Helgastaðir (Reykjadal)
Helgastaðir er bær og kirkjustaður í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Bærinn er landnámsjörð Eyvindar Þorsteinssonar, sem hrakti Náttfara úr landnámi sínu í Reykjadal og settist þar að sjálfur. Sagt er að hann hafi gefið bænum nafn eftir syni sinum sem drukknaði á Grímseyjarsundi.
Í Reykdæla sögu eru nefnd hjónin Háls Fjörleifarson og Helga Granadóttir á Helgastöðum og var sambúð þeirra mjög stormasöm. Helgastaðir koma svo töluvert í sögu við Sturlungu, fyrst þegar segir frá miklum og hörðum deilum um arf eftir Teit Guðmundsson á Helgastöðum. Fyrir tilstilli Guðmundar dýra Þorvaldssonar komust þó á sættir.
Í Helgastaðabardaga um 1220 börðust fylgismenn Guðmundar biskups góða, sem þá var á flakki um Þingeyjarsýslu við litlar vinsældir bænda, og fylgismanna Arnórs Tumasonar og Sturlu Sighvatssonar. Biskupsmenn vörðust í kirkjugarðinum en flúðu svo í kirkju og báðust griða. Og um 1254 kom Eyjólfur ofsi Þorsteinsson í Helgastaði við fimmtánda mann. Tóku þeir bóndann á Helgastöðum, Halldór galpin, og drápu hann í hefndarskyni fyrir að hafa verið með Oddi Þórarinssyni þegar hann handtók Heinrek Hólabiskup og flutti að Flugumýri.
Kirkjan á Helgastöðum var í kaþólskum sið helguð Maríu mey og heilögum Nikulási. Við Helgastaði er kennt handrit sem nefnist Helgastaðabók og er talið skrifað af Bergi Sokkasyni ábóta. Handritið, sem er fagurlega skreytt og er talið frá því um 1400 hefur að geyma Nikulásarsögu. Handritið var eitt sinn í eigu kirkjunnar á Helgastöðum en komst í einkaeign löngu eftir siðaskipti og hafnaði í Stokkhólmi.