Freiburg (Þýskaland)

Freiburg eða Freiburg im Breisgau er fjórða stærsta borgin í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi með 231 þúsund íbúa (2019). Hún er syðsta stórborgin í Þýskalandi og er þekkt fyrir ýmsar gamlar byggingar í miðborginni. Freiburg hefur oftar en flestar þýskar stórborgir verið hertekin í stríði.

Skjaldarmerki Freiburg Lega Freiburg í Þýskalandi
Flagge von Bayern
Flagge von Bayern
Landeswappen Bayern
Upplýsingar
Sambandsland: Baden-Württemberg
Flatarmál: 153,07 km²
Mannfjöldi: 231.043 (2019)
Þéttleiki byggðar: 1.424/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 278 m
Vefsíða: www.freiburg.de Geymt 28 febrúar 2009 í Wayback Machine

Lega breyta

Freiburg liggur við Svartaskóg (Schwarzwald) í suðvesturhorni Þýskalands, rétt austan við Rínarfljót og landamærin að Frakklandi, svo og rétt norðan við svissnesku landamærin. Næsta stórborgin er Basel í Sviss um 35 km til suðurs.

Skjaldarmerki breyta

Skjaldarmerki borgarinnar er Georgskrossinn, kross heilags Georgs, en hann er elsti verndardýrlingur borgarinnar. Þetta er rauður kross á hvítum grunni. Enski fáninn er nákvæmlega eins, nema hvað fáninn er öðruvísi í laginu. Þetta merki kom fyrst fram í Freiburg 1327.

Orðsifjar breyta

Freiburg merkir fríborg. Hér er þó ekki um það að ræða að borgin hafi verið fríborg í þýska ríkinu, eins og títt var um ýmsar aðrar borgir. Opinbert heiti borgarinnar er Freiburg im Breisgau, til aðgreiningar á öðrum borgum með sama heiti.

Saga Freiburg breyta

 
Konrad greifi af Zähringer ætt veitir Freiburg borgarréttindi 1120

Upphaf breyta

Upphaf Freiburg má rekja til ársins 1091 en þá reisti sér Bertold II hertogi Zähringer-ættarinnar sér kastalavirkið Castrum de Friburch á hæð einni við jaðar Svartaskógs. Þjónustufólk hans og iðnaðarmenn bjuggu fyrir utan kastalann og mynduðu bæ sem seinna varð að borginni Freiburg. Synir Bertolds veittu Freiburg borgarréttindi 1120 við samþykki Hinriks V keisara þýska ríkisins. Borgin óx og dafnaði vel er silfur fannst í vesturhlíðum Svartaskógs. Á þeim tíma var gamla Frúarkirkjan reist en margir líta á hana sem fegurstu kirkju heims. Árið 1218 dó Zähringer-ættin út. Við það erfðu greifarnir frá Urach borgina, sem þaðan í frá kenndu þeir sig við Freiburg. Greifarnir urðu afar óvinsælir meðal borgarbúa. Á næstu 124 árum áttu þeir í stöðugum erjum við þá. Árið 1299 neituðu borgarbúar að greiða greifanum skatt, sem við svo búið sat um borgina og skaut á hana með slöngvutækjum. Árið 1368 tóku borgarbúar sig saman og keyptu sig fría frá greifadæminu fyrir 20 þús silfurmörk og gengu sjálfviljugir undir verndarvæng Habsborgar. Þannig stóðu málefni borgarinnar allt þar til Napoleon innlimaði borgina í Baden 1805.

Habsborg breyta

 
Elsta ráðhús Freiburg. Þar var ríkisþingið haldið 1498.

Habsborgarar kröfðust þess að borgarbúar greiddu í herkostnað, enda stóð Habsborg í erjum víða. Ekki síst í Sviss, en þar höfðu landsmenn svarið eið og sagt sig úr tengslum við Habsborg. Árið 1386 var safnað liði og barist við bæinn Sempach í Sviss. Allir heldri borgarar Freiburg börðust þar með Habsborgurum, sem biðu þar mikinn ósigur. Leopold III hertogi Habsborgara féll í bardaganum, en einnig nær allir þátttakendur frá Freiburg, sem við það missti nær gjörvalla yfirstétt sína. Við svo búið tók handverksstéttin völdin í borginni. 1415 hélt Sigismund keisari kirkjuþingið mikla í Konstanz við Bodenvatn til að jafna klofning kaþólsku kirkjunnar. Þrír páfar ríktu samtímis og voru þeir allir settir af. Jóhannes páfi XXIII neitaði að láta setja sig af og flúði til Freiburg. Því lét keisari bannfæra borgina í heild sinni, ásamt öllum íbúunum. Jóhannes var handtekinn og settur í varðhald í Mannheim. Einn merkasti atburðurinn í sögu Freiburg er ríkisþingið sem Maximilian I keisari hélt þar í borg 1498. Á þinginu var reynt að finna lausn á ‘svissneska vandamálinu.’ Hinir eiðsvörnu neituðu hins vegar alfarið að semja við ríkið og kusu að halda sjálfstæði sínu. Árið 1513 kom til bændauppreisnar í nærsveitum. Það tókst að stöðva fárið áður en uppreisnin breiddist út. En 1524 gerðu bændur aðra og meiri uppreisn í siðaskiptafárinu, er 18 þúsund bændur gripu til vopna á svæðinu. Þeir náðu að hertaka Freiburg og komu siðaskiptum á með valdi. Þegar lokst tókst að brjóta bændauppreisnina miklu á bak aftur lágu um 100 þúsund bændur í valnum víða í Þýskalandi. Freiburg snerist aftur til kaþólskrar trúar en aðrar borgir í nágrenninu, svo sem Basel og Strassborg, héldust lúterskar. Þegar siðaskiptafárið náði hámarki í Basel flúði húmanistinn Erasmus frá Rotterdam þaðan og settist að í Freiburg.

