Rækjuvinnsla á Íslandi
Rækjuvinnsla á Íslandi er sú tegund fiskvinnslu sem gengur út á að vinna rækju fyrir markað. Á Íslandi er einkum veidd úthafsrækja eða pólarrækja (pandalus borealis) — einnig oft nefnd stóri kampalampi. Rækjan fer á markað fersk, frosin eða lausfryst, ýmist sem heil rækja, rækjuhalar eða skelflett rækja.
Langstærstur hluti framleiðslunnar á Íslandi er skelflett lausfryst rækja. Áður en rækjan er skelflett er hún snöggsoðin til að tryggja gæði kjötsins.
Á Íslandi eru fimm rækjuvinnslur starfandi árið 2010, Kampi ehf á Ísafirði, Meleyri á Hvammstanga, Dögun hf á Sauðárkróki, Rammi hf á Siglufirði og FISK á Grundarfirði. Einnig er rækja fullunnin um borð í rækjuveiðiskipum á sérútbúnu vinnsludekki. Líftæknifyrirtækið Primex á Siglufirði kaupir rækjuskel af verksmiðjunum fyrir vinnslu á kítíni.
Skelflett rækja er einkum flutt út til Bretlands og Danmerkur en nokkuð af heilfrystri rækju er flutt út til Japans.
Ekki er vitað til að Íslendingar hafi neytt rækju í nokkrum mæli fyrr en á 20. öld en líklega hefur hún verið nýtt sem beita áður en veiðar hófust hér við land. Upphaf veiða og vinnslu á rækju við Ísland varð þegar Norðmennirnir Simon Olsen og Ole G. Syre sem bjuggu á Ísafirði hófu veiðar á rækju í Ísafjarðardjúpi. Þeir höfðu þá stundað tilraunaveiðar nokkrum árum fyrr.[1]
Saga
breytaUpphaf rækjuveiða við Ísland má rekja til tveggja Norðmanna, Ole G. Syre og Símon Olsen en þeir voru búsettir á Ísafirði. Þeir þekktu hvernig rækjuveiðar voru stundaðar á heimaslóðum sínum í Karmøy við vesturströnd Noregs og gerðu fyrstu tilraun til rækjuveiða við Ísland árið 1924. Þeir keyptu vélbátinn Hrönn í Noregi og með bátnum kom rækjunót. Rækjuveiðar þeirra gengu vel en féllu niður vegna þess að enginn markaður var fyrir rækjuna. Íslendingar kölluðu rækju á þessum tíma kampalampa. Sveinn Sveinson útgerðarmaður á Ísafirði keypti rækjunótina. Sveini tókst að selja soðna rækju við skipshlið í nokkrum farþegaskipum sem komu til Ísafjarðar árið 1930, þar á meðal Dronning Alexandrine. Árið 1935 hófust samfelldar rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi á vegum Norðmannanna Simon og Ole en þeir voru þá á bátnum Karmöy með nýja rækjuvörpu. Ekki gekk vel að selja aflann.
Á kreppuárunum var ákveðið að koma upp rækjuverksmiðju og tók Rækjuverksmiðja Ísafjarðar til starfa 23. júní 1936. Hún var í eigu Ísafjarðarbæjar og í húsnæði í Neðstakaupstað. Þar var rækja pilluð, lögð í dósir og soðin niður. Ólsen og Syre veiddu rækjur og seldu til vinnslu í verksmiðjuna en þeir höfðu þá fundið góð rækjumið í Hestfirði. Verksmiðjustjórar í rækjuverksmiðjunni voru Þorvaldur Guðmundsson sem seinna varð þekktur sem Þorvaldur í Síld og Fisk og Tryggvi Jónsson frá Akureyri sem stofnsetti seinna niðursuðuverksmiðjuna Ora. Sumarið 1936 störfuðu 50 manns við rækjuvinnsluna. Næstu ár hófu fleiri bátar rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og voru bestu miðin í Hestfirði, Seyðisfirði og Álftafirði og síðar í Skötufirði og fyrir innan Ögurhólma. Veturinn 1938 gengu veiðarnar illa og þrír bátar færa sig til Arnarfjarðar þar sem veiðar gengu vel og var stofnuð niðursuðuverksmiðja á Bíldudal. Haustið 1939 var rækjuverksmiðjan á Ísafirði seld til einkaaðila.
