Oddur Þórðarson leppur

Oddur leppur Þórðarson (d. 1443) var íslenskur lögmaður á 15. öld. Hann bjó á Ósi í Bolungarvík, að minnsta kosti síðari hluta ævinnar.

Faðir Odds var Flosi Þórðarson sýslumaður í Snæfellsnessýslu. Skúli bróðir Odds var með Magnúsi konungi Eiríkssyni og fékk hjá honum sýslu og jarðir; hann drukknaði á leið til landsins 1375 og erfði Oddur eignir hans. Oddur hefur vafalaust einnig siglt og telur Jón Sigurðsson að hann hafi haft viðurnefni sitt af Leppinum í Björgvin en einnig er sagt að hann hafi verið kallaður svo af því að hann hafði hvítan lokk í hári.

Odds er fyrst getið á Íslandi 1394. Hann hefur orðið lögmaður sunnan og austan 1406 og gegndi þvi embætti til 1420. Hann þótti harður í lögsögn sinni og er sagt að hann hafi látið taka 28 manns af lífi á lögmannsferli sínum. Árið 1415 gaf Oddur Árna biskupi milda í próventu með sér allar þær jarðir sem hann hafði erft eftir Skúla bróður sinn og hefur líklega hugsað sér að eyða ellinni á biskupsstólnum en þegar Árni fór úr landi 1419 hefur próventugjöfin líklega gengið til baka. Oddur varð háaldraður.

Kona Odds var Þórdís, dóttir Sigurðar Þórðarsonar bónda í Ögri, sem kominn var í beinan karllegg af Sturlu Þórðarsyni sagnaritara. Á meðal barna þeirra voru Guðni bóndi á Hóli í Bolungarvík og Kristín, frilla Lofts Guttormssonar ríka.

Heimildir

breyta


Fyrirrennari:
Narfi Sveinsson
Lögmaður sunnan og austan
(14061420)
Eftirmaður:
Þorsteinn Ólafsson