30 ára stríðið breyta

Í 30 ára stríðinu slapp héraðið og borgin við þátttöku lengi vel. En þegar Gustav Adolf Svíakonungur sigraði keisaraherinn 1631, stóð honum allt Suður-Þýskaland opið. Á jólum 1632 birtist sænskur her undir stjórn Horn hershöfðingja við borgardyrnar. Viku seinna ákváðu borgarbúar að berjast ekki og opnuðu hliðin. Svíar hernámu borgina og héldu henni með stuttu hléi til 1634, er þeir töpuðu í orrustu við sameinaðan her keisarans og Spánverja. Á páskum 1638 var aftur ráðist á borgina. Að þessu sinni sat Bernhard frá Sachsen-Weimar um borgina, en hann var á mála Frakka (Richelieu kardinála). Eftir 11 daga umsátur gáfust borgarbúar aftur upp og hertók Bernhard borgina. Hann dó hins vegar óvænt ári síðar og við það fóru allir landvinningar hans til Frakklands. 1644 kom keisaraherinn til Freiburg og stóð andspænis Frökkum. Þá dró til stórorrustu á völlunum fyrir framan borgina. Orrustan stóð yfir í þrjá daga við gríðarlegt mannfall beggja aðila. Hvorugur gat lýst yfir sigri. Frakkar hörfuðu, en staðan var óbreytt. Fjórum árum seinna voru Frakkar enn í borginni til að reyna að bæta samningsstöðu sína í friðarsamningunum í Vestfalíu. Þeir hurfu ekki þaðan fyrr en samningarnir voru undirritaðir. 30 ára stríðið reyndist Freiburg þungur baggi. Íbúum hafði fækkað úr 14 þúsund niður í 2.000 í stríðslok.

Undir franskri stjórn breyta

Aðeins 40 árum síðar hófst næsti hildarleikur. Fransk/hollenska stríðið skall á, þar sem Loðvík XIV konungs Frakklands reyndi að auka við ríki sitt. Stríðið hafði ekki áhrif á Freiburg. Áður voru Frakkar búnir að hernema allt Elsass hérað (Alsace á frönsku). En í nóvember 1678 fóru Frakkar óvænt yfir Rínarfljót og sátu um Freiburg. Eftir fyrstu fallbyssuárásina gafst borgin upp og var hernumin. Í friðarsamningunum í Nijmegen í Hollandi setti Loðvík XIV keisaranum Leopold I kosti. Ef keisarinn myndi viðurkenna eign Frakka á Elsass, skyldu Frakkar skila annað hvort Freiburg eða Philippsburg. Leopold kaus Philippsburg og þar við sat. Frakkar innlimuðu þá Freiburg í Elsass og varð hún frönsk borg. Árið 1681 sótti Loðvík sjálfur borgina heim. Loðvík hélt hins vegar áfram að herja á nágrannalöndin, sérstaklega á þýska ríkið (oft kallað 9 ára stríðið). Þá var myndað mikið bandalag gegn honum sem tókst að halda Frökkum í skefjum. Í friðarsamningunum í Rijswjik í Hollandi 1697 máttu Frakkar halda Elsass en urðu að skila Freiburg. Það með varð borgin aftur þýsk. 1701-1713 geysaði spænska erfðastríðið. Enn seildist Loðvík XIV til áhrifa í nágrannaland. Aftur var myndað bandalag gegn Frakklandi og barist var á ýmsum stöðum. Á síðasta stríðsárinu 1713 fór 150 þúsund manna franskur her yfir Rínarfljót og sat um Freiburg. Í borginni var 10 þúsund manna varnarher, sem mátti sín lítils gegn ofureflinu. Þó náði hann að halda Frökkum í skefjum í þrjár vikur áður en borgin féll. Friðarsamningar stríðsins fóru fram í Rastatt (rétt sunnan við Karlsruhe) 1714. Í þeim þurfti Loðvík XIV að skila Freiburg. Enn herjuðu Frakkar á Freiburg 1744 í austurríska erfðastríðinu. Að þessu var það Loðvík XV sem herjaði á borgina og fór hann sjálfur fyrir liði sínu. Varnarliðinu tókst að verjast Frökkum í sex heilar vikur undir stöðugri fallbyssuskothríð. Að endingu gafst borgin upp og Frakkar hertóku hana enn einu sinni. Í friðarsamningunum í Füssen í Bæjaralandi neyddist Loðvík til að skila borgina aftur. Hún var þá orðin svo sundurskotin að þar bjuggu þá aðeins tæplega 4.000 manns. Ekki fékk borgin að hvíla lengi. 1793 ruddist franskur byltingarher yfir Rínarfljót og sat um Freiburg enn á ný. Hún féll ekki fyrr en eftir gríðarlega bardaga, þar sem varnarlið varðist hetjulega. Austurrískur her náði þó að frelsa hana sama ár. En Austurríki mátti sín lítils gegn Napoleon nokkrum árum seinna. Napoleon sigraði þá í stórorrustunni við Austerlitz. Meðan hann sat í Vínarborg innlimaði hann borgina Freiburg í Baden. Það með var endir bundinn á yfirráðum Habsborgarmanna á borginni. Eftir tap Napoleons i Rússlandi, hittust þrír þjóðhöfðingjar í Freiburg. Alexander I Rússakeisari, Friðrik Vilhjálmur Prússakonungur og Frans I keisari Austurríkis. Borgarbúar veittu þeim glæsilegar móttökur. Á Vínarfundinum 1815 var ákveðið að Freiburg skuli áfram vera hluti af Baden í stað eign Habsborgar.

