Ísabella af Frakklandi, Englandsdrottning

Ísabella af Frakklandi (um 129522. ágúst 1358), stundum kölluð Franska úlfynjan, var drottning Englands frá 1308, þegar hún giftist Játvarði 2., og þar til hann var þvingaður til að segja af sér í janúar 1327. Eftir það stýrði hún ríkinu í félagi við elskhuga sinn, Roger Mortimer, þar til Játvarður 3. sonur hennar tók völdin í sínar hendur 1330.

Ísabella drottning. Mynd frá 14. öld.

Uppvöxtur og gifting

breyta

Ísabella var dóttir Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu af Navarra, yngsta barn þeirra sem upp komst og eina dóttirin en þrír eldri bræður hennar urðu allir konungar Frakklands. Ísabella prinsessa var orðlögð fyrir fegurð, eins og raunar bæði faðir hennar, Filippus fagri, og bræður hennar. Hún var líka sögð afar vel gefin, heillandi og átti auðvelt með að fá aðra á sitt mál.

 
Ísabella með foreldrum sínum og bræðrum.

Gengið var frá trúlofun hennar og Játvarðar 1303, þegar hún var líklega átta ára en hann 19 ára, en hjónabandið hafði þó verið ákveðið á meðan hún var enn í vöggu. Þegar Ísabella náði tólf ára aldri, sem var algengur giftingaraldur evrópskra kóngsdætra, var hún send til Englands og þar gengu þau Játvarður í hjónband í janúar 1308. Hann hafði þá tekið við konungdæmi við lát föður síns sumarið áður.

Lífið var ekki auðvelt fyrir hina ungu drottningu. Maður hennar, sem var glæsimenni og mjög vinsæll meðal þegna sinna í upphafi stjórnartíðar sinnar, hafði ekki mikinn áhuga á henni en þeim mun meira dálæti á vini sínum Piers Gaveston, átti í deilum við aðalsmenn og barðist við Skota. Ísabella spilaði á aðstæður eftir bestu getu, studdi mann sinn og kom sér í vinfengi við Gaveston en eftir að óvinir hans í hópi aðalsmanna myrtu hann versnaði staða hennar.

Hún var með Játvarði í herförinni í Skotlandi þegar Englendingar misstu síðustu ítök sín þar og sluppu konungshjónin þá naumlega undan. Hún ferðaðist líka stundum til Frakklands, með Játvarði eða ein, og sinnti þá oft erindum fyrir mann sinn því hún hafði mjög góð sambönd við frönsku hirðina og var vel að sér um utanríkismál.

Í ferð sem þau Játvarður fóru þangað 1313 gaf hún mágkonum sínum, Margréti af Búrgund, konu Loðvíks, og Blönku af Búrgund, konu Karls, útsaumaðar pyngjur. Við hátíðakvöldverð í London nokkru síðar veitti Ísabella því athygli að tveir normannskir aðalsmenn báru nú þessar buddur og dró hún þá ályktun að mágkonurnar ættu í ástarsambandi við þá. Þegar hún fór aftur til Frakklands 1314 sagði hún Filippusi föður sínum frá þessu og varð það til þess að mágkonurnar tvær (og raunar einnig sú þriðja, Jóhanna af Búrgund, kona Filippusar) voru handteknar og varpað í dýflissu. Þar sátu Margrét og Blanka þar sem þær áttu ólifað en Jóhönnu var sleppt eftir ár og talin sýkn saka. Með þessu bakaði Ísabella sér nokkrar óvinsældir í Frakklandi með.

Despenser-feðgar

breyta
 
Ísabella kemur til Parísar.

Játvarður fann sér svo nýtt uppáhald, Hugh Despenser yngri, en Ísabellu kom illa saman við hann og föður hans, Hugh eldri. Játvarður og Despenser-feðgarnir urðu sömuleiðis sífellt óvinsælli meðal aðalsmanna. Ísabella neitaði að sverja Hugh yngri hollustueið og var í kjölfarið svipt þeim völdum sem hún hafði haft við hirðina. Þegar Játvarður sendi hana til Frakklands 1325 til að gera friðarsamning við Karl bróður hennar greip hún tækifærið þegar Játvarður sendi Játvarð elsta son þeirra til Parísar til að votta Karli hollustu vegna hertogadæmisins Gaskóníu, eins og Ísabella hafði samið um, og tilkynnti manni sínum að hvorugt þeirra sneri aftur fyrr en Despenser-feðgar hefðu verið gerðir brottrækir.

