Napóleon 3.

Frakkakeisari og 1. forseti Frakklands (1808-1873)
(Endurbeint frá Louis-Napóleon)

Louis-Napoléon Bonaparte (fæddur undir nafninu Charles-Louis Napoléon Bonaparte; 20. apríl 1808 – 9. janúar 1873, einnig nefndur Loðvík Napóleon á íslensku) var fyrsti og eini forseti (1848 – 52) annars franska lýðveldisins og síðar keisari annars franska keisaradæmisins undir nafninu Napóleon 3. (1852 – 70).

Skjaldarmerki Bonaparte-ætt Frakkakeisari
Bonaparte-ætt
Napóleon 3.
Napóleon 3.
Ríkisár 2. desember 1852 – 4. september 1870
SkírnarnafnCharles-Louis Napoléon Bonaparte
Fæddur20. apríl 1808
 París, Frakklandi
Dáinn9. janúar 1873 (64 ára)
 Chislehurst, Kent, Englandi
GröfSt Michael's Abbey, Farnborough, Hampshire, Englandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Louis Bonaparte
Móðir Hortense de Beauharnais
KeisaraynjaEugénie de Montijo
BörnNapóleon keisaraprins

Æviágrip

breyta

Napóleon var þriðji sonur Louis Bonaparte Hollandskonungs og Hortense de Beauharnais. Þar með var hann bróðursonur Napóleons Bónaparte Frakkakeisara og jafnframt dóttursonur keisaraynjunnar Joséphine de Beauharnais. Eftir fall franska keisaradæmisins var Louis-Napoléon sendur í útlegð og varð erfingi Napóleons eftir dauða eldri bróður síns og sonar Napóleons árið 1832.

Fyrstu tilraunir Louis-Napóleon til að hrifsa til sín völd í Frakklandi mistókust og var hann sendur í fangelsi í kjölfarið. Hann var leystur úr haldi eftir byltinguna gegn Loðvík Filippusi Frakklandskonungi árið 1848 og bauð sig fram sama ár í fyrstu forsetakosningum hins endurreista franska lýðveldis. Louis-Napóleon vann kosningarnar og var kjörinn forseti en þar sem stjórnarskrá lýðveldisins bannaði honum að bjóða sig fram á ný eftir að fyrsta kjörtímabili hans lauk framdi hann valdarán árið 1851. Hann var krýndur keisari undir nafninu Napóleon 3. þann 2. desember 1852, á fertugasta og áttunda afmæli krýningar Napóleons fyrsta. Napóleon 3. ríkti lengst allra þjóðhöfðingja Frakklands eftir frönsku byltinguna.

Snemma á valdatíð sinni beitti Napóleon 3. strangri ritskoðun og öðrum harðstjórnarbrellum til að bæla niður andóf lýðveldssinna, konungssinna, kaþólikka og frjálslyndra menntamanna. Um sex þúsund pólitískir andstæðingar hans voru handteknir eða reknir úr landi. Aðrir yfirgáfu Frakkland viljugir til þess að mótmæla valdatöku hans, þar á meðal Victor Hugo. Frá og með árinu 1859 var slakað á þessari harkalegu valdbeitingu í viðleitni til að gera ríki Napóleons að „frjálslyndu keisaradæmi.“

Í utanríkismálum beitti Napóleon 3. sér fyrir því að styrkja áhrifastöðu Frakklands í Evrópu og um heim allan. Hann gekk í bandalag með Bretum gegn Rússum í Krímstríðinu, studdi sjálfstæðisbaráttu Ítala gegn austurríska keisaraveldinu og innlimaði héröðin Nice og Savoju á ný inn í Frakkland. Nýlenduveldi Frakka í Asíu, Afríku og á Kyrrahafinu tvöfaldaðist að stærð í valdatíð Napóleons. Hins vegar misheppnaðist tilraun hans til að koma á fót nýju mexíkósku keisaradæmi undir stjórn Maximilians 1. í bandalagi við Frakka hrapalega.

