Hæstiréttur Íslands

æðsti dómstóll þriggja dómsstiga á Íslandi
(Endurbeint frá Hæstiréttur)

Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll Íslands af þremur dómsstigum, þar sem Landsréttur og Héraðsdómstólarnir eru lægri. Átta dómarar sitja í dómstólnum og eru skipaðir af forseta Íslands samkvæmt tillögum dómsmálaráðherra. Dómstólalög kveða á um að við dómstólinn skuli eiga sæti sjö dómarar en við breytinguna á dómstólaskipan er átti sér stað í upphafi ársins 2018 var ákveðið að fækka reglulegum dómurum réttarins úr níu niður í sjö, án þess þó að víkja sitjandi dómurum. Dómstóllinn er ekki nefndur á nafn í stjórnarskránni en um hann gilda lög um dómstóla nr. 50/2016. Aðsetur Hæstarétts er við Lindargötu 2 í Reykjavík, í húsi sem var sérstaklega byggt fyrir starfsemi hans og tekið í notkun 1996.

Hæstiréttur Íslands

Stofnun Hæstaréttar Íslands

breyta

Aðdragandi að stofnun Hæstaréttar Íslands var all langur og mjög samofinn sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á 19. öld. Ein krafan var að æðsta dómsvald í íslenskum málum yrði flutt inn í landið. Kom þessi krafa um innlent æðsta dómsvald í íslenskum sérmálum fyrst fram á þjóðfundinum 1851. Allan síðari hluta 19. aldar var málinu hreyft aftur og aftur, en náði ekki fram að ganga. Með sambandslögunum frá 1918 fékk Ísland síðan viðurkenningu á fullveldi sínu og tók í sínar hendur bæði framkvæmdar- og löggjafarvaldið. Í 10. gr. þeirra var ákveðið, að Hæstiréttur Danmerkur skyldi hafa á hendi æðsta dómsvald í íslenskum málum, þar til Íslendingar kynnu sjálfir að stofna sinn eigin dómstól. Íslendingar hófust þegar handa um að nýta sér þessa heimild í sambandslögunum. Var prófessor Einari Arnórssyni falið að semja frumvarp til laga um Hæstarétt og var það lagt fyrir Alþingi árið 1919 og samþykkt þar að mestu óbreytt.

Hæstiréttur var stofnaður með lögum árið 1919 og tók til starfa árið 1920. Áður hafði Landsyfirréttur verið æðsti dómstóllinn innanlands, en dómum hans mátti áfrýja til Hæstaréttar Danmerkur í Kaupmannahöfn. Með stofnun Hæstaréttar fluttist lokaorðið í íslenskum dómsmálum heim til Íslands.

Fyrsta setning Hæstaréttar

breyta

Í ræðu sem Sveinn Björnsson, þá málafærslumaður, hélt fyrir hönd lögmanna við fyrstu setningu Hæstaréttar endurspeglast vel hversu þessi atburður var talinn samofinn sjálfstæðisbaráttunni:

Háu dómendur!

Þessi stund mun jafnan talin merkisstund í sögu íslenzku þjóðarinnar. Sú stund er æðstu dómendur í íslenzkum málum taka aftur sæti til dóma á fósturjörð vorri. Þessi atburður, sem hér á sér stað nú í dag, hlýtur að vekja fögnuð í hjörtum allra Íslendinga. Hann er einn af áþreifanlegu vottunum um að vér höfum aftur fengið fullveldi um öll vor mál.”

Í upphafi skipuðu Hæstarétt dómstjóri og 4 meðdómendur, sem skipaðir voru af konungi á ábyrgð ráðherra. Fjöldi dómara hefur verið breytilegur. Síðast var dómurum fjölgað við Hæstarétt árið 1994 og eru þeir nú 9 talsins.

Málflutningur fyrir Hæstarétti var frá upphafi munnlegur. Það var nýlunda hér á landi. Kristján Jónsson, fyrsti forseti réttarins, sem þá var kominn á efri ár, var ekki að öllu leyti sáttur við þetta, enda alls óvanur munnlegum málflutningi. Í endurminningum Sveins Björnssonar kemur fram að hann átti tal við Kristján um munnlegu málfærsluna. Þá átti Kristján að hafa sagt:

„Blessaðir farið nú ekki að halda langar ræður. Þið megið vita, að við byggjum dóm okkar á dómsgjörðum, sem eru skrifaðar. Þar er eitthvað að halda sér að. Hvernig eigum við að muna það sem þið kunnið að segja? Maður freistast til að hlusta ekki á ykkur.”

Síðan þessi orð voru mælt hefur runnið mikið vatn til sjávar og menn eru nú almennt sammála um ágæti munnlegs málflutnings fyrir réttinum. Ætla má þó að enn myndu dómarar réttarins taka undir það heilræði Kristjáns Jónssonar til hæstaréttarlögmanna að halda ekki langar ræður.

Í orðum dr. Þórðar Eyjólfssonar, forseta Hæstaréttar á 25 ára afmæli réttarins 1945, kemur glögglega fram, á hvern hátt hæstaréttardómarar hafa litið starf sitt.

Hann sagði: „En hitt má oss aldrei úr minni falla, að mestar kröfur ber oss að gera til sjálfra vor. Starfi voru fylgir mikil ábyrgð. Þegar mál hefur verið hér sótt og varið og dómur á það lagður, verður þeirri úrlausn ekki síðar haggað. Það má aldrei bregðast, að við hvert mál, smátt sem stórt, sé lögð hin fyllsta alúð og allt gert, sem í voru valdi stendur, er tryggi rétta úrlausn þess samkvæmt landslögum og rétti. Með því móti einu getum vér vænzt þess, að dómstóllinn njóti trausts þjóðarinnar og verði um ókomna tíma vanda sínum vaxinn.”

Á 75 ára afmæli Hæstaréttar var sérstaklega lögð áhersla á fyrir Íslendinga að huga að mikilvægi óháðs dómsvalds og réttaröryggis. Minnst var orða Einars Arnalds, sem var forseti Hæstaréttar á 50 ára afmæli hans.

„Á Hæstarétti hvíla þær skyldur að heiðra þann meginrétt, sem stjórnskipun okkar er reist á. Fjöldi þjóða býr ekki enn við réttaröryggi, en reynsla kynslóðanna kennir, að óháð dómsvald er frumskilyrði þess, að heilbrigt þjóðlíf geti þróazt. Helgustu mannréttindi verða ekki í raun tryggð nema í skjóli sjálfstæðs og óhlutdrægs dómsvalds.”

Bygging hæstaréttar

breyta

Hæstiréttur var fyrst til húsa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg en frá 1949 í dómhúsinu við Lindargötu.

Dómsmálaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að hinu nýja dómhúsi Hæstaréttar við Arnarhól 15. júlí 1994, lagði hornsteininn að byggingunni á 75 ára afmæli dómsins 16. febrúar 1995 og afhenti hana réttinum til afnota 5. september 1996.

Arkitektar hússins eru Margrét Harðardóttir og Steve Christer, Studio Granda, Reykjavík. Teikning þeirra hlaut 1. verðlaun í samkeppni um nýbyggingu fyrir Hæstarétt, sem efnt var til á árinu 1993, en dómnefnd bárust alls 40 tillögur.


Ytri tenglar

breyta