Amersfoort
Amersfoort er næststærsta borgin í héraðinu Utrecht í Hollandi. Miðborgin er miðaldarleg og fögur. Borgin er með 146 þúsund íbúa.
Amersfoort | |
---|---|
Hérað | Utrecht |
Flatarmál | |
• Samtals | 63,85 km2 |
Mannfjöldi (31. desember 2010) | |
• Samtals | 146.571 |
• Þéttleiki | 2.296/km2 |
Vefsíða | www.amersfoort.nl |
Lega og lýsing
breytaAmersfoort liggur við ána Eem um miðbik Hollands, rétt fyrir sunnan stöðuvatnið Eemmeer, sem er syðsti hluti Ijsselmeer. Borgin er því sem næst við landfræðilega miðju landsins. Næstu borgir eru Utrecht til vesturs (15 km), Apeldoorn til austurs (45 km), Arnhem til suðausturs (55 km) og Amsterdam til norðvesturs (60 km).
Orðsifjar
breytaAmersfoort merkir vaðið yfir ána Amer en Amer heitir Eem í dag og mundar í Eemmer rétt norðan við borgina.
Söguágrip
breytaAmersfoort kom fyrst við skjöl 1028. Þar sem bærinn lá vel við þjóðvegina austur-vestur og norður-suður, létu furstabiskuparnir í Utrecht, sem ríktu yfir svæðinu, reisa sér aðsetur til að stjórna svæðinu. 1259 veitti biskupinn Hendrik van Vianden Amersfoort borgarréttindi. 1340 varð mikill bruni í borginni sem eyddi helming allra húsanna. Í sjálfstæðisstríðinu á 16. öld hertóku Hollendingar borgina en Spánverjar náðu henni 1573. 1579 náði Jan VI af Nassau-Dillenburg að fresla borgina. Sama ár gekk hún í Utrecht-bandalagið. Síðan þá var mikil stöðnun í efnahagslífinu og í upphafi 19. aldar bjuggu aðeins 8.000 manns í borginni. Margir lifðu á tóbaksrækt. Efnahagslífið batnaði mikið með tilkomu járnbrautarinnar 1863 og iðnvæðingarinnar. Í upphafi heimstyrjaldarinnar síðari var í Amersfoort stærsta herdeild Hollendinga. Í maí 1940 voru allir íbúar borgarinnar fluttir á brott er búist var við innrás Þjóðverja. Innrásin hófst 10. maí og var barist í fjóra daga. Eftir það var íbúum leyft að snúa heim á ný. Rétt utan borgar opnuðu nasistar fangabúðir sem var nokkurs konar biðstöð eftir lestarferð í útrýmingarbúðir lengra í austur (aðallega Auschwitz og Sobibor). Alls fóru um 32 þúsund manns um búðirnar, en fangarnir komu víðs vegar að úr Hollandi. Eftir stríð hélt borgin áfram að vaxa. 1974 var gamla þorpið Hoogland innlimað borginni þrátt fyrir áköf mótmæli bæjarbúa. Í dag eru íbúðahverfi umhverfis gamla þorpið. 2006 var Amersfoort kjörin grænasta borgin í Hollandi og ári síðar grænasta borgin í Evrópu.
Þjóðsaga
breytaÁrið 1661 gerðist það að skáldið og landeigandinn Everard Meyster stóð í veðmáli við landeiganda frá Amersfoort sem Meyster vann. Til að jafna skuldina varð sá sem tapaði að rúlla 9 tonna graníthnullungi frá mýrunum í Soest til miðborgar Amersfoort (um þriggja km leið). Hann fékk aðstoð 400 manna við verkið (allt íbúar Amersfoort), sem allir fengu bjór og brauð í lok dags. Hnullungurinn lá í miðborginni og voru íbúar Amersfoort mikið uppnefndir eftir þetta. Þeir voru kallaðir Keientrekker. Key er hnullungur og trekker er sá sem dregur. Eftir ellefu ára niðurlægingu var ákveðið að jarða hnullunginn og var það gert 1672. Hnullungurinn fannst á ný 1903 og var settur á stall í miðborginni sem minnisvarði, þar sem hann stendur enn í dag. Amersfoort er gjarnan kölluð Keistad (hnullungaborgin).
Íþróttir
breytaTennissamband Hollands (KNLTB) er með aðalskrifstofur í Amersfoort. Þar í borg eru nokkur tennisfélög og þar eru tennismót haldin árlega (Dutch Open).
Meðal annarra íþróttagreina sem leikið er í efstu deild eru ruðningur, badminton, hokkí, sundbolti og júdó.
Frægustu börn borgarinnar
breyta- (1547) Johan van Oldenbarnevelt, ríkisstjóri og einn stofnenda hollenska lýðveldisins
- (1872) Piet Mondriaan, málari og nútímalistamaður
- (1903) Johannes Heesters leikari
Byggingar og kennileiti
breyta- Frúarkirkjan var reist 1444-1470. En 1787 gjöreyðilagðist kirkjan í mikilli sprengingu, þannig að bara turninn stóð eftir. Hann er 98 metra hár og er þriðji hæsti kirkjuturn Hollands (eftir dómkirkjunni í Utrecht og Nieuwe Kerk í Delft). Í dag stendur klukkuturninn því einsamall og gnæfir yfir miðborgina. Turninn er notaður sem núllpunktur í landfræðilegum mælingum í Hollandi.
- Koppelpoort er víðáttumikið borgarhlið í gamla borgarmúrnum. Það var reist á 15. öld og lauk smíðinni í kringum 1425. Hliðið þjónaði bæði fyrir landveginn sem vatnaveginn en áin Eem rennur í gegnum það. Grindin í vatnahliðinu var opnað og lokað með stóru hjóli sem tólf manns urðu að snúa. Verðir í hliðinu söfnuðu þessu fólki af handahófi í borginni, enda var vinnan hættuleg og fáir vildu snúa hjólinu. Hliðið var gert upp 1996.
- Jóriskirkjan er þriggja skipa hallarkirkja. Hún var vígð 1248 en breytt í hallarkirkju á 15. öld og turninum bætt við.
-
Kirkjuturn Frúarkirkjunnar
-
Hið ægifagra Koppelpoort þjónaði bæði vegfarendum á láði sem legi
-
Jóriskirkjan
-
Loftmynd af miðborg Amersfoort. Fyrir miðju er aðalmarkaðstorgið og Jóriskirkjan.
Heimildir
breytaFyrirmynd greinarinnar var „Amersfoort“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. september 2011.