Loftur Guttormsson
Loftur ríki Guttormsson (f. um 1375, d. 1432) var íslenskur höfðingi, sýslumaður, hirðstjóri og riddari á 15. öld.
Loftur var af ætt Skarðverja, sonur Guttorms Ormssonar í Þykkvaskógi í Miðdölum, sonar Orms Snorrasonar á Skarði, og konu hans Soffíu, dóttur Eiríks auðga Magnússonar á Svalbarði og Möðruvöllum í Eyjafirði. Loftur átti eldri bróður, Jón, sem bjó í Hvammi í Hvammssveit og var fyrri maður Vatnsfjarðar-Kristínar Björnsdóttur. Jón dó 1403 í Svarta dauða og áttu þau Kristín ekki börn sem upp komust.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Loftur er fæddur en faðir hans var veginn í Snóksdal 26. maí 1381. Talið er að hann hafi verið í útlöndum laust eftir aldamótin 1400, þegar Svartidauði gekk um Ísland, en árið 1406 var hann kominn til Íslands. Árið 1414 virðist hann hafa verið við hirð Eiríks konungs af Pommern og er sagður hafa fengið riddaratign. Hann hafði höggorm í skjaldarmerki sínu. Hann varð hirðstjóri norðan og vestan 1427 og hafði það embætti til dauðadags 1432. Loftur virðist hafa verið vinsæll og friðsamur og notið virðingar. Hann mun hafa verið í vinfengi við Jón Vilhjálmsson Craxton Hólabiskup og var ráðsmaður Hólastóls 1430-1431.
Loftur var einn af auðugustu Íslendingum á sinni tíð, er talinn hafa auðgast mjög á sjávarútvegi og skreiðarútflutningi en erfði líka stórfé, m.a. eftir ættmenni sín sem dóu í Svarta dauða. Hann átti fjöldamargar jarðir og hafði mörg bú en mest dvaldi hann á Möðruvöllum í Eyjafirði, að minnsta kosti síðari hluta ævinnar. Sagt er að hann hafi haldið sig ríkmannlega og riðið með átján til tuttugu sveina á milli stórbúa sinna. Þegar hann lést var auður hans svo mikill að skilgetnir synir hans tveir fengu hvor um sig í arf 11 1/2 hundrað hundraða í fasteignum auk annarra eigna, dæturnar helming á við synina og svo gaf hann fjórum óskilgetnum sonum sínum 9 hundruð hundraða. Í annálum er talið að hann hafi átt 80 jarðir.
Fylgikona Lofts var Kristín Oddsdóttir, dóttir Odds lepps Þórðarsonar lögmanns. Loftur virðist hafa unnað henni mikið og til hennar orti hann ástarkvæði, Háttalykil, en hann var skáld gott þótt fátt sé varðveitt af kveðskap hans. Þar segir meðal annars: Meinendur eru mundar / mínir frændur og þínir, sem líklega þýðir að ættingjar þeirra hafi komið í veg fyrir að þau giftust en ekki er vitað hvers vegna; sennilega hafa þau verið of skyld en ekki vitað hvernig þeim skyldleika var háttað. Synir þeirra voru Ormur Loftsson hirðstjóri norðan og vestan, Skúli í Garpsdal og Sumarliði á Vatnshorni. Loftur átti líka soninn Ólaf, sem bjó á Helgastöðum í Reykjadal og í Reykjahlíð við Mývatn, en ekki er vitað hver móðir hans var.
Kona Lofts var Ingibjörg, dóttir Þorvarðar Pálssonar sýslumanns á Eiðum, og dó hún sama ár og Loftur. Börn þeirra voru Ólöf ríka, Þorvarður ríki á Möðruvöllum, Eiríkur slógnefur á Auðbrekku og Grund í Eyjafirði og Soffía húsfreyja á Meðalfelli.
Heimildir
breyta
Fyrirrennari: Hannes Pálsson Balthazar van Damme |
|
Eftirmaður: Ormur Loftsson |