Filippus 6. Frakkakonungur
Filippus 6. 1293 – 22. ágúst 1350), kallaður Filippus heppni (franska: le Fortuné) var konungur Frakklands frá 1328 til dauðadags, fyrsti konungur landsins af Valois-ætt, sem var hliðargrein Kapet-ættar. Á ríkisstjórnarárum hans hófst Hundrað ára stríðið, en helsta undirrót þess var deilur um erfðatilkall til frönsku krúnunnar.
Ríkiserfðir
breytaFilippus var elsti sonur Karls greifa af Valois, sem var sonur Filippusar 3. Frakkakonungs og yngri bróðir Filippusar 4. Móðir hans var fyrsta kona Karls greifa, Margrét af Anjou, og erfði Filippus greifadæmin Valois, Anjou og Maine eftir foreldra sína.
Karl greifi var mjög metnaðargjarn og dreymdi alla ævi um að verða konungur einhvers ríkis en það tókst aldrei. Rúmum tveimur árum eftir lát hans varð sonur hans þó konungur Frakklands. Þrír synir Filippusar 4. frænda hans höfðu orðið konungar hver eftir annan en enginn þeirra eignaðist son sem lifði og stúlkur áttu samkvæmt hefð ekki erfðarétt að frönsku krúnunni þótt raunar væru á þeim tíma engin lagaákvæði í gildi þar að lútandi. Þegar sá yngsti, Karl konungur 4., lést 1. febrúar 1328 var drottning hans þó barnshafandi og þurfti Filippus að bíða átekta þar til barnið fæddist tveimur mánuðum síðar, en þegar það reyndist vera stúlka varð hann konungur.
Filippus var þó ekki einn um að gera tilkall til krúnunnar, því systir Karls 4., Ísabella Englandsdrottning, hélt fram erfðarétti Játvarðar sonar síns. Franskir aðalsmenn studdu þó Filippus og hann var krýndur í Reims 29. maí 1328. Filippus átti aftur á móti engan erfðarétt að krúnu Navarra, sem Frakkakonungar höfðu haft í 50 ár sem erfingjar Jóhönnu 1. Navarradrottningar, og hún féll í skaut Jóhönnu, dóttur Loðvíks 10., þar sem konur gátu erft ríki í Navarra.
Upphaf hundrað ára stríðsins
breytaFyrstu ríkisár Filippusar var allt með kyrrum kjörum á milli hans og Játvarðar 3. og þeir lögðu á ráðin um að fara saman í krossferð árið 1332 en af því varð þó ekki. Þeir deildu þó um hertogadæmið Akvitaníu, sem var lén Játvarðar en laut Frakkakonungi, og árið 1334 veitti Filippus hinum landflótta Skotakonungi, Davíð 2., hæli og það líkaði Játvarði illa.
Upp úr sauð svo 1337 þegar Játvarður veitti Róbert 3. af Artois hæli. Hann hafði áður verið einn helsti ráðgjafi Filippusar en gerðist sekur um skjalafals og slapp naumlega undan refsivendi Filippusar. Játvarður gerði hann að jarli og heiðraði hann á ýmsan hátt og fyrir það lýsti Filippus því yfir 24. maí 1337 að Játvarður hefði fyrirgert rétti sínum til lénsins Akvitaníu. Þar með hófst Hundrað ára stríðið.
Filippus stóð vel í upphafi. Frakkland var fjölmennara og auðugra en England og liði Frakka veitti betur í byrjun. Þeir gerðu strandhögg víða á suður- og suðausturströnd Englands, bjuggu sig undir innrás og fóru að safna saman flota við Sluys en í júní 1340 réðust Englendingar á höfnina og hertóku eða eyðilögðu skipin þar.
Á landi var aðallega barist í Flæmingjalandi og Niðurlöndum, þar sem Játvarður hafði aflað sér margra bandamanna en hann hafði þröng fjárráð og þurfti tvívegis að láta undan síga og halda heim til Englands til að reyna að afla meiri fjármuna til hernaðar. Árið 1341 hófst erfðastríð í Bretagne á milli Jóhanns de Montfort og Karls af Blois; Játvarður notfærði sér það, studdi de Montfort og kom liði sínu fyrir í Bretagne. Það bætti stöðu hans en Filippus hafði þó enn yfirhöndina og hafnaði boði um friðarsamkomulag 1343.
Frakkar fara halloka
breytaÁrið 1345 unnu Englendingar nokkra sigra en Frakkar gerðu gagnárásir 1346. Játvarður hélt þá öllum að óvörum til Normandí og fór ránshendi um héraðið. Loks kom til mikillar orrustu við Crécy, þar sem herlið Frakka beið mikið afhroð og sjálfur komst Filippus naumlega undan. Englendingar settust svo um Calais, Filippus reyndi að koma borgarbúum til hjálpar sumarið 1346 en það tókst ekki og í ágúst hörfaði hann undan og borgin gafst upp skömmu síðar.
Staða Filippusar var nú gjörbreytt og vegna fjárskorts varð hann að láta af áformum um gagnárás og innrás í England. Og árið 1348 barst Svarti dauði til Frakklands og felldi þriðjung íbúanna á næstu árum. Vegna skorts á vinnuafli varð verðbólga í landinu og konungur reyndi að festa verðlag en það gerði illt verra. Ekki bætti úr skák að konungur, sem var nýorðinn ekkjumaður, hreifst af heitmey sonar síns og giftist henni sjálfur. Með því bakaði hann sér óvild sonar síns og margra höfðingja.
Fjölskylda og dauði
breytaFilippus giftist fyrri konu sinni, Jóhönnu höltu, í júlí 1313. Hún var dóttir Róberts 2., hertoga af Búrgund, og Agnesar, yngstu dóttur Loðvíks 9. Jóhanna var gáfuð og viljasterk og stýrði landinu af festu þegar maður hennar var fjarri í hernaðarleiðöngrum sínum. Raunar var sagt að hún væri hinn raunverulegi stjórnandi landsins, líka þegar hann væri á staðnum. Af börnum þeirra lifðu tveir synir til fullorðinsára, Jóhann 2. Frakkakonungur og Filippus hertogi af Orléans.
Jóhanna dó í Svarta dauða, 12. september 1348. Ári síðar missti Jóhann krónprins konu sína en bað stuttu síðar Blönku af Navarra, dóttur Jóhönnu 2. og Filippusar 3. af Navarra, sem sögð var fegursta prinsessa síns tíma. Af hjónabandi þeirra varð þó ekki því Filippus giftist henni sjálfur 11. janúar 1350. Hún var þá 18 ára en hann 38 árum eldri. Hjónabandið varð þó skammvinnt, konungur dó 22. ágúst sama ár og var sagt að hann hefði ofreynt sig í hjónasænginni. Réttum níu mánuðum eftir lát hans ól Blanka dóttur sem nefnd var Jóhanna, en hún dó um tvítugt á leið í eigið brúðkaup.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Philip VI of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 10. maí 2011.
Fyrirrennari: Karl 4. |
|
Eftirmaður: Jóhann 2. |