Napóleon 2.
Napoléon François Charles Joseph Bonaparte (20. mars 1811 – 22. júlí 1832) var sonur og arftaki Napóleons Bónaparte Frakkakeisara og annarrar konu hans, Marie-Louise af Austurríki. Sem keisaralegur krónprins hlaut hann heiðurstitilinn konungur Rómar við fæðingu.
Napóleon 2. | |
---|---|
Fæddur | 20. mars 1811 |
Dáinn | 22. júlí 1832 (21 árs) |
Dánarorsök | Berklar |
Trú | Kaþólskur |
Foreldrar | Napóleon Bónaparte & Marie-Louise af Austurríki |
Þegar Napóleon keisari sagði af sér í fyrsta sinn vegna hrakfara sinna í Napóleonsstyrjöldunum árið 1814 fór hann fram á að sonur sinn yrði settur á keisarastól í sinn stað. Ekki var hlustað á þessa kröfu keisarans og bandamennirnir sigursælu settu þess í stað Loðvík 18. af gömlu Bourbon-valdaættinni á konungsstól í Frakklandi. Napóleon var rekinn í útlegð til Elbu en sonur hans, konungur Rómar, varð eftir með móður sinni. Árið 1815, þegar Napóleon sneri aftur á keisarastól í hundrað daga, var sonur hans lýstur ríkiserfingi á ný uns Napóleon sagði aftur af sér eftir orrustuna við Waterloo. Á milli seinni afsagnar Napóleons og endurreisnar Loðvíks 18. á konungsstól ríkti hinn fjögurra ára sonur Napóleons að nafninu til yfir Frakklandi í fimmtán daga sem Napóleon II Frakkakeisari.[1] Franska þjóðþingið lýsti Napóleon II aldrei formlega keisara og hann réð því aldrei formlega yfir Frakklandi. Eftir að Napóleon var sendur í útlegð í annað sinn var sonur hans sendur til Austurríkis. Reynt var að þurrka út tengsl hans við Napóleon og gera hann þýskan fremur en franskan.[2] Hann hlaut titilinn fursti af Parma og hertogi af Reichstadt frá móðurafa sínum, Frans 1. Austurríkiskeisara.
Napóleon II eyddi því sem hann átti eftir ólifað í Austurríki. Það varð mjög kalt á milli Napóleons II og móður hans, Marie-Louise, þegar uppgötvaðist að Marie-Louise hafði gifst og eignast tvö börn með austurríska herforingjanum Adam Albert von Neipperg á meðan Napóleon eldri var enn á lífi. Napóleon II fyrirgaf móður sinni aldrei og lét þau orð falla að „Ef Jósefína hefði verið móðir mín hefði faðir minn ekki verið jarðsettur á Sankti Helenu“.[3] Þar til hann lést úr berklum, þá 21 árs að aldri, var hann viðurkenndur meðal stuðningsmanna Bonaparte-ættarinnar sem réttmætur erfingi krúnunnar í Frakklandi.
Eftir dauða sinn fékk Napóleon II gælunafnið l'Aiglon eða „arnarunginn“. Viðurnefnið varð vinsælt vegna leikritsins L'Aiglon eftir Edmond Rostant. Þegar Louis-Napóleon Bonaparte varð keisari árið 1852 tók hann sér titilinn Napóleon III til að viðurkenna stutta valdatíð frænda síns.[1]
Árið 1940 lét Adolf Hitler flytja kistu Napóleons II til Frakklands sem vináttuvott við Vichy-stjórnina sem þá var tekin við völdum. Hann var jarðsettur í Invalide-hvelfingunni ásamt föður sínum og öðrum meðlimum Bonaparte-ættar árið 1969.[3]
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Napoléon II“ á frönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. október 2017.
Tilvísanir
breyta- ↑ 1,0 1,1 „Bar einhver titilinn Napóleon II?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Konungurinn af Róm“. Vikan. 19. desember 1957. Sótt 31. maí 2019.
- ↑ 3,0 3,1 Hermann Lindqvist (2011). Napóleon. Hið íslenska bókmenntafélag. bls. 604.
Fyrirrennari: Napóleon Bónaparte |
|
Eftirmaður: Loðvík 18. (sem konungur Frakklands) |