Filippus 4. Frakkakonungur
Filippus 4. (vor 1268 – 29. nóvember 1314) eða Filippus fagri var konungur Frakklands frá 1285 til dauðadags. Hann var einnig konungur Navarra og greifi af Champagne sem eiginmaður Jóhönnu 1. Navarradrottningar.
Fyrstu konungsárin
breytaFilippus var af Kapet-ætt, sonur Filippusar 3. Frakkakonungs og fyrri konu hans, Ísabellu af Aragóníu. Hann fylgdi föður sínum í herförina til Aragóníu og sá til þess að koma honum og afganginum af liðinu út úr landinu eftir að konungur veiktist og herförin fór út um þúfur. En Filippus 3. dó í Perpignan og Filippus yngri varð konungur, 17 ára að aldri.
Filippus þótti fríður ásýndum og var því kallaður Filippus fagri en var hins vegar stífur og stirður í umgengni og sumir líktu honum við myndastyttu. Hann lagði mikla áherslu á að styrkja vald konungdæmisins og reiddi sig mjög á embættismannakerfi til að fylgja því fram.
Þann 16. ágúst 1284 giftist Filppus Jóhönnu drottningu Navarra, sem hafði erft krúnuna eftir föður sinn, Hinrik 1., árið 1274. Um leið fékk hann yfirráð yfir eignum hennar í Champagne og Brie, sem lágu að eignarlöndum frönsku krúnunnar og voru því mun mikilvægari fyrir Frakkakonung en fjallaríkið Navarra. Navarra og Frakkland höfðu þó sama þjóðhöfðingja til 1329 en þá skildi leiðir.
Stríð við Játvarð 1.
breytaJátvarður 1. Englandskonungur var jafnframt hertogi af Akvitaníu og því lénsmaður Filippusar og þurfti að votta honum hylli sína. Játvarður var giftur Margréti, hálfsystur Filippusar og samskipti þeirra höfðu verið góð, en fóru að versna eftir fall Akkó 1291.
Árið 1293 kvaddi Filippus Játvarð til frönsku hirðarinnar en Játvarður var önnum kafinn í hernaði í Skotlandi og sinnti ekki kvaðningunni. Filippus greip tækifærið og svipti Játvarð öllum lénum hans í Frakklandi. Þetta leiddi til styrjaldarátaka og var barist um yfirráð yfir Gaskóníu í Suðvestur-Frakklandi, fyrst 1294-1298 og aftur 1300-1303.
Gengið var til friðarsamninga í París 1303 og þar var meðal annars samið um að Ísabella, dóttir Filippusar, skyldi giftast prinsinum af Wales. Þau giftust svo 1308 en í stað þess að innsigla frið milli landanna má að einhverju leyti rekja rætur Hundrað ára stríðsins til þessa hjónabands.
Gyðingar og musterisriddarar ofsóttir
breytaFilippusi veittist erfitt að afla fjár til að kosta átökin og meðal annars handtók hann gyðinga og gerði eigur þeirra upptækar og gerði þá að lokum útlæga úr öllu Frakklandi 22. júlí 1306. Þeir fengu þó að koma aftur 1315. Hann felldi líka gengi gjaldmiðilsins og lagði skatta á franska klerka sem námu helmingi af árstekjum þeirra. Það leiddi til langvinnra deilna við páfann en Filippus hafði betur og kom því til leiðar að aðsetur páfa var flutt til Avignon.
Filippus var stórskuldugur Musterisriddurunum, sem höfðu stundað bankastarfsemi í tvær aldir. Eftir að krossferðirnar voru úr sögunni nutu þeir ekki jafnmikils stuðnings og áður og Filippus greip tækifærið og leysti regluna upp til að losna við skuldir sínar. Föstudaginn 13. október 1307 lét hann handtaka hundruð musterisriddara víða um Frakkland og beita þá pyntingum til að fá þá til að játa að reglan ástundaði trúvillu.
Musterisriddararnir áttu einungis að vera ábyrgir gagnvart páfanum en Klemens V var Filippusi leiðitamur. Hann reyndi þó að efna til réttarhalda yfir riddurunum en þá hafði Filippus þegar látið brenna marga þeirra á báli. Síðasti stórmeistari reglunnar, Jacques de Molay, var brenndur árið 1314. Sagt var að hann hefði bölvað bæði konungi og páfa á banastundinni og sagst mundu kalla þá fyrir dómstól Drottins innan árs. Bæði Filippus konungur og Klemens V páfi voru dánir innan árs.
Nesleturnsmálið og dauði Filippusar
breytaFilippus og Jóhanna drottning áttu sjö börn. Þrjú dóu ung en þrír synir þeirra komust upp og urðu allir konungar Frakklands, hver eftir annan - Loðvík 10, Filippus 5. og Karl 4. - en urðu allir skammlífir og enginn þeirra eignaðist son sem lifði, svo að Valois-ætt dó út með þeim. Dóttir Filippusar og Jóhönnu, Ísabella, giftist Játvarði 2. Englandskonungi og varð drottning Englands.
Árið 1314 voru tengdadætur Filippusar 4., Margrét af Búrgund (kona Loðvíks 10.) og Blanka af Búrgund (kona Karls 4.) ásakaðar um hórdómsbrot í hinu svokallaða Nesleturnsmáli. Þeim var varpað í dýflissu og meintir elskhugar þeirra voru pyntaðir og teknir af lífi. Þriðja tengdadóttirin, Jóhanna 2. (kona Filippusar 5.) var sökuð um að hafa vitað af framhjáhaldinu eða jafnvel tekið þátt í því en maður hennar stóð með henni og henni var sleppt.
Sagt er að Filippus hafi tekið þetta mál mjög nærri sér og það hafi jafnvel flýtt fyrir dauða hans. Hann fékk slag þegar hann var á veiðum haustið 1314 og dó nokkrum vikum síðar í Fontainebleau. Loðvík 10. sonur hans tók við krúnunni.
Heimild
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Philip III of France“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 2. október 2010.
Fyrirrennari: Filippus 3. |
|
Eftirmaður: Loðvík 10. |