Skarðverjar eru ætt á Vesturlandi, kennd við bæinn Skarð á Skarðsströnd, og hefur fólk af ættinni búið á Skarði að minnsta kosti frá tólftu öld og hugsanlega allt frá landnámsöld og til dagsins í dag.

Skarðverjar voru alltaf ein helsta ætt landsins en eru þó ekki ein af höfuðættum Sturlungaaldar, enda virðast þeir ekki hafa seilst mikið til valda á þeim tíma. Þeir bjuggu hins vegar á einni mestu hlunnindajörð landsins og söfnuðu auði; Skarðs-Snorri var talinn auðugasti maður vestanlands og lengi fram eftir öldum héldust geysimiklar eignir í ættinni og margir einstaklingar af henni voru í hópi ríkustu manna landsins.

Sá fyrsti af ættinni sem víst er að hafi búið á Skarði var Húnbogi Þorgilsson sem bjó þar á fyrri hluta 12. aldar. Síðan bjó þar sonur hans, Snorri Húnbogason lögsögumaður, þá bræðurnir Þorgils og Narfi Snorrasynir og síðan sonur Narfa, Snorri Narfason sem kallaður var Skarðs-Snorri, sem kemur töluvert við sögu í Sturlungu. Narfi sonur hans bjó á Kolbeinsstöðum en tveir synir Narfa, þeir Þórður og Snorri, bjuggu á Skarði og síðan sonur Snorra, Ormur Snorrason lögmaður. Eftir hann eignaðist sonarsonur hans, Loftur Guttormsson, jörðina og hafði bú þar. Frægastur allra Skarðverja á miðöldum er dóttir hans, Ólöf ríka, sem bjó lengi á Skarði ásamt manni sínum, Birni Þorleifssyni hirðstjóra, og síðan afkomendur þeirra, svo sem Þorleifur Pálsson lögmaður (d. 1558), Eggert ríki Björnsson, sýslumaður á Skarði (1612-1681) og Arnfríður dóttir hans.

Skarðverjar voru líka lengi ein helsta embættismannaætt landsins, voru lögsögumenn, hirðstjórar, lögmenn og sýslumenn mann fram af manni. Margir þeirra voru miklir bókamenn - Þórður Narfason er talinn hafa tekið Sturlungu saman í þeirri mynd sem hún er nú - og tvær af helstu gersemum íslenskra handrita eru kenndar við Skarð, Skarðsbók Jónsbókar og Skarðsbók postulasagna.

Og þegar hann sendi mig heim til Íslands um árið að uppskrifa þá tólftu aldar postulasögu sem á Skarði finst, og þeir skarðverjar ei fyrir gull láta vilja ...
 
— Halldór Laxness: Eldur í Kaupinhafn