Konungsríkið Navarra

Konungsríkið Navarra (líka þekkt sem Konungsríkið Pamplóna) er talið hafa þróast út frá héraðinu Pamplóna á Norður-Spáni og Suður-Frakklandi þegar leiðtogi Baska, Íñigo 1. Íñiguez Arista, var kjörinn konungur þar 824 og gerði uppreisn gegn Frönkum.

Pýreneaskagi árið 1030, þegar Navarra (gulbrúna svæðið efst í miðju) var stærst (múslimaríkið er grænt á kortinu).

Á tímum Rómverja bjuggu Vaskónar á þessu svæði og voru þeir forfeður Baska. Þeim tókst að halda tungu sinni og siðum og hvorki VísigotumMárum tókst að ná þeim fullkomlega á sitt vald. Árið 778 unnu Baskar frægan sigur á her Franka í orrustunni í Rocevaux-skarði, eða Rúnsivalsbardaga, eins og hann kallast í Rólandskvæði.

Um hálfri öld seinna var höfðinginn Iñigo Arista kjörinn konungur Pamplona og var það fyrsti vísirinn að konungsríkinu Navarra, sem náði síðan hátindi sínum á valdaskeiði Sanchos 3. Navarrakonungs eða Sanchos mikla, sem var frá því um 1000 til 1035. Þá náði ríkið yfir allt núverandi Navarrahérað, Baskaland (þar næst vestan við) og Rioja-hérað, auk svæða sem nú tilheyra Kantabríu, Kastilíu og Aragóníu. Eftir hans dag skiptist Navarra á milli sona hans og varð aldrei aftur jafnstórt og öflugt.

Skjaldarmerki Navarra frá 1212 og núverandi skjaldarmerki franska héraðsins Lægri-Navarra og (með kórónu) spænska sjálfstjórnarhéraðsins Navarra.

Á árunum 1076-1134 var landið í konungssambandi við Aragóníu og stjórnað þaðan. Garcia Ramirez, dóttursonur El Cid og afkomandi launsonar Sanchos 3., endurreisti svo konungsríkið Navarra 1134. Raunar var það fyrst þá sem nafnið Navarra kom fram; áður var talað um konungsríkið Pamplona í heimildum þótt nú sé Navarra-nafnið alltaf notað.

Sonur Garcia Ramirez var Sancho 6., vel menntaður og hæfur konungur sem styrkti ríkið mjög og tapaði aldrei orrustu. Hann stofnaði höfuðborgir Baska, Vitoria-Gasteiz og San Sebastian. Dóttir hans var Berengaría Englandsdrottning, kona Ríkharðs ljónshjarta. Bróðir hennar, Sancho 7. (Sancho sterki) varð konungur eftir föður sinn. Hann tapaði vesturhluta ríkisins í hendur Alfons 8. Kastilíukonungs en átti aftur á móti stóran þátt í sigri bandalags kristnu ríkjanna á Spáni á En-Nasir kalífa í orrustunni við Las Navas de Tolosa árið 1212, en eftir hana skrapp ríki múslima á Pýreneaskaga ört saman.

Sancho sterki var barnlaus og systursonur hans, Teóbald af Champagne, erfði krúnuna. Þar með styrktust mjög tengsl Navarra við Frakkland og Frakkakonunga. Sonardóttir hans, Jóhanna, erfði ríkið þegar hún var barn að aldri. Hún giftist Filippusi 4. Frakkakonungi og var Navarra í ríkjasambandi við Frakkland frá 1276-1328 en þá skildi leiðir því sonardóttir Jóhönnu, Jóhanna 2., sem ekki átti erfðarétt að frönsku krúnunni, varð þá drottning Navarra og síðan ríktu afkomendur hennar þar.

Árið 1512 hertók Ferdínand Aragóníukonungur þann hluta Navarra sem var sunnan Pýreneafjalla, Efri-Navarra, og innlimaði hann í konungsríkið Spán ári síðar. Konungsfjölskyldan hraktist norður yfir Pýreneafjöll. Lægri-Navarra (franska: Basse-Navarre) eða sá hluti Navarra sem var norðan fjallanna var áfram sjálfstætt konungsríki sem var að vísu örsmátt en konungar þar áttu stór lén í Frakklandi og ríkið var því heldur öflugra en stærðin benti til. Aðalaðsetur konungsfjölskyldunnar var í Pau í Béarn-héraði, sem var þar næst fyrir austan og tilheyrði Navarrakonungum.

Navarra hélt sjálfstæði út öldina en gekk í ríkjasamband við Frakkland þegar konungurinn, Hinrik 3., varð konungur Frakklands sem Hinrik 4. og taldist svo til Frakklands eftir 1620. Það var þó ekki fyrr en í frönsku byltingunni, þegar Loðvík 16. var tekinn af lífi, sem titillinn „konungur Frakklands og Navarra“ féll niður.

Tengt efni

breyta

Heimild

breyta