Játvarður 2. (25. apríl 128421. september 1327 (?)) var konungur Englands frá því að faðir hans dó 7. júlí 1307 af Plantagenetætt og þar til hann var neyddur til að segja af sér 24. janúar 1327. Örlög hans eftir það eru óviss.

Játvarður 2. Mynd í handriti frá 14. öld.

Prins af Wales breyta

 
Játvarður 2. með föður sínum.

Játvarður var sonur Játvarðar 1. Englandskonungs og fyrri konu hans, Elinóru af Kastilíu, yngstur af sextán börnum þeirra og eini sonurinn sem komst upp. Hann átti þó tvo yngri hálfbræður sem náðu fullorðinsaldri. Hann fæddist í bráðabirgðahúsnæði í Caernarfon-kastala í Wales en þangað hafði móðir hans fylgt föður hans þegar hann var að láta reisa kastalann. Hann var fyrsti enski prinsinn sem fékk titilinn prins af Wales og var það samþykkt af enska þinginu 7. febrúar 1301.

Faðir hans þjálfaði hann í hernaðarfræðum og stjórnvísi frá unga aldri en hann hafði takmarkaðan áhuga. Játvarður var stór og sterklegur eins og faðir hans en skorti metnað og drifkraft Játvarðar 1. Hann hafði mestan áhuga á skemmtunum en einnig á íþróttum. Sagt er að hann hafi skort sjálfstraust og því oft látið stjórnast af mönnum sem voru viljasterkari en hann sjálfur. Hann fékk hins vegar snemma orð á sig fyrir munaðarlifnað. Konungurinn kenndi um áhrifum frá vini Játvarðar, gaskónska riddaranum Piers Gaveston, og rak hann frá hirðinni.

Konungur og Gaveston breyta

 
Skjalið þar sem Gaveston er skipaður jarl af Cornwall.

Játvarður 1. lést í herför til Skotlands sumarið 1307 og Játvarður 2. tók þá við. Eitt fyrsta verk hans var að kalla Gaveston til sín að nýju. Hann setti hann meira að segja ríkisstjóra Englands þegar hann ferðaðist til Frakklands í ársbyrjun 1308, þar sem hann gekk að eiga Ísabellu af Frakklandi, dóttur Filippusar 4., þann 25. janúar. Hún var þá líklega tólf ára að aldri. Hjónabandið var ekki hamingjusamt; Játvarður sinnti Ísabellu lítið en eyddi þeim mun meiri tíma með vinum sínum. Þó eignuðust þau tvo syni og tvær dætur, auk þess sem Játvarður átti óskilgetinn son.

Samband Játvarðar og Gaveston var mjög náið en ekki er alveg ljóst hvers eðlis það var þótt yfirleitt sé talið að Játvarður hafi verið samkynhneigður eða tvíkynhneigður. Svo mikið er víst að samtímanenn álitu samband þeirra ósiðlegt og Ísabella drottning kvartaði undan því í bréfum til föður síns. Gaveston var glæsimenni, nokkrum árum eldri en Játvarður, greindur og orðheppinn og Játvarður hlóð á hann metorðum, útnefndi hann til að mynda jarl af Cornwall.

Margir aðalsmenn voru mjög óánægðir með þau miklu áhrif sem Gaveston hafði á konunginn og hófu að vinna gegn honum. Játvarður fékk ekki rönd við reist þegar Gaveston var handtekinn árið 1312 samkvæmt skipun Thomas Plantagenet, jarls af Lancaster og frænda konungs, og síðan myrtur. Konungur syrgði vin sinn ákaflega en fékk brátt um annað að hugsa.

Orrustan við Bannockburn breyta

 
Orrustan við Bannockburn. Mynd úr Biblíuhandriti frá 14. öld.

Á fyrstu ríkisstjórnarárum Játvarðar hélt Róbert Bruce áfram að vinna Skotland til baka úr höndum Englendinga. Játvarður fór eða lét fara nokkrar herferðir norður til Skotlands en sérhverri þeirra lauk með því að hann tapaði meira af landvinningum föður síns; hann átti engin svör við skæruhernaðaraðferðum Róberts. Í júní 1314 var ekkert eftir af Skotlandi í höndum Englendinga nema Stirlingkastali.