Rækjuveiðar lögðust af á stríðsárunum en hófust aftur eftir stríð, með fleiri bátum og öflugri rækjutrollum. Norðmaðurinn Syri og sonur hans stofnsettu árið 1949 niðursuðuverksmiðjuna Pólar við Mjósundin á Ísafirði. Við verksmiðjunni tók síðar fyrirtæki Guðmundar og Jóhanns en það fyrirtæki varð gjaldþrota 1964 og voru þá vélarnar seldar til Bíldudals. Magnúsína Olsen (kona Simon Olsen) og sonur hennar hófu að vinna rækju í kjallara við Tangagötu 1957-1958 og seldu í verslanir í Reykjavík og varð það vísir að Niðursuðuverksmiðju Ole N. Olsen sem reisti verksmiðjuhús við Sundstræti árið 1959. Rækjuvinnsla hófst hjá Þórði Júlíussyni í Vinaminni árið 1965 og árið 1970 var stofnun rækjuvinnslan Rækjustöðin hf af eigendum sjö rækjubáta og var starfsemi hennar í Edinborgarhúsinu. Sú vinnsla varð fljótlega sú stærsta við Ísafjarðardjúp.
Utan Ísafjarðar voru settar á stofn rækjuvinnslu á Langeyri við Ísafjarðardjúp árið 1959 og í Hnífsdal var byrjað að vinna rækju 1959 og í Bolungarvík var einnig sett upp rækjuverksmiðja. Um 1970 var tekin upp vélpillun í Bolungarvík og Hnífsdal og ruddu rækjupillunarvélar smán saman handpillun úr vegi. Einnig tók frysting við af niðursuðu.
Sókn á rækjumið náði hámarki 1959-1960 en þá veiddust 1000 tonn og voru 18-20 bátar að veiðum. Haustið 1961 datt veiðin niður. Næstu ár hófst rækjuvinnsla við Húnaflóa. Komið var á kvótum um veiðimagn og veiðileyfi og mátti árið 1965 veiða 500 tonn í Ísafjarðardjúpi, 17 bátar fengu leyfi og máttu veiða 650 kíló á dag. Veiðin glæddist næstu ár og árið 1973 fengu 54 bátar leyfi og máttu veiða yfir 3000 tonn. Rækjuvinnslur voru settar upp á Suðurnesjum, við Breiðafjörð og norður við Skjálfanda og Axarfjörð.
Um og eftir 1980 hófust veiðar á úthafsrækju en hún var stærri og verðmætari en innfjarðarrækjan. Árið 1978 voru 26 skip á úthafsrækjuveiðum og veiðin var 1700 tonn. Árið 1980 voru veidd 9960 tonn af úthafsrækju og var 3074 tonnum landað á Ísafirði. Rækjuvinnslurnar tóku um 1985 að flytja inn frysta rækju frá fjarlægum miðum til að vinna. Rækjan kom sjófryst frá grænlenskum togurum og af flutningaskipum frá Nýfundnalandi og Barentshafi. Innflutta rækjan var kölluð rússarækja eða iðnaðarrækja. Árið 1988 lönduðu 211 bátar og skip 35000 tonnum af úthafsrækju. Eftir það var settur á rækjukvóti og var veiðin ákveðin 23000 tonn. Flestar rækjuverksmiðjur lentu í erfiðleikum um 1990 og urðu mörg fyrirtæki gjaldþrota.
Á árunum 1994 - 1998 náðu rækjuveiðar aftur hámarki og var aflinn milli 50000-60000 tonn. Nýtt svæði bættist við á Flæmingjagrunni frá 1993 og var afli þaðan 21000 tonn árið 1996. Árið 1996 voru rækjuveiðar í hámarki og var afli samtals 89000 tonn og var megnið veitt af stórum rækjutogurum sem frystu aflann um borð. Voru tveir stærstu rækjutogararnir gerðir út frá Reykjavík. Árið 1999 hrundi veiðin í 27000 tonn. Um þetta leyti lokuðu margar rækjuvinnslur þar á meðal í Hnífsdal, Bolungarvík og Súðavík. Ein rækjuverksmiðja varð eftir á Ísafirði og hefur hún frá árinu 2007 verið rekin undir nafninu Kampi hf.
Árið 2010 voru úthafsrækjuveiðar teknar úr kvóta og leyfðar frjálsar veiðar með aflahámarki.
Tilvísanir
breyta- ↑ Ingvar Hallgrímsson (1993). Rækjuleit á djúpslóð við Ísland (PDF) (Report). Hafrannsóknastofnun Íslands.
Heimildir
breyta- Rækjuveiðar (Fiskistofa)
- Sigurður Pétursson sagnfræðingur Ísafirði (2013), Upphaf rækjuveiða (Kampi) Geymt 20 febrúar 2015 í Wayback Machine
- Rækjuleit á djúpslóð við Ísland
- Rækjuveiðar og vinnsla við Ísafjarðardjúp, Ægir, 9. Tölublað (01.09.1985), Blaðsíða 495