Karl 4. Frakkakonungur

Karl 4. (18./19. júní 12941. febrúar 1328), oft nefndur Karl fagri, var konungur Frakklands og Navarra (sem Karl 1.) og greifi af Champagne frá 1322 til dauðadags. Hann var síðasti konungur Frakklands af Kapet-ætt.

Karl 4. Frakkakonungur.

Karl var þriðji og yngsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu 1. af Navarra. Hann tók við ríkjum þegar Filippus 5. bróðir hans lést í ársbyrjun 1322. Ólíkt honum og raunar einnig föður þeirra er hann álitinn hafa verið fremur íhaldssamur og lítið gefinn fyrir að stuðla að framförum. Hann var þó ágætlega menntaður.

Hjónabönd Karls

breyta

Árið 1308, þegar Karl var 16 ára, giftist hann Blönku, dóttur Ottós 4. greifa af Búrgund, sem þá var tíu ára. Jóhanna systir hennar var þá gift Filippusi bróður hans og Margrét frænka þeirra elsta bróðurnum, Loðvík. Árið 1314 voru þær Blanka og Margrét sakaðar um að hafa drýgt hór með tveimur riddurum og dæmdar í dýflissu þar sem Margrét dó tveimur árum síðar - líklega drepin að skipan manns síns, sem þá var orðinn konungur - en Blanka sat í haldi til 1322, þegar Karl varð konungur. Þá fékk hann hjónaband þeirra gert ógilt og hún var flutt í klaustur þar sem hún dó svo ekki löngu síðar. Jóhanna af Búrgund dróst einnig inn í málið en Filippus maður hennar stóð með henni, öfugt við bræður sína.

Bæði börn Karls og Blönku dóu ung svo að hann þurfti erfingja og því giftist hann Maríu af Lúxemborg, dóttur Hinriks 7. keisara, 21. september 1322. Hún dó af barnsförum 26. mars 1324 og barnið einnig. Ári síðar giftist Karl í þriðja sinn, Jóhönnu d'Évreux, sem var náfrænka hans (feður þeirra voru hálfbræður) og fengu þau páfaleyfi til giftingarinnar.

Stjórnartíð Karls

breyta
 
Stytta Karls 4. í Louvre.

Helsti ráðgjafi Karls framan af stjórnartíð hans var föðurbróðir hans og nafni, Karl af Valois, sem var einnig ráðgjafi Loðvíks bróður hans. Hann stóð sjálfur næstur til ríkiserfða ef Karl 5. eignaðist ekki son.

Óvinsældir Karls fóru vaxandi þegar leið á stjórnartíð hans. Hann þótti fégráðugur og gerði meðal annars upptækar eignir óvina sinna eða manna sem honum var illa við. Hann gerði einnig fjölda gyðinga útlæga úr Frakklandi og eignir þeirra upptækar.

Karl átti í deilum við Játvarð 2. Englandskonung, sem neitaði að votta honum hollustu sína sem lénsherra vegna Akvitaníu. Árið 1323 kom til stríðs og ári síðar hafði Karl náð Akvitaníu á sitt vald að undanskildum strandhéruðunum. Ísabella systir Karls var gift Játvarði konungi og hann sendi hana til Frakklands 1325 til að semja um frið við bróður sinn en þegar henni tókst að fá Játvarð, elsta son sinn, til sín síðar sama ár neitaði hún að snúa aftur heim og hóf uppreisn í félagi við elskhuga sinn, Roger Mortimer. Hún fékk lán hjá bróður sínum sem hún notaði til að fjármagna málaliðaher og ráðast inn í England. Þar steypti hún manni sínum af stóli og var hann myrtur 1327. Játvarður 3. tók þá við og komst að samkomulagi við Karl, greiddi honum háa fjárhæð og fékk stóran hluta Akvitaníu aftur.

Dauði og erfingjar

breyta

Karl dó 1. febrúar 1328, 33 ára að aldri og varð þó eldri en bræður hans báðir. Hann átti ársgamla dóttur á lífi, Maríu, en drottningin var þunguð og þurfti því að skipa ríkisstjóra ef hún skyldi eignast son. Karl af Valois var þá látinn en Filippus sonur hans stóð næstur til erfða og varð hann ríkisstjóri. Tveimur mánuðum eftir lát Karls eignaðist Jóhanna dóttur sem nefnd var Blanka. Filippus varð þá konungur og var krýndur sem Filippus 6. í maí um vorið. Játvarður 3. Englandskonungur andmælti og sagði að þótt kona gæti ekki erft frönsku krúnuna gæti hún erfst um kvenlegg og sem elsti sonur Ísabellu, systur Karls, væri hann sjálfur réttborinn til arfs. Af þessu spratt deila sem varð kveikjan að Hundrað ára stríðinu.

Filippus 6. erfði hins vegar ekki Navarra. Þar gátu konur erft og Jóhanna, dóttir Loðvíks 10. fékk loksins þann erfðarétt sem hún hafði verið svipt árið 1316, þegar Filippus 5. föðurbróðir hennar tók sér konungsvald í Navarra eftir lát föður hennar.

Heimild

breyta


Fyrirrennari:
Filippus 5.
Konungur Frakklands
(13221328)
Eftirmaður:
Filippus 6.