppbyggingu og bætt það tjón sem orðið hefur.[2]
Icesave samningar (Icesave 1)
breytaInDefence hópurinn hefur barist gegn Icesave samningum síðan þeir voru fyrst undirritaður í júní 2009. Strax í byrjun júní sendi InDefence hópurinn frá sér fréttatilkynningu með fjölda spurninga sem snertu grundvallaratirði Icesave samninganna [3] og þá gífurlegu áhættu sem Ísland tók á sig samkvæmt þeim. Meðal þess sem kallað var eftir var 15 ára greiðsluplan sem sýndi fram á að Íslendingar gætu greitt Icesave ábyrgðina samkvæmt samningnum.
Málflutningi sínum til stuðnings benti hópurinn á fjölmargar skýrslur, umsagnir og álit erlendra og innlendra sérfræðinga sem InDefence hópurinn taldi staðfesta á ótvíræðan hátt málflutning sinn í Icesvae málinu. Hópurinn tók ríkan þátt í opinberri umræðu um Icesave málið og lagði áherslu á að afla og dreifa upplýsingum um Icesave samningana til almennings og Alþingismanna. Í júlí 2009 veitti hópurinn m.a. fjárlaganefnd Alþingis ítarlega umsögn um Icesave samningana.[4]
Fyrirvaraleiðin
breytaInDefence hópurinn studdi í ljósi aðstæðna hina svokölluðu fyrirvaraleið Alþingis sem fól í sér að lög um ríkisábyrgð á Icesave samningunum voru samþykkt á Alþingi með fyrirvörum sem færðu samningana nær markmiðum Brussel viðmiðanna. Skyldu lögin ekki taka gildi nema Bretar og Hollendingar samþykktu fyrirvarana.[5], sem miðuðu að því að færa núverandi samninga nær Brussel viðmiðunum. Hópurinn lýsti því yfir að þeir fyrirvarar sem samþykktir voru á endanum gengju ekki nægilega langt og í raun þurfi að semja upp á nýtt í ljósi nýrra aðstæðna. Samkvæmt fréttatilkynningu var það álit hópsins að skynsamlegra væri að Alþingi Íslendinga samþykkti þingsályktunartillögu þar sem fram kæmi að lánasamningarnir sem undirritaðir voru þann 5. júní væru ekki í samræmi við þau samningsmarkmið sem Alþingi samþykkti 5. desember 2008 og byggð voru á Brussel viðmiðunum sem samþykkt voru af öllum aðilum málsins í nóvember sama ár. Hópurinn taldi augljóst að forsendur endurskoðunarákvæðis lánasamningana sjálfra væru þegar komnar fram þar sem ljóst var að greiðslugeta Íslands hafði versnað til muna frá því 15. nóvember 2008. Á grundvelli þessa væri þvi full ástæða til að Alþingi krefðist endurupptöku lánasamninganna sjálfra.[6]
Icesave viðaukasamningar (Icesave 2)
breytaÞegar ljóst varð að ríkisstjórn Íslands hafði undirritað viðaukasamninga við Icesave samningana (Icesave 2) hóf InDefence hópurinn baráttu gegn hinum nýju samningum sem Alþingi samþykkti 30. desember 2009.[7]
Hópurinn birti meðal annars ítarlegan samanburð[8] á innihaldi og ákvæðum fyrri Icesave samnings og viðaukasamningsins (Icesave 1 og 2) og hélt því fram að í viðaukasamningunum væri "fyrirvörum Alþingis kippt úr sambandi eða þeir afnumdir með öllu." Ennfremur sagði hópurinn að viðaukasamningurinn og tilheyrandi breytingar á lögum nr. 96/2009 væru "brunaútsala á fyrirvörum Alþingis í Icesave málinu, fyrirvörum sem settir voru til þess að Icesave samningar yrðu í samræmi við Brussel-viðmiðin."[9]
Meðal annarra sem hópurinn hélt fram að styddi málflutning sinn varðandi viðaukasamningana var ítarlegt lögfræðiálit bresku lögmannsstofunnar Mischon de Reya [10] sem barst Alþingi í desember 2009, og greining Dr. Jóns Daníelssonar (London School of Economics) á kostnaði og áhættu af þáverandi Icesave samningum[11], sem birt var í janúar 2010 og ekki hefur verið hrakin.