Í júlí 1870 lýsti Napóleon stríði á hendur Prússum án nokkurra bandamanna og með mun lakari her en mótherjarnir. Franski herinn hlaut afhroð í stríðinu og Napóleon sjálfur var handsamaður eftir bardaga við Sedan. Keisaradæmið leið undir lok stuttu síðar er þriðja franska lýðveldið var stofnað í París. Napóleon var sendur til Englands í útlegð og endaði þar sína ævidaga árið 1873.

Orðspor

breyta
 
Skopmynd af Napóleon 3. Hér er hann settur í búninginn fræga sem frændi hans klæddist en tekur sig ekki ýkja vel út í honum.

Orðspor Napóleons 3. er mun lakara en orðspor frænda hans. Bæði á meðan hann lifði og eftir daga hans hefur honum yfirleitt verið líkt við lélega skopstælingu á Napóleon Bónaparte, gersneydda hernaðarkænskunni sem gerðu fyrsta keisarann svo frægan. Victor Hugo, einn helsti gagnrýnandi keisarans uppnefndi hann „Napóleon litla“ („Napoléon le petit“) til að greina hann frá frænda hans „Napóleon mikla“ („Napoléon le grand“) í ritgerð sinni um valdatöku hans árið 1852.[1] Karl Marx gerði einnig gys að honum í ritgerð sinni sama ár og sagði um hann: „Hegel sagði einhvers staðar að allar mikilvægar persónur og atburðir í mannkynssögunni birtist tvisvar. Hann gleymdi að bæta við að fyrra skiptið er harmleikur en hið seinna brandari.“[2]

Í endurminningum sínum, skrifuðum árið 1885, gagnrýndi Ulysses S. Grant Bandaríkjaforseti einnig Napóleon 3. og sagði um hann:

 
Frakkland er vinaþjóð og bandamaður Bandaríkjanna. Ég áfelldist Frakkland ekki fyrir tilraun þess til að reisa keisaradæmi á rústum mexíkóska lýðveldisins. Það voru áform eins manns, eftirhermu án hæfileika og mannkosta. Honum hafði tekist að ræna ríkisstjórn lands síns og gerði breytingar á henni þvert gegn óskum og eðli franska fólksins. Hann reyndi að leika hlutverk Napóleons hins fyrsta en án hæfni til þess að leika það hlutverk. Hann reyndi að bæta við landsvæðum í keisaraveldið sitt; en afglöp þessa ráðabruggs urðu einungis forboðinn fyrir falli hans sjálfs. Líkt og borgarastyrjöldin okkar var fransk-prússneska stríðið dýrkeypt, en þó var það Frakklandi þess virði. Það varð endirinn á falli Napóleons 3. Byrjunin varð um leið og hann sendi franska hermenn til heimsálfunnar okkar. Við ósigur hans hér var hróðurinn af nafni hans – eini hróðurinn sem hann átti nokkurn tímann – horfinn. Hann varð því að ná fram sigri eða falla ellegar úr sæti. Hann reyndi að slá til nágranna sinna í Prússlandi – og féll. Ég var aldrei neinn aðdáandi Napóleons fyrsta en ég viðurkenni þó snilld hans. Verk hans urðu til ýmiss góðs í Evrópu. Napóleon þriðji gæti aldrei sagst hafa gert neitt gott né réttlátt.
 
 
— Ulysses S. Grant[3]

Heimild

breyta

Tenglar

breyta

Tilvísanir

breyta
  1. Hugo, Victor, Napoléon le Petit (1852).
  2. Marx, Karl, Le 18 Brumaire de Louis Bonaparte (1852).
  3. Grant, Ulysses S. Personal Memoirs of U. S. Grant. New York: Charles L. Webster & Company, 1885–1886.


Fyrirrennari:
Louis-Eugène Cavaignac
(sem handhafi framkvæmdavaldsins)
Forseti Frakklands
(20. desember 18482. desember 1852)
Eftirmaður:
Hann sjálfur
(sem Frakkakeisari)
Fyrirrennari:
Hann sjálfur
(sem forseti Frakklands)
Frakkakeisari
(2. desember 18524. september 1870)
Eftirmaður:
Adolphe Thiers
(sem forseti Frakklands)