Nýrri tímar breyta

 
Miðborgin í Freiburg. Maríukirkjan er mest áberandi. Neðst má sjá Marteinshliðið.

Heimstyrjöldin fyrri reyndist borginni erfið. Hún varð 25 sinnum fyrir loftárásum bandamanna, oftar en nokkur önnur þýsk borg. Mikið var um flóttafólk í borginni, en vöruflutningar mjög erfiðir. Þetta olli miklu hungri hjá borgarbúum. Árið 1923 var haldin alþjóðleg friðarráðstefna í borginni með þátttöku 7.000 manna frá 23 þjóðum. Einn af þýsku þátttakendunum var Ludwig Quidde, sem seinna hlaut friðarverðlaun Nóbels. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin tvisvar fyrir loftárásum. Í fyrra sinnið, 1940, voru þýskar flugvélar að verki, en þær tóku Freiburg í misgripum fyrir franska borg. Eyðileggingin var þó til að gera lítil. Í desember 1944 gerðu Bretar loftárás á borgina og vörpuðu 150 þúsund sprengjum á hana. Nær öll miðborgin eyðilagðist og týndu 3.000 manns lífi. Í apríl 1945 hertóku Frakkar borgina. Charles de Gaulle kom þangað í október og stóð fyrir sigurgöngu um götur borgarinnar. Freiburg var á hernámssvæði Frakka. Þeir gerðu hana að höfuðborg Baden (sem náði nokkurn vegin yfir hernámssvæði þeirra) og var Freiburg því höfuðborg allt til 1952. Þá var sambandslandið Baden-Württemberg stofnað með Stuttgart sem höfuðborg.

Íþróttir breyta

Aðalknattspyrnulið borgarinnar er SC Freiburg, sem leikur ýmist í 1. eða 2. Bundeligunni. Besti árangur félagsins er 3. sætið árið 1995.

Fjórum sinnum var Freiburg viðkomustaður hjólreiðakeppninnar Tour de France, síðast árið 2000. Árið 2005 var haldið heimsmeistaramótið í hjólreiðum innanhús. Þetta er eina HM í íþróttum sem haldið hefur verið í borginni.

Vinabæir breyta

Freiburg viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Auk þess eru ákveðin vinatengsl við borgina Wiwilí í Níkaragva.

Frægustu börn borgarinnar breyta

 
Marteinshliðið

Byggingar og kennileiti breyta

  • Frúarkirkjan í Freiburg er helsta kennileiti borgarinnar. Hún var 313 ár í byggingu og er af mörgum talin ein fegursta kirkja heims.
  • Rauða kauphúsið í Freiburg var á sínum tima þinghús Baden eftir seinna stríð, meðan Freiburg var höfuðborg Baden. Það er eitt glæsilegasta hús borgarinnar.
  • Marteinshliðið er gamalt borgarhlið í Freiburg, eitt af tveimur sem enn standa. Það er frá 12. eða 13. öld.
  • Sváfahliðið er einnig gamalt borgarhlið í Freiburg. Það er bæði minna og yngra en Marteinshliðið.

Heimildir breyta