Soffía Loftsdóttir

Soffía Loftsdóttir var íslensk hefðarkona á 15. öld, dóttir Lofts ríka Guttormssonar riddara og Ingibjargar Pálsdóttur konu hans og líklega yngst barna þeirra. Hún var alsystir Ólafar ríku.

Loftur Guttormsson gifti fimm barna sinna börnum þeirra Þorleifs Árnasonar, sýslumanns á Auðbrekku í Hörgárdal, í Glaumbæ í Skagafirði og í Vatnsfirði og konu hans, Vatnsfjarðar-Kristínar. Ormur og Skúli, synir Lofts og Kristínar Oddsdóttur fylgikonu hans, giftust Sólveigu og Helgu Þorleifsdætrum, Ólöf Loftsdóttir giftist Birni Þorleifssyni hirðstjóra, Eiríkur slógnefur giftist Guðnýju Þorleifsdóttur og Soffía gekk að eiga Árna Þorleifsson 1434. Hefur hún þá líklega verið mjög ung.

Soffía og Árni áttu soninn Þorleif, sem fæddist um 1437, en Árni dó um 1440. Soffía giftist aftur síðar Bjarna Ívarssyni. Hann var launsonur Ívars hólms Vigfússonar, sem sveinar Jóns Gerrekssonar brenndu inni á Kirkjubóli á Miðnesi 1432. Þau eignuðust einn son sem Ormur hét. Bjarni dó um 1473 og Soffía líklega skömmu síðar en þá var Ormur enn ungur að árum. Margrét Vigfúsdóttir, föðursystir Bjarna og mágkona Soffíu (ekkja Þorvarðar bróður hennar) tók hann að sér og sá um fjárhald hans. Um það og arf eftir Soffíu urðu síðar deilur milli Margrétar og sona Þorleifs, Árna og Teits, síðar lögmanns, en þeir vildu fá fjárráð Orms föðurbróður síns og arf eftir Soffíu ömmu sína.

Heimild breyta

  • „Brúðkaupið mikla á Möðruvöllum 1465. Sunnudagsblað Tímans, 1. október 1967“.