Karl hertogi af Orléans

(Endurbeint frá Karl af Valois)

Karl af Valois (24. nóvember 13945. janúar 1465) var hertogi af Orléans frá 1407 til dauðadags og einnig hertogi af Valois, greifi af Beaumont-sur-Oise og Blois og erfði Asti á Ítalíu eftir móður sína. Hann var jafnframt ljóðskáld og orti flest ljóða sinna á meðan hann var fangi eða gísl í Englandi í nær aldarfjórðung.

Karl hertogi af Orléans.

Barátta við Búrgundarhertoga

breyta

Karl var sonur Loðvíks 1. hertoga af Orléans, yngri bróður Karls 6. Frakkakonungs, og konu hans Valentinu Visconti, dóttur Gian Galeazzo Visconti, hertoga af Mílanó. Faðir hans var myrtur á götu í París árið 1407 að undirlagi Jóhanns óttalausa, hertoga af Búrgund, en þeir frændurnir tókust á um völdin í Frakklandi þar sem Karl konungur var sjúkur á geði og oft algjörlega ófær um að stjórna. Valentina hertogaynja tók morð manns síns afar nærri sér og lést ári síðar. Á banasænginni lét hún Karl og yngri bræður hans sverja þess eið að hefna föður síns en Jóhann óttalausi hafði ekki verið látinn sæta neinni refsingu þótt hann játaði fúslega að standa á bak við morðið á Loðvík.

Karl hafði verið látinn giftast frænku sinni, Ísabellu af Valois, ekkju Ríkharðs 2. Englandskonungs, 29. júní 1406 þegar hann var aðeins ellefu ára en hún sextán. Ísabella ól hinum unga eiginmanni sínum dóttur 13. september 1409 en dó af barnsförum sama dag. Tæpu ári síðar giftist hinn fimmtán ára ekkjumaður annarri konu sinni, Bonne af Armagnac, dóttur Bernharðs 7. greifa af Armagnac, og í tengdaföður sínum fann hann öflugan bandamann gegn Jóhanni hertoga af Búrgund og Filippusi syni hans og það svo að fylgjendur Karls í innanlandsátökunum í Frakklandi voru kallaðir Armaníakar.

Gísl í 24 ár

breyta

Karl tók þátt í orrustunni við Agincourt 25. október 1415, særðist þar og var tekinn höndum og fluttur til Englands sem gísl. Þar var hann hafður í haldi á ýmsum stöðum næstu 24 árin en var þó aldrei eiginlegur fangi og gat að mestu lifað því lífi sem hann var vanur. Hann hafði þó aldrei kost á að kaupa sig lausan því að Hinrik 5. Englandskonungur hafði mælt svo fyrir að honum mætti ekki sleppa úr haldi; það var vegna þess að Karl var leiðtogi Armaníaka og var í erfðaröðinni að frönsku krúnunni og því talinn of mikilvægur gísl til að hleypa honum aftur heim. Yngri bróðir hans, Jóhann greifi af Angouléme, var þó enn lengur í haldi því hann var handsamaður 1412 og ekki látinn laus fyrr en 1444.

Karl orti mikið á þessum árum og hafa yfir fimm hundruð kvæði hans varðveist. Sum þeirra eru einnig til í enskri þýðingu frá sama tíma og er yfirleitt talið að Karl hafi sjálfur þýtt þau, enda er sagt að þegar hann sneri loks aftur hafi hann talað betri ensku en frönsku.

Heimkoma

breyta

Árið 1440 tókst fyrrum fjandmönnum Karls, Filippusi góða, hertoga af Búrgund, og konu hans Ísabellu af Portúgal, að fá hann leystan úr haldi og voru mikil hátíðahöld í Orléans þegar hertoginn sneri aftur. Bonne eiginkona hans var þá látin fyrir nokkrum árum og höfðu þau ekki átt barn saman. Dóttirin Jóhanna, sem hann hafði eignast með fyrstu konu sinni, var líka látin og hafði ekki átt barn svo að Karl þurfti að eignast erfingja. Skömmu eftir heimkomuna, 27. nóvember 1440, giftist hann Maríu af Cleves, sem var nýorðin 14 ára og því 32 árum yngri en hann. Hún var dóttir Adolfs 1. hertoga af Cleves og Maríu af Búrgund, systur Filippusar góða. Það liðu þó sautján ár þar til þeim varð barna auðið en alls eignuðust þau þrjú börn, tvær dætur og Loðvík, sem óvænt varð konungur Frakklands árið 1498. Faðir hans var 67 ára þegar einkasonurinn fæddist og dó hálfu þriðja ári síðar.

Heimildir

breyta