Heilagur Georg

(Endurbeint frá Sankti Georg)

Heilagur Georglatínu: Sanctus Georgius) var píslarvottur í upphafi 4. aldar þegar Díókletíanus keisari Rómaveldis hóf ofsóknar á hendur kristnum mönnum. Í aldanna rás hefur hann orðið að einum vinsælasta dýrlingi kaþólsku kirkjunnar. Um hann hafa spunnist heilmargar þjóðsögur, þ. á m. þjóðsagan um bardagann við drekann.

Íkóna frá Novgorod í Rússlandi frá 15. öld

Æviágrip

breyta

Heimildir um heilagan Georg eru af skornum skammti. Hann mun hafa fæðst síðla á 3. öld e.Kr. í Litlu Asíu, e.t.v. í Kappadókíu. Faðir hans var yfirmaður í rómverska hernum í Kappadókíu, en móðir hans var frá Palestínu og voru bæði kristin. Þegar foreldrar hans dóu fór hann til Níkómedíu sem þá var höfuðborg ríkisins og gerðist rómverskur hermaður. Þá var Díókletíanus keisari. Á síðustu valdaárum sínum snerist hann gegn kristni og gaf út tilskipun um að reka alla kristna hermenn úr þjónustunni og neyða þá alla til að tilbiðja hin heiðnu goð og færa þeim fórnir. Þegar Georg neitaði ákvað keisari að hlífa honum í fyrstu og reyna að snúa honum til heiðni, jafnvel með fyrirheiti um landareignir og fjármuni. Þegar Georg neitaði enn staðfastlega og tilkynnti opinberlega að hann væri kristinn, snerist keisara hugur og lét taka hann af lífi. Áður hafði Georg þó gefið fátækum eigur sínar. Georg var í fyrstu pyntaður og síðan hálshöggvinn fyrir utan borgarmúra Nikómedíu. Þetta gerðist þann 23. apríl 303. Lík hans var flutt til Lýddu, þar sem kristnir menn heiðruðu hann sem píslarvott.

Drekabaninn

breyta
 
Skjaldarmerki Moskvu

Heilagur Georg hefur verið sýndur á málverkum og höggmyndum sem drekabaninn mikli. Í raun er ekkert í ævi heilags Georgs sem tengir hann við dreka, enda tekur þjóðsagan hér við. Elstu heimildir um Georg sem drekabana eru frá 11. öld. Hún er venjulega þannig að dreki gerði sig heimakært við brunn nokkurn við Sílene (e.t.v. Kýrene í Lýbíu). Til að ná í vatn ákváðu borgarbúar að færa drekanum fórnir. Fyrst var það sauðfé, en þegar það þraut, þá var ákveðið að gefa drekanum meyjar. Meyjarnar voru valdar með hlutkesti. Eitt sinn féll hlutkestið á prinsessuna. Konungurinn bað dóttur sinni griða, en án árangurs. Þegar farið var með prinsessuna til drekans, kom Georg ríðandi á hesti sínum. Hann hafði fána sinn sem verndargrip, rauður kross á hvítum fleti, og gerði atlögu að drekanum. Að lokum náði hann að drepa drekann og bjarga prinsessunni. Í þakklætisskyni tóku borgarbúar upp kristni. Talið er að drekinn sé tákn um heiðni og að sagan öll sé lýsing á sigri kristni á heiðinni trú.

Dýrlingur

breyta
 
Georgskrossinn er jafnframt fáni Englands

Sagan um Georg var í fyrstu staðbundin í austurhluta Rómaveldis. Á 5. öld hafði hún hins vegar breiðst út og var orðin kunn í vesturhluta ríkisins. 494 var Georg tekinn í heilagra manna tölu af Gelasíusi I páfa. Minningardagur hans varð 23. apríl, sem var dánardagur hans. Hægt og rólega varð Georg verndardýrlingur kirkna, landsvæða, borga og jafnvel heilla landa. Georg er einnig verndari gegn ýmis konar óáran, sem og verndardýrlingur ýmissa stétta. Jarðneskar leifar Georgs eru sagðar hafa komið til þýska ríkisins á 9. öld og eru varðveittar í Georgskirkjunni á eyjunni Reichenau við Bodenvatn. Þaðan breiddist dýrkunin á Georg út um allt ríkið. Í Englandi var fyrst notast við Georgsfánann í krossferðum til landsins helga. Krossfarar frá Englandi (og Frakklandi) tóku upp fána þennan. Árið 1190 tók Lundúnaborg og England upp Georgsfánann og er hann þjóðfáni Englands síðan á 16. öld. Georg varð hins vegar verndardýrlingur landsins miklu fyrr, eða á 13. öld. Heilagur Georg birtist í fjölmörgum málverkum og höggmyndum. Hann er sá dýrlingur sem oftast kemur fyrir í listaverkum hins kristna heims, að undanskilinni Maríu mey og höfuðpostulunum. Hann birtist einnig á mýmörgum skjaldarmerkjum.

Verndardýrlingur

breyta

Nokkur dæmi um lönd, borgir, stéttir og fyrirbæri sem heilagur Georg er verndari fyrir eða honum gert áheit við. Listinn er ekki tæmandi.

Lönd og héruð Borgir Stéttir Annað
Albanía Amersfoort (Hollandi) Akuryrkjufólk Fyrir búfénað
Aragón Bad Aibling (Þýskalandi) Bændur Gegn freistingum
Býsans Barcelona (Spáni) Fangar Fyrir gott veður
England Beirút (Líbanon) Fjallafólk Gegn herpes
Eþíópía Beit Jala (Vesturbakka) Göngugarpar Gegn hitasótt
Georgía Bensheim (Þýskalandi) Hermenn Gegn húðsjúkdómum
Grikkland Eisenach (Þýskalandi) Járnsmiðir Gegn pestum
Kanada Ferrara (Ítalíu) Leðursmiðir Gegn sárasótt
Katalónía Freiburg (Þýskalandi) Riddarar Fyrir sjúkrahúsum
Kosóvó Genúa (Ítalíu) Skátar Gegn stríðsógnum
Litháen Grebenstein (Þýskalandi) Slátrarar
Malta Haldern (Þýskalandi) Tunnusmiðir
Portúgal Hattingen (Þýskalandi)
Serbía Lod (Ísrael)
Sikiley London (Englandi)
Svartfjallaland Moskva (Rússlandi)
Tirol Piran (Slóveníu)
Ptuj (Slóveníu)
Reggio Calabria (Ítalíu)
Rio de Janeiro (Brasilíu)
St. Georgen (Þýskalandi)
Stein am Rhein (Sviss)

Heimildir

breyta