Landsdómur er sérdómstóll sem gert er ráð fyrir í 14. grein stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands. Hann fer með og dæmir mál sem Alþingi ákveður að höfða gegn ráðherrum út af embættisrekstri þeirra og starfar eftir lögum nr. 3/1963 [1]. Hann er skipaður 15 dómurum. Dómurinn hafði aldrei verið kallaður saman frá stofnun hans árið 1905, en þann 28. september 2010 ákvað Alþingi að ákæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir vanrækslu í starfi og fela Saksóknara Alþingis að sækja málið fyrir Landsdómi.

Ráðherraábyrgð og Landsdómur breyta

Á Íslandi bera ráðherrar, sem æðstu handhafar framkvæmdarvalds, ábyrgð gagnvart Alþingi skv. 14. gr. stjórnarskrárinnar og kallast þessi ábyrgð ráðherraábyrgð. Ráðherraábyrgðin greinist í pólitíska ábyrgð annars vegar og hins vegar lagalega ábyrgð.

Pólitíska ábyrgðin felst í því að ráðherra verður að hafa traust meirihluta þingmanna ellegar getur Alþingi samþykkt vantrauststillögu gegn ráðherranum og neyðist þá ráðherra til að segja af sér.

Lagalega ábyrgðin felst í því að meirihluti Alþingis getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur hans og skal kæran sett fram sem tillaga til þingsályktunar.

Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð ber ráðherra refsiábyrgð í þrenns konar tilvikum[2]:

  • Ef hann brýtur gegn stjórnskipunarlögum landsins (stjórnarskránni)
  • Ef hann brýtur gegn öðrum lögum
  • Ef hann misbeitir stórlega valdi sínu eða framkvæmir nokkuð eða veldur því að framkvæmt sé nokkuð sem stofnar heill ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.

Einungis Landsdómur getur dæmt eftir þessum lögum. Brot gegn lögunum varða embættismissi, sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Dómar Landsdóms eru fullnaðardómar og verður ekki áfrýjað.

Dómarar breyta

Í landsdómi sitja 15 dómendur;

Kjörgengi breyta

Dómendur verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Vera milli þrítugs og sjötugs
  • Vera lög- og fjárráða
  • Hafa óflekkað mannorð
  • Eiga heima á Íslandi
  • Vera ekki alþingismenn eða starfsmenn í stjórnarráðinu.
  • Vera ekki skyldir öðrum dómanda í fyrsta eða annan lið.

Dómendur fá greitt fyrir hvert einstakt mál, skv. 49. gr. laga um Landsdóm.

Aðilar máls breyta

Þegar Alþingi samþykkir í atkvæðagreiðslu þingsályktunartilögu um að ákæra ráðherra er sérstakur saksóknari kosinn. Ákæra er gefinn út á hendur ráðherra og er hún í nafni Landsdóms.

Saga breyta

Fyrstu lögin um Landsdóm voru sett árið 1905. Var lögunum síðan breytt í núverandi horf árið 1963, og fól meginbreytingin í sér að dómendum var fækkað úr 30 í 15. Saga Landsdóms virtist ekki ætla að verða mikið lengri, því öfugt við norrænar hliðstæður hans, hafði hann aldrei verið kallaður saman, fyrr en með ákæru Alþingis á hendur Geir H. Haarde árið 2010. Stöku sinnum hafa komið upp umræður á Alþingi um að breyta skyldi fyrirkomulagi Landsdóms, og var síðast flutt þingsályktunartillaga árið 2001 sem gekk út á það að skipan dómstólsins skyldi endurskoðuð og hann jafnvel lagður niður.[4] Tillagan fékk ekki afgreiðslu allsherjarnefndar og dagaði því uppi.

Í kjölfar bankahrunsins breyta

Í kjölfar bankahrunsins á Íslandi haustið 2008 var skipuð rannsóknarnefnd Alþingis sem með niðurstöðum sínum sem birtar voru í apríl 2010 komst að því að íslenskir ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu í starfi í aðdraganda hrunsins. Meirihluti þingmannanefndar sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komst að þeirri niðurstöðu þann 11. september 2010 að kæra bæri fjóra ráðherra fyrir Landsdómi. 28. september samþykkti Alþingi að kæra Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, en aðra ráðherra ekki. Þeir voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni M. Mathiesen og Björgvin G. Sigurðsson. Ákæruatriði Saksóknara Alþingis á hendur Geir Haarde hefst með orðunum „fyrir brot framin ásetningi eða stórkostlegt hirðuleysi í embættisfærslu hans sem forsætisráðherra“ [5]

Í ljósi þess að Landsdómur hefur ekki áður verið kallaður saman og engum fordæmum til að dreifa er margt óljóst varðandi áframhaldið. Vilhjálmur Egilsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, hefur til að mynda áhyggjur af því að sakfelling hefði það í för með sér að íslenska ríkið yrði skaðabótaskylt gagnvart kröfuhöfum föllnu bankanna sem gæti leitt til þjóðargjaldþrots.[6]

Norrænar hliðstæður breyta

Landsdómur er mótaður að norrænni fyrirmynd, sérstaklega danskri.