Kastalinn var undir stöðugu umsátri og Játvarður hélt norður á bóginn með 20.000 fótgönguliða og 3000 manna riddaralið til að reyna að hrekja Skota burt og tryggja varnir kastalans. Vegna herstjórnarmistaka hans og snjallra herbragða Róberts biðu Englendingar afhroð í orrustunni við Bannockburn 24. júní og er það talinn hafa verið mesti ósigur þeirra síðan í orrustunni við Hastings 1066. Næstu árin eftir orrustuna var Játvarður konungur afskiptalítill um stjórn landsins og frændi hans, jarlinn af Lancaster, réði mestu.

Despenserfeðgar breyta

Svo fór þó að aðalsmaðurinn Hugh Despenser yngri komst í uppáhald hjá konungi og náði þeirri stöðu sem Gaveston hafði áður haft en jarlinn af Lancaster var settur til hliðar. Kona Despensers var systurdóttir konungs og systir hans hafði verið gift Galveston. Aðalsmenn voru óánægðir með þau völd sem Despenser og faðir hans, Hugh Despenser eldri, fengu í sínar hendur og árið 1320 var ástandið í Englandi orðið mjög ótryggt og konungurinn óvinsæll. Hann var neyddur til samkomulags við aðalsmennina og til að reka Despenser-feðgana frá hirðinni. Þá upphófst mikil valdabarátta meðal aðalsmanna sem snerist um að fylla tómarúmið sem feðgarnir skildu eftir sig og margir aðalsmenn voru myrtir.

Keppnin um hylli konungs varð til þess að Játvarður og Despenser-feðgar náðu öllum völdum í sínar hendur og á þingi sem haldið var í York 1322 gaf Játvarður út yfirlýsingu þar sem allar ráðstafanir sem gerðar höfðu verið til að draga úr völdum hans voru ógiltar, svo að hann yrði ekki lengur háður vilja þingsins, heldur skyldi hann einráður. Andstæðingum konungs óx þó fiskur um hrygg að nýju og var jarlinn af Lancaster þar fremstur í flokki.

Uppreisn drottningar breyta

 
Játvarður konungur handtekinn.

Játvarður átti í deilu við Karl 4. Frakkakonung, mág sinn (þrír bræður Ísabellu voru konungar Frakklands, hver af öðrum), þar sem hann neitaði að votta konungi hollustu sem lénsmaður hans og hertogi af Gaskóníu, eina héraðinu sem Englandskonungur réði enn á meginlandinu. Að lokum sendi Játvarður Ísabellu drottningu til að semja um frið við Karl. Hún greip færið fegins hendi því hún gat bæði heimsótt fjölskyldu og föðurland og verið laus við eiginmann sinn og Despenser-feðgana um tíma en henni var orðið meinilla við hana alla. Hún undirritaði friðarsamning 31. maí 1325 og var hann Frökkum í vil. Þar var því heitið að Játvarður kæmi og vottaði Karli konungi hollustu en Játvarður sendi Játvarð, eldri son sinn, sem þá var þrettán ára, í staðinn.

Það reyndust mikil mistök því Ísabella lýsti því nú yfir að hvorki hún né Játvarður yngri kæmu aftur til Englands fyrr en Despenser-feðgar hefðu verið sviptir völdum. Hún sendi svo fylgdarmenn sína, sem voru hliðhollir Játvarði, heim. Þeir komu til Englands 23. desember og upplýstu þá að Ísabella væri komin í ástarsamband við enska aðalsmanninn Roger Mortimer og væru þau að skipuleggja innrás í England. Játvarður bjó sig undir innrásina en reyndist njóta lítils stuðnings.