Líklega hefur hún þó alls ekki búist við að Játvarður yrði við því, enda hafði hún þá hafið ástarsamband við enska aðalsmanninn Roger Mortimer, jarl af March, sem var útlagi í París eftir að hafa strokið úr Lundúnaturni 1323. Mortimer, sem var harður andstæðingur konungs og Despenser-feðga, var giftur og tólf barna faðir. Ísabella tók mikla áhættu með þessu ástarsambandi því þótt ekki þætti tiltökumál þótt evrópskir konungar og hefðarmenn á miðöldum tækju sér hjákonur gegndi öðru máli um konur, eins og örlög mágkvenna hennar voru dæmi um. Flest bendir til þess að samband hennar og Mortimers hafi verið mjög ástríðufullt og þau áttu mörg áhugamál sameiginleg.

Innrás drottningarinnar

breyta
 
Ísabella siglir til Englands.

Sumarið 1326 héldu Ísabella og Mortimer norður til greifadæmisins Hainaut (nú í Belgíu og Frakklandi) en kona Vilhjálms 1. greifa þar, Jóhanna af Valois, var frænka hennar, sonardóttir Filippusar 3. Frakkakonungs. Ísabella gerði samkomulag við þau um trúlofun Játvarðar sonar síns og Filippu dóttur þeirra. Hún fékk þegar greiddan vænan heimanmund og hafði áður fengið lán hjá Karli bróður sínum. Þessa peninga notaði hún til að leigja sér málaliða og útvega skip. Síðan sigldu þau Mortimer til Englands 22. september.

Þau voru þó fáliðuð, sumir segja að þau hafi aðeins haft 300 hermenn en fleiri tala þó um 1500. Játvarður hefði átt að eiga auðvelt með að verjast innrásinni, sem hann hafði átt von á, en menn streymdu fljótt til liðs við þau, þar á meðal Tómas jarl af Norfolk, hálfbróðir Játvarðar konungs, og Hinrik Plantagenet, jarl af Lancaster og öflugasti andstæðingur Játvarðar.

Þann 27. september höfðu fregnir af innrásinni borist til London og mikill órói greip um sig í höfuðborginni. Játvarður óttaðist um hag sinn og flúði London 2. október áleiðis til Wales. Þegar þar var komið sögu höfðu Ísabella og Mortimer gert bandalag við alla helstu andstæðinga Játvarðar og náðu þau London auðveldlega á sitt vald. Síðan lét hún lið sitt elta Játvarð og settist um Bristol, þar sem Despenser eldri hafði búið um sig. Hún vann borgina eftir viku umsátur og náði til sín dætrum sínum, Elinóru og Jóhönnu, sem Despenser hafði haft á valdi sínu. Hinrik og Despenser yngri náðust loks í Wales 16. nóvember.

Ríkisstjóri

breyta
 
Despenser eldri tekinn af lífi.

Þar með var öll mótspyrna brotin á bak aftur og Lancastermenn og aðrir óvinir Játvarðs og Despenserfeðga hófu hefndaraðgerðir. Despenser eldri var tekinn af lífi og lík hans höggvið í búta og gefið hundum að éta. Despenser yngri var pyndaður og líflátinn 24. nóvember. En þegar búið var að taka helstu fylgismenn Despenserfeðga af lífi sýndu Ísabella og Mortimer meiri miskunn og margir lægra settir aðalsmenn voru náðaðir. Eftir stóð spurningin um hvað ætti að gera við Játvarð, sem enn var konungur Englangs og eiginmaður Ísabellu.

Úr varð að þingið, þar sem stuðningsmenn Ísabellu og Mortimers voru í meirihluta, samþykkti að fara fram á við konung að hann segði af sér. Ákærurnar voru lesnar yfir honum 20. janúar 1327 og féllst konungur á að afsala sér völdum í hendur Játvarðar sonar síns. Afsögnin var tilkynnt í London 24. janúar. Játvarður var áfram í haldi og er ekki fullljóst hver örlög hans urðu en almennt er þó talið að hann hafi verið drepinn 11. október 1327 að undirlagi Ísabellu og Mortimers, enda gátu þau aldrei verið örugg um sig meðan hann lifði því alltaf var hætta á að einhverjir fylgismanna hans freistuðu þess að frelsa hann og koma honum aftur til valda.