Danmörk breyta

Í dönsku stjórnarskránni er gert ráð fyrir dómstól sem oft er sagður fyrirmynd Landsdóms og ber hann heitið Ríkisrétturinn (d. Rigsretten). Hann er skipaður 30 mönnum, 15 dómurum Hæstaréttar Danmerkur og 15 einstaklingum sem kosnir eru af þjóðþingi Dana til sex ára. Líkt og á Íslandi er gert ráð fyrir að þjóðþingið ákæri ráðherra fyrir embættisfærslur hans. Ríkisrétturinn hefur fjórum sinnum verið kallaður saman, síðast árið 1995 í svokölluðu Tamílamáli en þar á undan hafði hann ekki verið kallaður saman síðan 1910.[7] Í skrifum íslenskra fræðimanna er oft talað um að dönsku málin séu gott dæmi um undir hvaða kringumstæðum Landsdómur kynni að vera kallaður saman, enda er Ríkisrétturinn sem fyrr segir líkleg fyrirmynd Landsdómsins.

Tamílamálið breyta

Atvik voru þau, að Erik Ninn-Hansen, dómsmálaráðherra, gaf árið 1987 munnlega skipun um að umsóknum tamílskra flóttamanna frá Sri Lanka um að ættingjar þeirra gætu flutt til þeirra til Danmerkur skyldu ekki afgreidd heldur stungið undir stól. Um var að ræða flóttamenn sem vildu sameinast ættingjum sínum sem bjuggu fyrir í Danmörku og er talið að þessi skipun hans hafi haft áhrif á um 5-6000 flóttamenn.

Skipunin var ólögleg, en það hefði líka verið lögbrot af hálfu embættismanna að fylgja henni ekki. Því hrúguðust umsóknir flóttamannanna upp og voru þær ekki afgreiddar fyrr en 1989, þegar Ninn-Hansen fór frá sem dómsmálaráðherra.

Þegar upp komst um málið sagði ríkisstjórnin af sér og sósíal-demókratar tóku við völdum. Rannsóknarnefnd rannsakaði máið og vegna niðurstöðu hennar var Ninn-Hansen ákærður af danska þinginu árið 1994 fyrir embættisfærslur sínar og dæmdi Ríkisrétturinn hann árið 1995 í fjögurra mánaða fangelsi, en refsing skyldi falla niður héldi hann skilorð í eitt ár. Hann áfrýjaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem vísaði málinu frá.

Noregur breyta

Í norsku stjórnarskránni er sömuleiðis gert ráð fyrir Ríkisrétti (n. Riksretten).[8] Hann er svipaður Landsdómi að því leyti að hann dæmir mál sem löggjafinn höfðar á móti æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins, en fyrir utan það dæmir hann einnig mál sem löggjafinn kann að höfða á móti hæstaréttardómurum og þingmönnum á Stórþinginu (no. Stortinget). Odelstinget, efri deild norska þingsins, fer með ákæruvaldið.

Ríkisrétturinn var mikið notaður á seinni hluta 19. aldar í Noregi til að afnema neitunarvald konungs á lög og tryggja þingræðið. Hann var síðast kallaður saman árið 1927.

Aðrar hliðstæður breyta

  • Löggjafarþing Bandaríkjanna getur ákært dómara Hæstaréttar Bandaríkjanna og ráðherra fyrir landráð, mútuþægni eða önnur afbrot. Öldungadeildin dæmir síðan í málinu.
    • Bill Clinton, fyrrv. forseti Bandaríkjanna, var þannig ákærður 1998 fyrir að hafa sagt ósatt í vitnaleiðslum.
  • Þýska sambandsþingið getur ákært forseta sambandslýðveldisins fyrir að brjóta þýsk lög viljandi. Þýski stjórnlagadómstóllinn (þ. Bundesverfassungsgericht) dæmir í málinu.

Tilvísanir breyta

  1. Lög um landsdóm nr. 3/1963.
  2. Lög um ráðherraábyrgð nr. 4 1963
  3. „Alþingi - Stjórnir, nefndir og ráð kosin af Alþingi“.
  4. Tillaga til þingsályktunar um heildarendurskoðun á lögum um landsdóm., 2. október 2001
  5. „Ákæra Saksóknara Alþingis á hendur Geir Haarde, Reykjavík 10.mai 2011, Sigríður J. Friðjónsdóttir“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 15. desember 2013. Sótt 21. janúar 2012.
  6. Þriðja hrunið? Geymt 16 september 2010 í Wayback Machine, pistill eftir Vilhjálm Egilsson
  7. Tamilsagen, á dönsku wikipedia
  8. Riksretten, á norsku wikipedia

Tenglar breyta

Lög breyta

Annað breyta