Áskorun til forseta Íslands um að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar
breytaÞar sem InDefence hópnum þótti í nóvember 2009 einsýnt að fyrirvarar Alþingis væru fyrir borð bornir í nýjum Icesave lögum og tilheyrandi viðaukasamningum, og að yfirgnæfandi líkur væru til að Alþingi myndi þrátt fyrir það samþykkja viðaukasamningana, hratt hópurinn af stað undirskriftasöfnun til áskorunar á forseta Íslands að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Áskorunin var svohljóðandi:
Ég skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. Ég tel að það sé sanngjörn krafa að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.[12]
Þann 2. janúar 2010 voru forseta Íslands afhent nöfn 56.089 einstaklinga sem skrifuðu undir áskorunina á vefnum www.indefence.is. Af þeim sem undirrituðu áskorunina voru 92,9% 18 ára eða eldri. Áskorunina undirritaði því nærri fjórðungur allra kosningabærra manna á Íslandi. Svo fór að forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar þann 5. janúar 2010.
Undirskriftasöfnunin var nokkuð gagnrýnd vegna þess að hægt var að skrifa hvaða nafn sem var inn á vefsíðuna. Var það hægt vegna þess að í stað þess að skráningar væru athugaðar samstundis voru undirskriftalistarnir samkeyrðir við Þjóðskrá eftir á og allar rangar skráningar fjarlægðar á þann hátt. Allar þær 56.089 undirskriftir sem afhentar voru forseta Íslands voru samkeyrðar við þjóðskrá á þennan hátt af óháðum aðila. Um 93% þessara 56.089 undirskrifta voru frá fólki 18 ára og eldra. Því rituðu rúmlega 23% kosningabærra manna á Íslandi áskorunina. Þessi fjöldi undirskrifta var hlutfallslega sambærilegur við að rúmar 11 milljónir Breta eða tæpar 3 milljónir Hollendinga skrifuðu nafn sitt á slíkan undirskriftalista. Til samanburðar má einnig nefna að á sínum tíma voru forseta afhentar 31.752 undirskriftir vegna fjölmiðlafrumvarpsins.[13] [14]
Þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave viðaukasamninga (Icesave 2)
breytaÞjóðaratkvæðagreiðslan fór fram þann 6. mars 2010. Var þetta fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan frá stofnun lýðveldisins 1944. Við atkvæðagreiðsluna voru alls 229.926 á kjörskrá eða 72,3% landsmanna. Af þeim greiddu 144.231 atkvæði eða 62,7% kjósenda. Kosningaþátttaka karla og kvenna var mjög svipuð, eða 62,9% hjá körlum og 62,6% hjá konum.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni voru greidd atkvæði um það hvort lög nr. 1/2010 ættu að halda gildi sínu eða falla úr gildi. Úrslit kosninganna urðu þau að gild atkvæði voru 136.991, auðir seðlar 6.744 og aðrir ógildir seðlar 496. Gild atkvæði féllu þannig að „já“ sögðu 2.599 kjósendur eða 1,9% en „nei“ sögðu 134.392 eða 98,1%. Lög nr. 1/2010 voru þar með felld úr gildi.[15]
Vefsíðan www.indefence.is
breytaVefsíðu samtakanna var hleypt í loftið 20. október 2008 og hefur aðallega þjónað tvíþættu hlutverki.
Í fyrsta lagi hefur síðan verið notuð til söfnunar undirskrifta í tveim stærstu undirskriftasöfnunum Íslandssögunnar. Rúmlega 83.000 manns[16] skrifuðu undir yfirlýsingu á vefsíðunni sem InDefence hópurinn afhenti breska þinginu í mars 2009 til að mótmæla beitingu Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum (Icelanders are NOT terrorists). Í byrjun janúar 2010 voru forseta Íslands afhentar rúmlega 56 þúsund undirskriftir sem bárust í gegn um vefsíðuna til áskorunar á forseta að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar. [17]
Í öðru lagi hefur vefurinn þjónað sem upplýsingatæki InDefefnce hópsins. Þar eru fréttatilkynningar og ýmis skjöl hópsins birt auk margvíslegs annars efnis sem tengist Icesave málinu.
Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar
breytaÍ ágúst 2010 þáðu samtökin Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar, en Samband ungra sjálfstæðismanna veitti samtökunum verðlaunin fyrir framlag sitt í baráttunni gegn því að íslenska ríkið ábyrgðist innistæður á Icesave-reikningunum.[18] Það að samtökin skyldu taka við verðlaununum var umdeilt í ljósi þess að verðlaunin eru kennd við Kjartan Gunnarsson sem sat bæði í bankaráði Landsbankans sem og í endurskoðunarnefnd bankans sem bar lögum samkvæmt að ganga úr skugga um að nægilegt eftirlit væri með Icesave reikningunum. Jóhannes Þ. Skúlason, talsmaður Indefence, vísaði gagnrýni á bug því að það samrýmdist ekki stefnu né hugsjónum InDefence hópsins um að fara í manngreinarálit á grundvelli stjórnmálaskoðana.[19]
Fulltrúar
breytaInDefence hópurinn er sjálfboðastarf og mannabreytingar því tíðar. Meðal þeirra fjölmörgu einstaklinga sem komið hafa að starfi hópsins eru:
|
|
|
Tilvísanir
breyta- ↑ „Um InDefence“. InDefence. nóvember 2009.