Næstu árin stýrðu Ísabella og Mortimer landinu saman þótt Ísabella teldist ein ríkisstjóri. Þau söfnuðu miklum auði og voru talin ágjörn en eyddu líka miklu og lifðu óhófslífi. Þau sönkuðu að sér löndum og titlum og á örfáum árum varð Ísabella einn stærsti landeigandi í öllu Englandi. Brúðkaup Játvarðar 3. konungs og Filippu af Hainaut var haldið með miklum glæsibrag í London 1228 en Ísabella neitaði að afhenda Filippu jarðeignir sem drottningu Englands var ætlað að hafa tekjur af og hélt þeim fyrir sjálfa sig.

Hún gerði líka samning við Skotakonung um að Játvarður afsalaði sér öllu tilkalli til landa í Skotlandi og viðurkenndi Róbert Bruce sem konung, Jóhanna dóttir Ísabellu skyldi giftast Davíð, syni hans, og landamærin voru einnig fastákveðin. Í staðinn greiddu Skotar Englendingum 20.000 sterlingspund, sem Ísabella stakk raunar í eigin vasa.

Þessi samningur var óvinsæll í Englandi ásamt fleiri ráðstöfunum Ísabellu og Mortimers og þau fóru að missa stuðning aðalsmanna. Í árslok 1328 reis hertoginn af Lancaster upp á móti þeim og borgarastyrjöld hófst að nýju en var þó skammvinn því að Ísabella og Játvarður konungur náðu Lancaster á sitt vald, þyrmdu lífi hans en dæmdu hann til að greiða afar þunga fjársekt. Játmundur af Kent, hálfbróðir Játvarðar 2., hafði stutt Ísabellu þegar hún gerði innrásina en hafði nú snúist á sveif með bróður sínum, sem hann hélt fram að væri á lífi. Árið 1330 var hann handtekinn, sakaður um þátttöku í samsæri, og tekinn af lífi. Aftakan var raunar svo óvinsæl að böðullinn neitaði að mæta og sá eini sem fékkst til að ganga í verkið var sjálfur dauðadæmdur fangi sem vann sér til lífs að hálshöggva jarlinn.

Steypt af stóli

breyta
 
Ísabella á ferðalagi.

Játvarður konungur var þegar hér var komið sögu orðinn sautján ára og mjög ósáttur við þau völd sem Mortimer hafði og við stjórn hans og móður sinnar. Hann aflaði sér stuðnings útvalinna aðalsmanna og kirkjuleiðtoga gegn þeim. Þau voru nú farin að óttast um sinn hag og bjuggu um sig í Nottinghamkastala. Þann 19. október fóru menn hans inn í kastalann um leynigöng, náðu honum á sitt vald og handtóku Mortimer.

Þingið var svo kallað saman og Mortimer ákærður fyrir landráð. Ísabella var útmáluð sem saklaust fórnarlamb og ekkert var minnst á ástarsamband þeirra. Mortimer var tekinn af lífi en Játvarður sýndi honum þá mildi að líkið var ekki hlutað sundur eða stjaksett. Ísabellu var haldið í stofufangelsi til 1332 en þá fekk hún að flytja sig í Rising-kastala í Norfolk sem hún átti sjálf.

Hún var svipt meirihluta landareigna sinna en Játvarður sá henni fyrir rausnarlegum lífeyri og hún lifði munaðarlífi. Hún hélt mikið upp á barnabörn sin, einkum þó Játvarð svarta prins, elsta son Játvarðs 3., sem hún arfleiddi að mestöllum eignum sínum. Hún varð mjög trúuð með aldrinum og ferðaðist oft um og heimsótti helga staði. Hún hélt þó sambandi sínu við hirðina, kom þangað stundum og fékk mikið af heimsóknum.

Ísabella dó 22. ágúst 1358 og var jarðsungin í London. Þau Játvarður höfðu átt fjögur börn, Játvarð 3., Jóhann jarl af Cornwall, sem dó tvítugur 1336, Elinóru, sem giftist Reinoud svarta, greifa af Gelderland (nú í Hollandi að mestu) og Jóhönnu, fyrri konu Davíðs 2. Skotakonungs. Með Mortimer átti Ísabella engin börn.

Mikið hefur verið skrifað um Ísabellu drottningu, bæði sagnfræðirit og sögulegar skáldsögur, og hefur hún fengið afar misjöfn eftirmæli. Oft er hún sýnd sem fagurt en slóttugt flærðarkvendi, jafnvel sem morðóður hommahatari sem hefur það sem meginmarkmið að tortíma manni sínum og elskhugum hans. Í öðrum verkum er hún þó sýnd í annarri og mun jákvæðari mynd.

Heimildir

breyta