Í september 1326 gerðu Ísabella drottning og Mortimer innrás. Þau voru fáliðuð en brátt dreif að þeim mikið lið og fáir vildu berjast fyrir konunginn. Játvarður og Despenser-feðgar flúðu frá London 2. október og skildu borgina eftir stjórnlausa. Konungurinn flúði til suðurhluta Wales, þar sem Despenser-feðgar áttu land, en þeim tókst ekki að skera upp herör og flestir þjónar hans yfirgáfu hann 31. október.

Afsögn og dauði breyta

Fáeinum dögum áður, 27. október, hafði Hugh Despenser eldri verið hengdur og afhöfðaður í Bristol. Þann 16. nóvember féllu konungurinn og Despenser yngri svo í hendur velskra uppreisnarmanna. Þeir sendu Despenser til Ísabellu drottningar en seldu konunginn í hendur jarlinum af Lancaster. Despenser yngri var pyndaður og líflátinn að viðstöddum miklum mannfjölda, þar á meðal Ísabellu drottningu og Roger Mortimer, en konungur var hafður í haldi í Kenilworth-kastala.

 
Játvarður 2., koparstunga frá 18. öld. Neðri myndin sýnir morð hans.

Vandmál Ísabellu drottningar og elskhuga hennar var hvað ætti að gera við hann. Einfaldast hefði verið að láta taka hann af lífi og þá varð Játvarður sonur hans sjálfkrafa konungur en honum gátu móðir hans og Mortimer ráðið yfir vegna æsku hans. Hins vegar var talið óvíst að Játvarður konungur hefði brotið nægilega mikið af sér til að unnt væri að dæma hann löglega til dauða. Því varð að ráði að hann skyldi hafður í varðhaldi til dauðadags. Vandamálið var þó að konungsvaldið var enn í höndum hans lögformlega þótt drottningin stýrði landinu.

Því var ákveðið að leggja málið í hendur þingsins og eftir miklar umræður var samþykkt að konungurinn skyldi láta af völdum. Hann var þó ekki settur af, heldur farið fram á að hann segði af sér. Ákærurnar voru lesnar yfir honum 20. janúar 1327 og var hann meðal annars sakaður um vanhæfi, að hafa látið aðra stjórna sér, að stunda athæfi sem ekki sæmdi konungi, að hafa tapað Skotlandi vegna lélegrar stjórnar, að hafa valdið kirkjunni skaða, að hafa látið óátalið að aðalsmenn væru drepnir, sviptir eignum, fangelsaðir eða reknir í útlegð og að hafa flúið í félagsskap við þekktan óvin ríkisns og skilið landið eftir stjórnlaust. Játvarður tók ákærurnar mjög nærri sér og grét á meðan þær voru lesnar. Hann féllst á að afsala sér völdum í hendur sonar síns. Afsögnin var tilkynnt í London 24. janúar.

Játvarður 2. var áfram í haldi en var færður í Berkeley-kastala í Gloucestershire. Þar er talið að sendimaður Ísabellu og Mortimers hafi myrt hann 11. október 1327 og segir sagan að glóandi járni hafi verið stungið upp í endaþarm hans. Um það er þó ekkert vitað með vissu og því hefur einnig verið haldið fram að hann hafi lifað að minnsta kosti til 1330, jafnvel að hann hafi verið sendur í útlegð og dáið á Ítalíu um 1341. Játvarður sonur hans var þó ekki í vafa um örlög föður síns því þegar hann varð sjálfráða og tók við stjórn ríkisins árið 1330 lét hann taka Roger Mortimer af lífi fyrir landráð; eitt helsta sakarefnið var morðið á Játvarði 2. Hann hlífði hins vegar Ísabellu móður sinni.

Játvarður og Ísabella áttu sem fyrr segir fjögur börn, Játvarð 3., Jóhann jarl af Cornwall, sem dó tvítugur 1336, Elinóru, sem giftist Reinoud svarta, greifa af Gelderland (nú í Hollandi að mestu) og Jóhönnu, fyrri konu Davíðs 2. Skotakonungs.

Heimildir breyta


Fyrirrennari:
Játvarður 1.
Konungur Englands
(1307 – 1327)
Eftirmaður:
Játvarður 3.