- ↑ „Íslendingar eru EKKI hryðjuverkamenn“. InDefence. 20. október 2008.
- ↑ „Er samningur um Icesave efnahagslegt sjálfsmorð?“ (PDF). Pressan. 8. júní 2009.
- ↑ „Umsögn InDefence hópsins til fjárlaganefndar Alþingis um Icesave samningana“ (PDF). 10. júlí 2009.
- ↑ „Lög um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., nr. 96/2009“. Alþingi. 2. september 2009.
- ↑ „Áskorun til Alþingismanna: Samþykkið ekki ríkisábyrgð á Icesave lánasamningunum“. InDefence. 28. ágúst 2009.
- ↑ „Lög um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands“. Alþingi. janúar 2010.
- ↑ „Samanburður InDefence á gömlu og nýju fyrirvörunum“ (PDF). InDefence. 2. nóvember 2009.
- ↑ „Samanburður InDefence á gömlu og nýju fyrirvörunum(Icesave 1 og 2)“. InDefence. 2. nóvember 2009.
- ↑ „Lögfræðiálit Mischon de Reya um viðaukasamninga vegna Icesave“ (PDF). Miscon de Reya. desember 2009.
- ↑ „Áhættunni af Icesave verður ekki eytt eftirá“ (PDF). Dr. Jón Daníelsson. 10. janúar 2009.
- ↑ „Áskorun til forseta Íslands um að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar“. InDefence. 25. nóvember 2009.
- ↑ „Forseta Íslands afhentar 56.089 undirskriftir gegn nýjum Icesave lögum“. InDefence. 2. janúar 2010.
- ↑ „4 stjórnarþingmenn skrifuðu undir“. Mbl.is. 2. janúar 2010.
- ↑ „Þjóðaratkvæðagreiðsla 6. mars 2010“. Hagstofa Íslands. 18. maí 2010.
- ↑ „Icelanders are NOT terrorists“. InDefence. 20. október 2008.
- ↑ „Áskorun til forseta Íslands um að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar“. InDefence. 25. nóvember 2009.
- ↑ „InDefence þiggja frelsisverðlaunin“. Vísir.is. 30. ágúst 2010.
- ↑ „InDefence þáði verðlaun kennd við varaformann stjórnar gamla Landsbankans“. Eyjan. 30. ágúst 2010.
Tenglar
breyta- Vefsíða InDefence Geymt 20 desember 2008 í Wayback Machine
- Upplýsingar um Icesave samningana á upplýsingasíðu stjórnvalda, Ísland.is Geymt 1 ágúst 2009 í Wayback Machine
- Advocacy International: After Iceland's Referendum, What Next? (Ann Pettifor and Jeremy Smith) Geymt 24 nóvember 2011 í Wayback Machine
- Financial Times: Iceland faces softer repayment terms
- WSJ: Critics Rally To Foil Iceland's Debt Bill At Referendum Geymt 18 apríl 2010 í Wayback Machine
- Esseclive: Islande - marasme économique ou terroristes volcaniques? Geymt 3 september 2009 í Wayback Machine
- National Public Radio (USA): Debt Repayment Plan Sparks Fiery Debate In Iceland
- WSJ: Compromise Needed on Iceland
- ABC Nyheter: Fyrer opp kampanje for å få nei til Icesave-avtalen (Thomas Vermes) Geymt 12 febrúar 2010 í Wayback Machine
- Telegraph: Angry Iceland defies the world (Ambrosse Evans-Pritchard)
- Telegraph: Angry Icelanders back President Grimsson's decision to block Icesave deal (Rowena Mason) Geymt 14 janúar 2010 í Wayback Machine
- CNN(Richard Quest): Iceland's economic breakdown (Viðtal við Magnús Árna Skúlason meðlim InDefefnce hópsins)
- BBC Newsnight: Iceland president says country will pay UK government
- Reuters: Icesave foes confident as referendum nears
- Telegraph: Icelandic revolt upsets Icesave deal (Ambrose Evans-Pritchard)
- The Independent: The bill equates to £40,000 per family (Jon Daníelsson) Geymt 9 janúar 2010 í Wayback Machine