Filippus 5. Frakkakonungur

Filippus 5. (12923. janúar 1322) eða Filippus hávaxni var konungur Frakklands og Navarra (sem Filippus 2.) og greifi af Champagne frá 1316 til dauðadags. Hann var í miðið af þremur bræðrum sem allir urðu konungar Frakklands. Hefur hann verið talinn hæfastur þeirra á konungsstóli og er sagður hafa verið vel gefinn og snjall stjórnandi, enda var hann almennt nokkuð vel liðinn þótt hann þyrfti að byrja á að takast á við vandamál sem faðir hans og Loðvík bróðir hans (konungur Frakklands 1314-1316) höfðu skilið eftir sig.

Filippus 5.

Hjónaband breyta

Filippus var af Kapet-ætt, næstelsti sonur Filippusar 4. Frakkakonungs og Jóhönnu 1. af Navarra. Árið 1307, þegar Filippus prins var 15 ára, gekk hann að eiga Jóhönnu, eldri dóttur Ottós 4., greifa af Búrgund, árið 1307. Hann var mjög rausnarlegur við hana og jós yfir hana gjöfum og reyndi eins og hann gat að tryggja að hún héldi þeim ef hann skyldi deyja á undan henni. Hann gaf henni hallir og þorp, peninga og gimsteina, eignir allra gyðinga í Búrgund, sem gerðar höfðu verið upptækar.

Þegar systir hennar og frænka, sem voru giftar bræðrum Filippusar, voru hnepptar í fangelsi og dæmdar fyrir hórdóm árið 1314 dróst Jóhanna inn í málið og var sökuð um að hafa vitað af framhjáhaldinu og jafnvel tekið þátt í því. Hún var sett í stofufangelsi en Filippus stóð óhikað með henni og kom því til leiðar að hún var hreinsuð af sök og fékk að koma aftur til hirðarinnar. Margt bendir því til þess að hann hafi verið innilega ástfanginn af henni.

Konungur Frakklands breyta

 
Krýning Filippusar 5.

Þegar Loðvík 10., bróðir Filippusar, dó sumarið 1316 var drottningin, Klementía af Ungverjalandi, með barni og ljóst var að jafnvel þótt það væri sveinbarn og lifði þyrfti ríkisstjóra, fyrst þar til hann fæddist og síðan þar til hann yrði fullveðja. Filippus bolaði keppinautum sínum til hliðar og fékk sig útnefndan ríkisstjóra. Um haustið eignaðist Klementía son, Jóhann 1., en hann lifði aðeins í fimm daga.

Loðvík 10. átti dóttur, Jóhönnu, með fyrri konu sinni en konur áttu ekki erfðarétt samkvæmt frönskum lögum. Ýmsir valdamiklir aðalsmenn viðurkenndu þó ekki þessi lög og vildu Jóhönnu sem drottningu. En annað kom til: Vegna framhjáhaldsdómsins yfir móður hennar lék grunur á að hún væri ekki dóttir Loðvíks. Því varð úr að Filippusi tókst að fá sig krýndan konung 9. janúar 1317 en krýningu hans var víða mótmælt. Hann kallaði þá aðalsmenn í snarhasti á ráðstefnu og tókst þar að afla sér nægilegs stuðnings til að tryggja sig í sessi og hnykkja á því að konur ættu ekki erfðarétt. Hann varð líka konungur Navarra. Þar áttu konur erfðarétt og var því freklega gengið framhjá Jóhönnu bróðurdóttur hans. Hún varð þó drottning þar á endanum, árið 1328.

Filippus hélt áfram að styrkja stöðu sína næsta árið. Hann gifti elstu dóttur sína, Jóhönnu, Ottó 4. hertoga af Búrgund, sem hafði verið helsti andstæðingur hans. Hann kom á ýmsum umbótum í stjórnsýslu, myntkerfi og fleiru og varð nokkuð vinsæll þrátt fyrir uppskerubresti og hungursneyðir á næstu árum. Hann átti í erjum við Róbert 3., greifa af Flæmingjalandi, og Játvarð 2. Englandskonung en ekki kom þó til átaka.

Dauði og erfingjar breyta

Árið 1321 fór hann til Suður-Frakklands til að koma þar á ýmsum umbótum en veiktist þar um haustið, hjarnaði þó við tímabundið en dó í París rétt eftir áramótin 1322, þá 29 ára að aldri.

Filippus átti engan son á lífi og þar sem hann hafði sjálfur látið staðfesta erfðalögin komu dætur hans ekki til greina sem ríkiserfingjar. Það var því yngri bróðir hans, Karl 4., sem tók við konungdæminu. Hann eignaðist heldur ekki son og varð því síðasti konungur af Kapet-ætt.

Filippus og Jóhanna drottning eignuðust tvo syni sem báðir dóu á barnsaldri og fjórar dætur sem komust upp: Jóhönnu, sem giftist Ottó 4. hertoga af Búrgund, Margréti, sem giftist Loðvík 1. af Flæmingjalandi, Ísabellu, sem giftist Guigues de Viennois og Blönku, sem giftist ekki.

Heimild breyta


Fyrirrennari:
Jóhann 1.
Konungur Frakklands
(13161322)
Eftirmaður:
Karl 4.